Peningastefnunefnd ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, næstu vikurnar í það minnsta, en þeir hafa lækkað um 2,0% frá áramótum. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því áfram 1,0% og hafa ekki verið lægri frá því verðbólgumarkmið var tekið upp 2001 en næsta vaxtaákvörðun verður 7. október.
Áhugaverð Peningamál en tíðindalítil vaxtaákvörðun
Seðlabankinn birti nýja þjóðhagsspá og Peningamál samhliða vaxtaákvörðun í gær. Ákveðið var að halda vöxtum óbreyttum, næstu vikurnar í það minnsta. Þjóðhagsspáin hefur tekið þó nokkrum breytingum frá fyrri spá bankans en m.a. er spáð minni samdrætti á árinu, meiri verðbólgu og minna atvinnuleysi. Horfur á seinni hluta árs eru heldur lakari en spáð var fyrir um í maí en á móti vegur umtalsvert kröftugri einkaneysla í vor og sumar.
Nokkuð bjartari horfur
Í maí síðastliðnum spáði Seðlabankinn 8% samdrætti á vergri landsframleiðslu (VLF) á árinu en uppfærð spá þeirra hljóðar upp á 7,1% samdrátt. Það sem vegur þyngst er hve snarpt einkaneyslan tók við sér eftir að létt var á sóttvarnaraðgerðum í vor og sumar. Veltutölur greiðslukorta gefa til kynna að Íslendingar hafa varið hluta þeirra tekna sem áður var ráðstafað til utanlandsferða í ferðalög og aðra neyslu innanlands. Einnig er minnst á að viðsnúningur í komum ferðamanna til landsins var meiri en við var búist eftir slökun sóttvarnaraðgerða á landmærunum. Nú þegar aðgerðir hafa verið hertar á nýjan leik er spá Seðlabankans um framhaldið í mestu óbreytt en vegna aukins fjölda ferðamanna í júní og júlí hefur bankinn uppfært spá sína í 75% fækkun ferðamannafjölda frá fyrra ári (úr 80%).
Þetta er ívið bjartsýnni spá en kynnt var í síðustu útgáfu Peningamála í maí. Seðlabankinn telur að samdráttur í útflutningi sjávarafurða á þessu ári verði ekki jafn mikill og áður var áætlað. Dæmið snýst þó við þegar litið er á spá bankans fyrir næsta ár. Þá er nokkru minni hagvexti spáð en áður hafði verið gert. Líkt og fyrri daginn er þó tekið fram að óvissan sé gríðarleg og þróun efnahagsmála ráðist á framvindu COVID veirunnar.
Aukin verðbólga og töluvert atvinnuleysi
Verðbólguspá bankans hefur þokast upp á við það sem af er ári og gert er ráð fyrir meiri verðbólgu næstu tvö ár í það minnsta. Á upplýsingafundi bankans í gær var nefnt að verðbólgan á upphafspunkti spátímans sé nokkuð hærri (3,0% fyrir júlí) en einnig hafi alþjóðlegt hrávöruverð lækkað minna en gert var ráð fyrir. Spáð er 2,6% verðbólgu að jafnaði á þessu ári og spilar lækkun á gengi krónunnar veigamikinn þátt en verðbólgan hefur þó haldist tiltölulega stöðug þrátt fyrir um 12% veikingu frá því að farsóttin barst til landsins. Verðbólguvæntingar markaðsaðila til meðallangs og langs tíma hafa þó lítið breyst og virðist vera talsverð trú á verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Spá bankans um atvinnuleysi frá því í maí hefur breyst töluvert en gert er ráð fyrir að það nái hámarki í lok árs (10%) og verði að jafnaði 7,2% á árinu. Fyrri spá Seðlabankans gerði ráð fyrir 8,7% atvinnuleysi en vegna hagstæðari þróunar efnahagsmála á fyrri hluta ársins jókst atvinnuleysi ekki eins mikið og óttast var. Það sem vegur til lækkunar á nýrri spá bankans er minnkandi atvinnuþátttaka vegna brottflutnings erlends vinnuafls og fjölgun hlutastarfa. Á næsta ári spáir bankinn þó um 0,7% meira atvinnuleysi (7,9%) en spáin helst óbreytt fyrir 2022.
Útiloka ekki breytingu á stýrivöxtum seinna árinu
Mikil þoka liggur yfir efnahagslífi heimsins og erfitt er að spá stundina. Þó svo engar breytingar hafi verið gerðar á stýrivöxtum að sinni útilokar Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri ekki að frekari aðgerðir verði framkvæmdar seinna á árinu. Áhrif róttækra aðgerða bankans á fyrri hluta ársins séu ekki að fullu komin fram þó viðbrögð heimilanna hafi vissulega verið meiri en við var búist. Það verður spennandi að fylgjast með næstu stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans þann 7. október næstkomandi. Ætla má að ákvörðun um lækkun, hækkun eða óbreytta stýrivexti muni ráðast af því hvort einkaneysla muni halda dampi í haust, verðbólgan fari að stíga eða fjárfesting fyrirtækja taki við sér en þangað til er ómögulegt að vita með vissu.