Áfram hægist á kortaveltu heimila

Verulega hefur hægt á innlendri eftirspurn síðustu fjórðunga og hefur kortavelta heimila gefið góðar vísbendingar um það. Áfram mælist samdráttur í kortaveltu heimila samkvæmt nýbirtum tölum fyrir janúarmánuð. Í þjóðhagsspá okkar spáum við því að einkaneyslan dragist saman fyrri hluta ársins en muni vaxa á ný á síðari hlutanum.


Kortavelta innlendra greiðslukorta nam tæpum 104 ma.kr. í janúar síðastliðnum og jókst um tæp 3% í krónum talið frá sama mánuði í fyrra. Þegar leiðrétt er fyrir þróun verðlags og gengis krónu skrapp kortavelta heimila hins vegar saman um 1,1% á milli ára í janúar. Þessi þróun hefur verið gegnumgangandi frá apríl síðastliðnum og lýsir vel kólnun í innlendu eftirspurninni hvað heimilin varðar.

Innlend kortavelta dregst saman en kortavelta erlendis eykst

Kortavelta heimila innanlands skrapp saman um 2,3% að raunvirði í janúar en kortavelta Íslendinga erlendis jókst um nær 4% að raunvirði á sama tímabili. Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem kortavelta erlendis eykst en fram að því hafði hún dregist saman sex mánuði í röð. Þrátt fyrir aukningu í kortaveltu erlendis voru færri Íslendingar á faraldsfæti í janúar en á sama tíma fyrir ári. Alls fóru 39 þúsund Íslendingar um Keflavíkurflugvöll í janúarmánuði en árið 2023 var fjöldinn í janúar ríflega 41 þúsund, sem gerir 11% fækkun á milli ára. Það sem gæti skýrt þessa aukningu er til að mynda erlend netverslun sem gæti hafa aukist síðustu tvo mánuði. Einnig gæti verið að styrking krónu að undanförnu hafi hleypt lífi í neyslu Íslendinga erlendis.

Einkaneyslan breytir um takt

Viðsnúningur var í þróun einkaneyslu á síðasta ári eftir hraðan vöxt árin tvö á undan. Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneyslan um 2,5% en á þriðja fjórðungi dróst hún hins vegar saman í fyrsta sinn frá árinu 2020. Við teljum líklegt að einkaneyslan hafi einnig dregist saman á lokafjórðungi ársins og benda kortaveltatölur fyrir þann fjórðung til þess. Við áætlum að einkaneysluvöxtur hafi verið 0,7% á síðasta ári en Hagstofan birtir þjóðhagsreikninga fyrir allt árið 2023 í lok mánaðarins.

Ljóst er að minni kraftur er í innlendri eftirspurn en áður og að heimili halda að sér höndum. Á þann mælikvarða eru vaxtahækkanir að skila talsverðum árangri. Þessar nýbirtu kortaveltutölur fyrir janúarmánuð benda einnig til þess að einkaneyslan haldi áfram að dragast saman í byrjun þessa árs. Í nýlegri Þjóðhagsspá okkar spáum við 1% vexti einkaneyslu á þessu ári þar sem einkaneyslan dregst saman á fyrri hluta ársins en mun svo vaxa að nýju á síðari hluta þess.

Á næsta ári verður einkaneysluvöxturinn hins vegar hraðari eða um 2,5% samhliða hjöðnun verðbólgunnar og þar af leiðandi nokkuð hraðari kaupmáttarvexti. Árið 2026 gerum við ráð fyrir að hagkerfið verði í betra jafnvægi og spáum að vöxtur einkaneyslunnar verði um 3%.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband