Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Það helsta í sjálfbærni árið 2018

Ábyrgar lánveitingar, heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og umfangsmikil fræðsla fyrir almenning var meðal þess sem einkenndi samfélagsábyrgð Íslandsbanka árið 2018.


Ein af stefnuáherslum Íslandsbanka er samfélagsábyrgð og hafði bankinn á árinu 2018 að leiðarljósi í öllum verkefnum að vera jákvætt hreyfiafl í samfélaginu. Áhersla var á fimm meginstoðir: viðskipti, fræðslu, umhverfi, vinnustað og samfélag.

10 grundvallarviðmið Sameinuðu þjóðanna um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem Íslandsbanki hefur skuldbundið sig til að starfa eftir

  • Mannréttindi - viðmið 1: Fyrirtæki styðja og virða vernd alþjóðlegra mannréttinda.

  • Mannréttindi - viðmið 2: Fyrirtæki fullvissa sig um að þau gerist ekki meðsek um mannréttindabrot.

  • Vinnumarkaður - viðmið 3: Fyrirtæki styðja við félagafrelsi og viðurkenna í raun rétt til kjarasamninga.

  • Vinnumarkaður - viðmið 4: Fyrirtæki tryggja afnám allrar nauðungar- og þrælkunarvinnu.

  • VInnumarkaður - viðmið 5: Virkt afnám allrar barnavinnu er tryggt.

  • Vinnumarkaður - viðmið 6: Fyrirtæki styðja afnám misréttis til vinnu og starfsvals.

  • Umhverfismál - viðmið 7: Fyrirtæki sýni varúð í umhverfismálum.

  • Umhverfismál - viðmið 8: Fyrirtæki hafi frumkvæði að því að hvetja til aukinnar ábyrgðar gagnvart umhverfinu.

  • Umhverfismál - viðmið 9: Fyrirtæki hvetji til þróunar og nýtingar á umhverfisvænni tækni..

  • Gegn spillingu - viðmið 10: Fyrirtæki vinni gegn hvers kyns spillingu, þar með talið kúgun og mútum.

Sjálfbærni og ábyrgð í viðskiptum

Íslandsbanki lagði á árinu ríka áherslu á ábyrgar fjárfestingar en það er nálgun sem miðar að því að taka tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta þegar fjárfest er í fyrirtækjum til þess að hafa betri stjórn á áhættu og hafa sjálfbæra langtíma hugsun að leiðarljósi. Einnig var tekið stórt skref á árinu með stofnun dótturfélags bankans, Íslandssjóða, á fyrsta innlenda græna skuldabréfasjóðsins.

Öflugt fræðslustarf

Fræðslustarf Íslandsbanka hefur sjaldan verið umfangsmeira en árið 2018. Haldnir voru 96 fræðslufundir og erindi fyrir tæplega 5.300 gesti og um 9.000 áhorfendur á vefnum. Þetta er í takt við eitt af markmiðum Íslandsbanka sem er að auka þekkingu á fjármálum með því að bjóða upp á aðgengilega og áhugaverða fræðslu um fjármál og efnahagsmál.

Nýr hlaðvarpsþáttur hóf göngu sína og voru 70 myndbönd birt á samfélagsmiðlum sem horft var í 140.000 skipti.

Meðal þess sem rætt var um á fræðslufundum bankans var:

  • Fjármál við starfslok
  • Íslenskt fjármálakerfi - fyrir flóttafólk
  • Sparnaður og fjárfestingar
  • Að kaupa sína fyrstu íbúð
  • Fjármálalæsi fyrir ungt fólk
  • Efnahagsmál
  • Fjármögnun fyrirtækjareksturs

Jákvæð umhverfisáhrif

Íslandsbanki hefur á undanförnum árum stigið mjög ákveðin skref í því að hafa jákvæð áhrif á umhverfið. Loftslagsmálin hafa verið tekin föstum tökum hjá bankanum og skrifaði Íslandsbanki árið 2015 undir samning við Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, um aðgerðir í loftslagsmálum. Það er í samræmi við 13. markmið heimsmarkmiðanna um að auka viðbragðsáætlanir og forvarnir við vá af völdum loftslagsbreytinga og náttúruhamfara alls staðar í heiminum.

Jafnréttismál í forgrunni

Íslandsbanki hefur unnið mjög öflugt starf í jafnréttismálum og tók starfsfólk og stjórnendur virkan þátt í jafnréttisumræðu á árinu. Bankinn hefur haldið fundi um jafnrétti árlega sem samtals yfir 2.000 manns hafa sótt. Á árinu var fjallað um þróun kvenna og karla í ólíkum atvinnugreinum.

Hjálparhönd til góðra verka

Íslandsbanki leggur metnað sinn í að hafa jákvæð áhrif á samfélagið með stuðningi við góð málefni. Verkefni njóta ýmist fjárstuðnings eða starfsfólk bankans réttir hjálparhönd með vinnuframlagi til góðra málefna. Íslandsbanki býður starfsfólki sínu að leggja sitt af mörkum til góðgerðarmála. Starfsfólk bankans getur varið einum vinnudegi á ári í þágu góðs málefnis og velur sér sjálft það málefni sem það vill veita liðsinni. Um er að ræða sjálfboðaliðastörf fyrir góðgerðarfélög en yfir 400 starfsmenn veittu hjálparhönd árið 2018.

Norrænt samstarf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Íslandsbanki gerðist aðili að Nordic CEOs for a Sustainable Future á síðasta ári en það eru samtök stórra fyrirtækja á Norðurlöndunum sem munu vinna sameiginlega að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í hópnum eru m.a. forsvarsmenn Equinor, Hydro, GSMA, Íslandsbanka, Nokia, SAS, Swedbank, Telenor Group, Telia Company, Vestas og Yara.

Jafnrétti er mikilvægt

„Við erum stolt af því að vinna með þessum hópi að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og nýta slagkraft fyrirtækja á Norðurlöndunum sem standa framarlega í heiminum þegar kemur að samfélagsábyrgð. Við í Íslandsbanka höfum um langt skeið lagt mikla áherslu á jafnréttismál, innan sem utan bankans, sem er heimsmarkmið númer fimm. Við finnum að það er horft mikið til árangursins sem náðst hefur á Íslandi í jafnréttismálum og við munum halda þeirri umræðu áfram á lofti.“

- Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka við setningu Nordic CEOs for a Sustainable Future