Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þegar verslað er á netinu

Netverslun hefur aukist mikið en einnig hefur tilraunum til fjár- og netsvika fjölgað talsvert að undanförnu. Nú eru nokkrir afsláttardagar á næsta leyti og þá er gott að hafa í huga nokkur atriði þegar verslað er á netinu.


Mundu að ef það er of gott til að vera satt er það sennilega of gott til að vera satt. Ef þú sérð dýra merkjavöru á 80% afslætti þá ættir þú að hugsa þig tvisvar um áður en þú teygir þig í veskið.

Þú ættir aldrei að vera undir tímapressu að klára kaup. Svikahrappar nota oft tímapressu til að koma í veg fyrir að viðkomandi hafi nægan tíma til að meta að allar upplýsingar séu réttar. Mikilvægt er að taka sér góðan tíma til að taka upplýsta ákvörðun um kaupin.

Við kaup á netinu berst staðfestingargluggi með helstu upplýsingum um færslu. Áður en færsla er staðfest er mikilvægt að fullvissa sig um að upplýsingar sem birtast séu réttar og að söluaðili, fjárhæð og gjaldmiðill sé réttur áður en kaup eru samþykkt með rafrænum skilríkjum.

Mikið hefur verið um sviksamleg skilaboð í nafni póstflutningsfyrirtækja. Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú gefur upp kortanúmer, öryggiskóða eða persónubundna auðkennisþætti. Póstflutningsfyrirtæki biðja aldrei um kortaupplýsingar fyrir greiðslu á sendingargjaldi með SMS skilaboði eða tölvupósti. Ef einhver vafi er, hafðu samband við umrætt fyrirtæki.

Gott er að vera vakandi fyrir nokkrum atriðum í tengslum við vefsíður og samfélagsmiðla fyrirtækja:

  • Skoðaðu seljendur vel og lestu umsagnir. Oft geta umsagnir annarra viðskiptavina sagt til um áreiðanleika seljandans.
  • Þegar verslanir eru með gjafaleiki á samfélagsmiðlum biðja þau aldrei um kortanúmer eða mynd af greiðslukortum.
  • Því meira samræmi sem er á milli samfélagsmiðla og vefsíðu fyrirtækisins, því betra.
  • Samfélagsmiðlar veita oft viðurkennda vottun til fyrirtækja sem hafa sannað að þau séu þau, ef seljandinn er ekki með slíka vottun þá er það meiri áhætta.
  • Auglýsandi sem hefur tiltölulega langa sögu á samfélagsmiðlum er góðs viti. Svikarar búa oft til nýjar síður til að auglýsa og loka þeim síðan jafnóðum. Allir seljendur byrja einhvern tímann að auglýsa í fyrsta sinn en gott er að hafa þetta í huga.
  • Skoðaðu fyrri pósta frá auglýsanda. Ef alltaf er verið að pósta sama póstinum mörgum sinnum getur verið að markmiðið hjá auglýsanda sé að fá kaupendur til að falla fyrir sviksamlegu tilboði.
  • Nýjar sviksamlegar auglýsingasíður á samfélagsmiðlum hafa oft fáa sem enga fylgjendur.
  • Vertu vakandi fyrir orðalagi, leturgerð eins og t.d. skrautskrift og eins hvort það vanti íslenska stafi í heiti fyrirtækis eða þjónustuaðila.

Ef þú hefur glatað kortinu þínu eða hefur grun um óheimilar færslur á kortinu hafðu samband við ráðgjafaver Íslandsbanka í síma 440 4000, sem er opið í síma frá klukkan 9-16 og netspjalli frá 9-16 alla virka daga. Utan opnunartíma er hægt að hafa samband við neyðarþjónustu Íslandsbanka í síma 440 4000. Þú getur fryst kortið í Íslandsbankaappinu ef grunur er á að kortaupplýsingar þínar hafa komist í rangar hendur.