Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afstýrði Reykjanesóróinn vaxtahækkun?

Óvissa tengd jarðhræringunum á Reykjanesi kom líklega í veg fyrir vaxtahækkun Seðlabankans á síðasta vaxtaákvörðunardegi þessa árs. Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er þó aðhaldssöm. Líkur á frekari hækkun stýrivaxta á fyrri helmingi næsta árs hafa því aukist að því gefnu að þróunin á Reykjanesi verði tiltölulega hagfelld.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun ákvörðun peningastefnunefndar um að halda stýrivöxtum, þ.e. vöxtum á 7 daga bundnum innlánum, óbreyttum í 9,25%. Ákvörðunin var í samræmi við birtar spár sem gert höfðu ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Hins vegar var framsýn leiðsögn í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar nokkuð aðhaldssöm og má ráða af henni að líklega hefðu stýrivextir verið hækkaðir nú ef ekki hefði komið til óvissa tengd jarðhræringunum á Reykjanesi.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Verðbólga minnkaði lítillega milli mánaða í október og mældist 7,9%.
  • Undirliggjandi verðbólga hefur einnig hjaðnað.
  • Áfram eru vísbendingar um að tekið sé að hægja á einkaneyslu og fjárfestingu.
  • Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans hafa verðbólguhorfur þó versnað.
  • Spennan í þjóðarbúinu hefur reynst meiri en áður var talið og gengi krónunnar hefur lækkað.
  • Verðbólguvæntingar hafa jafnframt haldist háar og kostnaðarhækkanir virðast hafa meiri og langvinnari áhrif á verðbólgu en áður.

Sem fyrr segir er framsýn leiðsögn peningastefnunefndar aðhaldssamari en við áttum von á í ljósi aðstæðna.

Hún hljóðar svo:

  • Þótt áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram benda verri verðbólguhorfur til þess að það gæti þurft að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Þrátt fyrir það hefur peningastefnunefnd ákveðið að halda vöxtum óbreyttum að sinni í ljósi þeirrar óvissu sem ríkir um efnahagsleg áhrif jarðhræringa á Reykjanesi. Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Við túlkum þessa málsgrein þannig að líklega hefði nefndin hækkað stýrivexti nema fyrir óvissuna tengda Reykjanesi. Við sjáum raunar ekki þörfina á þessu aðhaldssama orðalagi í ljósi aðstæðna og þess hve óvissan um þróun á Reykjanesi yfirskyggir í bili hina hefðbundnu ákvörðunarþætti peningastefnunnar. Heppilegra hefði verið að mati okkar að slá hlutlausari tón líkt og gert var í október og taka stöðuna á ný við næstu vaxtaákvörðun í febrúarbyrjun 2024. Horfum við þar einnig til þess að nýjustu hagvísar á borð við Væntingavísitölu Gallup og kortaveltu benda til þess að viðsnúningur í innlendri eftirspurn gæti orðið snarpari en útlit var fyrir.

Auk þess má nefna að næsti vaxtaákvörðunardagur verður samkvæmt birtingadagatali Seðlabankans þann 7. febrúar nk. en þá verða kjarasamningar á stórum hluta almenna vinnumarkaðarins nýlega lausir og gæti það verið gagnlegt fyrir framgang þeirra að samningsaðilar hefðu bæði gulrót í formi möguleika á lægri vöxtum sem og prik í formi hættu á hækkun vaxta eftir því hvernig kjarasamningum lyktar.

Lítið breyttar hagvaxtarhorfur

Uppfærð hagspá var birt í Peningamálum samhliða stýrivaxtaákvörðuninni en sú spá tekur ekki miklum breytingum frá fyrri spá sem birt var í ágústlok. Seðlabankinn spáir þó aðeins meiri hagvexti í ár og gerir ráð fyrir að hann verði 3,7% í stað 3,5% sem bankinn spáði í ágúst. Munar þar mestu um meiri vöxt ferðaþjónustunnar. Næstu tvö árin breytast horfurnar um hagvöxt frekar lítið. Hagvöxtur helst óbreyttur á næsta ári í 2,6% og eykst svo lítillega árið 2025 þegar bankinn spáir 2,9% hagvexti í stað 2,7% í ágúst.

