Áfram hægir á kortaveltu heimila

Hægt hefur á innlendri eftirspurn síðustu fjórðunga og samdráttur kortaveltu í mars samkvæmt nýbirtum tölum ber þess merki. Einnig varð samdráttur á einkaneyslu á lokafjórðungi seinasta árs og kortaveltutölur fyrsta fjórðungs þessa árs benda til þess að áfram hægi á einkaneyslu. Utanlandsferðir um páska lita kortaveltu erlendis en þau áhrif dreifast líklega á mars og apríl.


Samdráttur varð að raunvirði á kortaveltu innlendra greiðslukorta í mars frá sama mánuði í fyrra. Veltan nam tæpum 113 ma.kr. og jókst um 1,1% í krónum talið. Þegar leiðrétt er fyrir þróun verðlags og gengi krónu nam samdráttur kortaveltunnar í heild sinni 1,4% milli ára í mars. Samdráttur kortaveltu innanlands nam 4,7% að raunvirði en erlendis jókst hún um 12,6% á sama mælikvarða. Að okkar mati er þessi þróun skýrt merki um kaldara hagkerfi og áhrif hárra stýrivaxta á eftirspurn.   

Innlend kortavelta heldur áfram að dragast saman en erlenda kortaveltan eykst enn

Kortavelta heimila innanlands skrapp saman um 4,7% að raunvirði í mars en erlendis jókst hún um 12,6% að raunvirði á sama tímabili sem fyrr segir. Kortavelta erlendis helst í hendur við fjölda Íslendinga á faraldsfæti í mánuðinum. Þar sem páskar voru snemma þetta árið kemur þessi þróun okkur ekki á óvart, raunar þykir okkur aukningin erlendis heldur hófleg nema þá að stór hluti neyslu landsmanna í páskaferðum erlendis muni koma fram í tölum aprílmánaðar. Alls fóru 56 þúsund íslendingar um Keflavíkurflugvöll í mars en árið 2023 var fjöldinn tæp 40 þúsund, sem gerir 42% aukningu milli ára. Hærri kortavelta erlendis mun að öllum líkindum teygja sig að hluta yfir í apríl þar sem páskar voru um mánaðamót.  

Kortaveltutölur góð vísbending um þróun einkaneyslu

Viðsnúningur varð á þróun einkaneyslu á síðasta ári eftir hraðan vöxt árin tvö á undan. Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneyslan en á seinni helmingi varð samdráttur samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Á seinasta fjórðungi síðasta árs nam samdráttur einkaneyslu þannig 2,3%.

Kortavelta fyrsta fjórðungs þessa árs bendir sömuleiðis til samdráttar einkaneyslu á fjórðungnum. Síðustu mánuði hefur kortavelta íslenskra greiðslukorta innanlands verið að dragast saman að febrúar undanskildum þegar veltan jókst um 1,8% að raunvirði. Veltan erlendis hefur þó verið að aukast á móti en ekki nægilega mikið til að vega upp samdráttinn í veltunni innanlands. Kortaveltutölur bera þess merki að hátt vaxtastig hafi dregið allverulega úr krafti innlendrar eftirspurnar. Vextir eru því skila að tilætluðum árangri á þann mælikvarða. Hins vegar gætu undirliggjandi þættir orðið til þess að styðja við einkaneyslu á komandi fjórðungum þrátt fyrir háa vexti. Má þar nefna að nýlegar mælingar á Væntingavísitölu Gallup sýna vaxandi bjartsýni meðal almennings. Gæti það tengst minni óvissu um kaup og kjör í kjölfar nýgerðra kjarasamninga á stórum hluta almenns vinnumarkaðar auk þess sem verðbólga hefur þrátt fyrir allt minnkað nokkuð þótt hægar fari í þeim efnum en vonir stóðu til. Þessir þættir ásamt vonandi lægra vaxtastigi þegar frá líður glæðir trúlega einkaneyslu á ný þegar lengra líður á árið. Áætlum við að einkaneysluvöxtur á þessu ári verið á heildina litið um 1%. Það er heldur meiri vöxtur en í fyrra en þó býsna hægur í sögulegu ljósi.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband