Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Ágætur viðskiptaafgangur og sterk erlend staða á síðasta ári

​Viðskiptaafgangur á síðasta ári nam tæpum 3% af VLF. Það er minnsti afgangur frá árinu 2012, en engu að síður myndarlegur afgangur í sögulegu samhengi.


Viðskiptaafgangur á síðasta ári nam tæpum 3% af VLF. Það er minnsti afgangur frá árinu 2012, en engu að síður myndarlegur afgangur í sögulegu samhengi. Árið 2018 var sjötta árið í röð þar sem umtalsverður afgangur mældist af viðskiptajöfnuði. Erlendar eignir þjóðarbúsins umfram skuldbindingar námu tæplega 10% af VLF um síðustu áramót og stendur þjóðarbúið sem fyrr styrkum fótum í alþjóðlegu tilliti hvað þetta varðar.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans nam viðskiptajöfnuður á síðasta fjórðungi ársins 2018 tæpum 300 m.kr. Þegar lá fyrir að halli á vöruskiptum nam 37 ma.kr. en afgangur á þjónustujöfnuði var 33,4 ma.kr. Hins vegar kom á daginn að frumþáttatekjur skiluðu 10 ma.kr. afgangi og rekstrarframlög ríflega 6 ma.kr. halla. Var það hagfelldari niðurstaða þessara þátta í heild en við höfðum vænst og virðist hún að verulegu leyti eiga rót í bókfærðu tapi af beinni fjárfestingu erlendra aðila hér á landi.

Kúvending í viðskiptajöfnuði á síðustu árum

Á árinu 2018 í heild nam viðskiptaafgangur 81 ma.kr. sem samsvarar 2,9% af vergri landsframleiðslu (VLF). Til samanburðar var afgangurinn 95 ma.kr. árið áður og árin fjögur þar á undan var afgangurinn að jafnaði 142 ma.kr. Minni afgangur á milli ára skýrist af minnkandi þjónustuafgangi, en hann nam 246 mö.kr. í fyrra eftir 271 ma.kr. afgang árið 2017. Á móti vó að vöruskiptahalli minnkaði um 5 ma.kr. og afgangur af frumþáttatekjum jókst um 8 ma.kr. á milli ára.

Þótt dregið hafi úr viðskiptaafgangi milli ára er þessi niðurstaða nokkuð yfir því sem við höfðum vænst (70-75 ma.kr. afgangur). Í sögulegu ljósi er þetta einnig prýðileg niðurstaða, enda fátítt að sjá afgang af viðskiptajöfnuði hérlendis þegar jafn langt er liðið á hagsveifluna og raungengi mælist jafn hátt og það var að jafnaði á síðasta ári. Má þar nefna að á tímabilinu 1970-2010 voru aðeins sex ár þar sem viðskiptaafgangur mældist og hann var þar að auki mun minni að jafnaði þau ár en hann var undanfarin sex ár. Er þetta til marks um verulega breytingu til batnaðar í utanríkisviðskiptum með tilkomu ferðaþjónustunnar sem meginstoðar í útflutningstekjum og bættri erlendri stöðu þjóðarbúsins.

Erlend staða þjóðarbúsins áfram sterk

Seðlabankinn birti raunar einnig tölur um erlenda stöðu þjóðarbúsins í árslok 2018. Hrein staða þjóðarbúsins var jákvæð um 276 ma.kr. eða 9,9% af VLF um áramótin. Er það nokkru lakari staða en í lok 2. ársfjórðungs (12,6% af VLF) en þó næstbesta staða þjóðarbúsins í nútíma hagsögu Íslands þar sem umtalsverðar erlendar skuldir umfram eignir voru reglan fram á þennan áratug. Rýrnun erlendu stöðunnar á lokafjórðungi ársins skrifast að langstærstum hluta af 13% verðlækkun á erlendum verðbréfamörkuðum á tímabilinu, en bróðurparturinn af erlendum eignum lífeyrissjóðanna er í hlutabréfasjóðum og einstökum hlutabréfum. Þar er svo huggun harmi gegn að þessi verðlækkun hefur að stærstum hluta gengið til baka það sem af er þessu ári og því ágætar líkur á að erlenda staðan batni talsvert að nýju í næstu mælingu.

Afgangur og batnandi erlend staða í kortunum fyrir þetta ár

Horfur eru á að 2019 verði sjöunda árið í röð þar sem talsverður afgangur mælist af viðskiptajöfnuði. Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í janúar síðastliðnum spáðum við afgangi upp á 2,8% af VLF í ár. Síðan hafa horfur í ferðaþjónustu og sjávarútvegi heldur dökknað, en á móti gæti komið minni innflutningsvöxtur en við spáðum í janúar. Eftir sem áður teljum við því að afgangur verið af utanríkisviðskiptum út yfirstandandi áratug, sem svo aftur ætti að fela í sér enn frekari bata á erlendri stöðu þjóðarbúsins.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst