Þetta fór nú ekki alveg eins og á horfðist í upphafi. Áður en Covid-19 faraldurinn skall á hafði íbúðaverð náð ágætis jafnvægi eftir miklar verðhækkanir árin 2016 og 2017. Ástæða þeirra hækkana var að lítið hafði verið byggt af nýjum íbúðum árin eftir efnahagsáfallið og því myndaðist töluverð umframeftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Verðið tók að hækka að nýju á sumarmánuðum 2020, þegar fyrstu efnahagslegu áhrifa faraldursins varð vart. Fyrst um sinn hækkaði verð í takti við kaupmátt launa, en árið 2021 tók raunverð íbúða að hækka mun hraðar en kaupmáttur. Það ár námu hækkanir ríflega 10% að raunvirði á sama tíma og kaupmáttur launa jókst um nær 4%. Enn í dag ríkir mikil eftirspurnarspenna á markaði og á fyrsta fjórðungi þessa árs hefur íbúðaverð hækkað um tæplega 3% að raunvirði þrátt fyrir mikla verðbólgu, sem er langt umfram þá þætti sem alla jafna ráða þróun þess.
Hvers vegna hækkar íbúðaverð svona hratt?
Það er mjög óvenjulegt að íbúðaverð hækki svo hratt á sama tíma og hagkerfi dregst saman, líkt og raunin var eftir að faraldurinn skall á og báru fyrstu spár um framvindu íbúðaverðs þess merki. Vissulega var farið í eftirspurnarhvetjandi aðgerðir hér á landi til að dempa þann efnahagsskell sem faraldurinn hefði óhjákvæmilega í för með sér. Eins og flestum er kunnugt lækkaði Seðlabankinn stýrivexti allmyndarlega og sögulega séð hafa vextir aldrei verið jafn lágir hér á landi og á þessum tíma. Þetta leiddi til þess að vextir á íbúðalánum lækkuðu mikið og fólk gat í auknum mæli ráðist í íbúðarkaup. Þó lækkun vaxta spili stóran þátt í íbúðaverðshækkunum höfðu aðrir þættir einnig áhrif. Þar má helst nefna góða stöðu heimilanna í gegnum faraldurinn. Heimilin stóðu almennt styrkum fótum þrátt fyrir krepputíð og sem dæmi jókst bæði kaupmáttur þeirra og sparnaður.
Þessi þróun íbúðaverðs í faraldrinum er ekki einungis bundin við Ísland og það sama er uppi á teningnum víðast hvar í kringum okkur. Sem dæmi hækkaði íbúðaverð um ríflega 9% í OECD löndunum árið 2021 og í Bandaríkjunum um 11% á sama tíma. Líkt og hér á landi hafa aðgerðir stjórnvalda í mörgum löndum haft örvandi áhrif á eignamarkaði og þar af leiðandi hefur íbúðaverð hækkað hratt víðs vegar um heiminn.
Kórónu-áhrifin
Það má ekki gleyma að nefna Kórónuáhrifin svokölluðu sem líklegt er að hafi átt sinn þátt í hækkun íbúðaverðs. Til að mynda jókst eftirspurn eftir sérbýli í faraldrinum til muna sem varð til þess að verð á þeim hækkaði mun hraðar en á fjölbýli. Mestur var munurinn um mitt árið 2021 þegar árshækkun sérbýlis mældist tæplega 20% en hækkun á fjölbýli rúmlega 12% á sama tímabili.