Eins og sést á myndinni hér að ofan er spá Seðlabankans talsvert bjartsýnni fyrir þetta ár en spá okkar í Greiningu Íslandsbanka. Við spáum 2,2% hagvexti í ár en spá okkar er frá því í september. Helsti munurinn liggur í að Seðlabankinn spáir samdrætti í innflutningi en við gerum ráð fyrir 5% vexti. Hagvaxtarspár fyrir næstu tvö árin eru mjög svipaðar.

Spenna á vinnumarkaði áfram nokkur en fer minnkandi

Enn er töluverð spenna á vinnumarkaði en vísbendingar eru um að hún fari minnkandi samkvæmt Seðlabankanum. Bankinn spáir að atvinnuleysi verði 3,4% í ár og aukist í 4,8% á næsta ári samhliða minni spennu á vinnumarkaði sem varir fram á árið 2025. Miðað við fyrri spá bankans gerir hann ráð fyrir svipuðu atvinnuleysi í ár en nokkuð meira atvinnuleysi á næsta ári.

Seðlabankinn spáir talsvert meira atvinnuleysi næstu tvö árin en aðrir greiningaraðilar og þá sérstaklega á næsta ári. Að mati bankans endurspeglar það aukið taumhald peningastefnunnar og minnkandi vinnuaflseftirspurn vegna hækkunar á launakostnaði.

Verðbólguhorfur versna

Nærhorfur verðbólgunnar hafa versnað frá ágústspánni vegna meiri spennu í þjóðarbúinu og lægra gengis krónunnar. Seðlabankinn uppfærði verðbólguspá sína fyrir þetta ár úr 8,6% í 8,7% en mestu munar um verðbólguhorfurnar árið 2024, þar sem bankinn uppfærði verðbólguspá sína úr 4,6% í 5,7%. Að okkar mati er það raunsærri spá en eins og sést á myndinni hér að neðan spáum við í Greiningu Íslandsbanka 6,1% verðbólgu að jafnaði árið 2024.

Óvissa um verðbólguhorfur til skamms tíma hafa aukist töluvert í ljós lægra gengi krónunnar vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Verðbólguhorfur næstu misserin munu litast af þróun á húsnæðismarkaði og hvernig kjarasamningar munu þróast en þeir losna hver á fætur öðrum í byrjun næsta árs.

Hvað er framundan í stýrivöxtunum?

Við teljum ennþá líklegt að stýrivöxtunum verði haldið óbreyttum enn um hríð en líkur á vaxtahækkun á fyrstu mánuðum næsta árs hafa þó aukist. Þróunin á Reykjanesi næstu vikur og mánuði mun vitaskuld ráða miklu þar um en einnig verður framgangur kjaraviðræðna og niðurstaða kjarasamninga væntanlega talsvert stór áhrifaþáttur þegar líður á veturinn. Það eru því allnokkrar líkur á hækkun vaxta í febrúarbyrjun ef mál þróast með tiltölulega hagfelldum hætti á Reykjanesi.

Vextir muni síðan taka að lækka þegar líður á árið 2024 samhliða hjaðnandi verðbólgu og minnkandi spennu í efnahagslífinu. Líkur hafa hins vegar aukist á því að sú vaxtalækkun bíði fram á seinni helming næsta árs með fyrrgreindum fyrirvara um þau áhrif sem mögulegt gos á Reykjanesi gæti haft.

Viðbrögð á verðbréfamörkuðum það sem af er degi benda til þess að vaxtavæntingar á markaði hafi þokast upp á við. Þannig hefur ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækka um 7 – 16 punkta (hundraðshluta úr prósentu) þegar þetta er ritað og hlutabréfaverð gefið nokkuð eftir.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband