Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Áratugur samfelldrar kaupmáttaraukningar á enda

Kaupmáttur launa í júnímánuði var 0,7% minni en fyrir ári síðan þrátt fyrir ríflega 8% hækkun meðallauna. Undanfarin misseri hefur kaupmáttur aukist mest hjá láglaunahópum en minna hjá þeim hópum sem höfðu hærri laun þegar Lífskjarasamningurinn tók gildi. Útlit er fyrir að kaupmáttur rýrni áfram út árið en þróunin snúist við þegar líður á næsta ár.


Launavísitala Hagstofunnar var nær óbreytt í júnímánuði frá mánuðinum á undan. Vísitalan, sem endurspeglar tímakaup reglulegra launa á íslenskum vinnumarkaði, hefur hækkað um 6,3% frá áramótum. Frá júní árið 2021 til síðastliðins júní hækkaði vísitalan hins vegar um 8,1%. Þorri launafólks fékk tvær samningsbundnar launahækkanir á þessu tímabili, annars vegar reglubundna hækkun um áramót en hins vegar hagvaxtaraukann sem bættist við mánaðarlaun frá og með apríl síðastliðnum.

Þótt hækkun launa hafi verið talsverð á tímabilinu hefur vaxandi verðbólga þó elt hana uppi. Júní var þannig fyrsti mánuður frá maí árið 2010 þar sem kaupmáttur launa mældist minni heldur en á sama tíma ári fyrr. Samkvæmt vísitölu Hagstofunnar mældist kaupmáttur launa 0,7% minni í júnímánuði en á sama tíma í fyrra enda var verðbólga 8,8% á tímabilinu.

Kaupmáttarþróun ólík eftir tekjuhópum

Lífskjarasamningurinn og þeir samningar sem á honum byggja hafa þá sérstöðu meðal kjarasamninga undanfarinna ára að þeir byggja á krónutöluhækkun launa fremur en hlutfallslegri hækkun á samningstímanum. Auk þess voru krónutölur hærri fyrir þá hópa sem taka laun samkvæmt samningstöxtum en hina sem fá laun umfram samningstaxta. Tilgangur þessa var að hækka tekjur lægri tekjuhópa hlutfallslega meira en tekjur hinna sem hærri höfðu laun í ársbyrjun 2019.

Ekki verður annað séð en að þetta hafi gengið eftir og enn sem komið er sjást ekki mikil merki þess í gögnum Hagstofunnar að launaskrið hærri tekjuhópa hafi elt þær umtalsverðu prósentuhækkanir sem Lífskjarasamningurinn tryggði láglaunafólki.

Sundurliðuð launagögn Hagstofunnar ná einungis til apríl síðastliðins. Þau sýna hins vegar skýrt að hlutfallshækkun launa á almennum vinnumarkaði hefur verið býsna mismunandi eftir starfsstéttum. Þannig höfðu laun stjórnenda hækkað hlutfallslega minnst í apríl frá apríl 2021, eða um 5,9%. Þar á eftir komu iðnaðarmenn (6,8%), sérfræðingar (6,9%), tæknar og sérmenntað starfsfólk (7,1%) og skrifstofufólk (8,1%). Verkafólk (10,6%) og fólk í almennum þjónustustörfum (10,2%) hafði hins vegar fengið hlutfallslega mesta hækkun á tímabilinu.

Eins og sjá má á myndinni speglast þessar prósentutölur í miðgildislaunum viðkomandi hópa þar sem fer saman hærri laun árið 2021 og minni hlutfallsleg hækkun á tímabilinu. Hafi þróunin verið áþekk undanfarna mánuði, sem við teljum líklegt, má draga þá ályktun að verkafólk og fólk í almennum þjónustustörfum njóti enn lítilsháttar kaupmáttaraukningar á meðan kaupmáttur hinna tekjuhærri hópa hefur skroppið allnokkuð saman undanfarið ár.

Starfsfólk sveitarfélaga sker sig úr

Hið sama á við að hluta þegar skoðuð er launaþróun á almennum markaði annars vegar og í opinbera geiranum hins vegar. Í apríl höfðu meðallaun á almenna markaðinum hækkað um 8,2% og ríkisstarfsmenn hækkað um 8,0% á sama tíma. Laun starfsfólks sveitarfélaga höfðu hins vegar hækkað um 10,6% á sama tíma en laun þess hóps (665 þúsund) voru lægst af hópunum þremur sé miðað við miðgildi launa árið 2021. Athygli vekur hins vegar að miðgildislaun ríkisstarfsmanna (824 þúsund) voru hærri árið 2021 en miðgildislaun á almennum vinnumarkaði (722 þús.) samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Einnig hefur áhrif í útreikningi á launavísitölu einstakra hópa að stytting vinnutíma var nokkuð mismunandi milli hópa og fékk starfsfólk hins opinbera að jafnaði nokkru meiri styttingu en fólk á almennum vinnumarkaði á tímabilinu frá mars 2019 til september 2021.

Aftur hagvaxtaauki næsta ár?

Tilgangur hagvaxtaraukans sem kom í fyrsta sinn til framkvæmda í apríl síðastliðnum var að launafólk fengi hlutdeild í aukinni verðmætasköpun í hagkerfinu. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að ekki var tekinn með í reikninginn sá möguleiki að djúpur efnahagssamdráttur yrði árið eftir að samningarnir voru gerði. Myndarlegur hagvöxtur í fyrra endurspeglaði því þá staðreynd að hagkerfið var að komast á svipaðan stað í verðmætasköpun og fyrir faraldur en ekki að stækka að raunvirði.

Síðasta þrep hagvaxtaraukans kemur til framkvæmda í apríl á næsta ári þrátt fyrir að gildistími Lífskjarasamningsins sé að öðru leyti til októberloka í ár. Hagvaxtaraukinn byggir á reiknuðum hagvexti á mann árið á undan samkvæmt fyrstu tölum Hagstofunnar. Miðað við þjóðhagsspá okkar frá maí síðastliðnum og mannfjöldaspá Hagstofunnar verður hagvöxtur á mann 2,7% í ár og hagvaxtaraukinn því sama fjárhæð á næsta ári og hann var í apríl síðastliðnum. Þá fékk fólk á taxtalaunum 10.500 kr. launahækkun en aðrir 7.875 kr. hækkun.

Frekari rýrnun kaupmáttar framundan næsta kastið

Útlit er fyrir að verðbólga verði áfram í kring um 10% út árið en hún mældist 9.9% í júlí. Spá okkar gerir ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um tæp 4% fram til áramóta. Þar sem ekki er útlit fyrir að laun hækki almennt að ráði út árið mun kaupmáttur almenns launafólks því skreppa nokkuð saman út árið. Í þjóðhagsspá okkar er áætlað að kaupmáttur launa skreppi að jafnaði saman um 0,6% í ár. Verðbólguþróunin síðan spáin var birt bendir svo til þess að kaupmátturinn skreppi nokkuð meira saman á þessu ári. Hjaðnandi verðbólga ætti svo að snúa þeirri þróun við á næsta ári og kaupmáttur launa að vaxa á ný eins og hann hafði gert sleitulaust undanfarinn áratug.

Útkoma þeirrar kjarasamningalotu sem í hönd fer á komandi mánuðum mun þó ráða miklu, bæði um verðbólguþróunina og þróun kaupmáttar. Síðast en ekki síst mun uppbygging samninganna ríða baggamuninn um hvernig kaupmáttaraukningin skiptist milli mismunandi launþegahópa. Á gildistíma Lífskjarasamningsins hefur aukning kaupmáttar verið mest hjá láglaunahópum en minni hjá þeim sem hærri höfðu launin í upphafi samningstímans.

HÖfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband