Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Áfram þyngist pyngja landsmanna... en hægar

Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitala í september um 0,5% frá fyrri mánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,2% og hefur árstakturinn ekki mælst lægri í níu ár.


Nokkuð hefur hægt á vexti kaupmáttar launa síðastliðna mánuði og útlit er fyrir að miklu vaxtaskeiði kaupmáttar launa sé lokið í bili. Hægari vöxtur kaupmáttar er ein meginástæða þess að við gerum ráð fyrir hægari vexti einkaneyslu á næstu árum.

Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu Íslands hækkaði launavísitala í september um 0,5% frá fyrri mánuði. Undanfarna 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 4,2% og hefur árstakturinn ekki mælst lægri í níu ár.

Hækkunartaktur launa tók að róast verulega á þessu ári, í byrjun árs mældist 12 mánaða hækkun launavísitölunnar 5,8% og hefur takturinn farið lækkandi með hverjum mánuði síðan, að undanskildum aprílmánuði þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir.

Í september hækkaði vísitala kaupmáttar launa um 0,4% frá mánuðinum á undan, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,1% í septembermánuði. Einnig hefur hægt talsvert á aukningu kaupmáttar launa á þessu ári, í byrjun árs mældist árstakturinn 2,3% en nú í september mældist hann 1,2%.

Hægari einkaneysluvöxtur í kortunum

Þróun kaupmáttar launa helst talsvert í hendur við einkaneyslu og hefur þróun þessa tveggja stærða verið býsna áþekk síðastliðin áratug eins og sést á myndinni. Í raun væri eðlilegt að einkaneysla yxi öllu hraðar en kaupmáttur þar sem fyrrnefnda stærðin ræðst einnig af fólksfjölgun á meðan kaupmáttarþróun endurspeglar neyslugetu á hvern einstakling.

 Eins og má sjá á myndinni hefur dregið úr vexti einkaneyslu á sama tíma og hægt hefur á vexti kaupmáttar. Á öðrum ársfjórðungi mældist vöxtur einkaneyslu 2,2% á meðan vöxtur kaupmáttar launa mældist 1,9%. Hafði vöxtur beggja þessara hagvísa ekki mælst hægari frá árinu 2013. Samkvæmt nýlegum tölum Hagstofu var vöxtur kaupmáttar launa á þriðja ársfjórðungi 1,2% sem við teljum að gefi býsna góða mynd af þróun einkaneyslu á næstunni.

Útlit er fyrir hægari einkaneysluvöxt á næstu misserum og benda aðrir hagvísar einnig til þess. Þegar kortaveltutölur eru skoðaðar má sjá að heimilin eru þegar farin að halda að sér höndum. Einnig er þegar farið að hægja á fólksfjölgun og búast má við því að hægja muni enn frekar á fólksfjölguninni eftir því sem dregur úr spennu á vinnumarkaði. Í nýlegri þjóðhagsspá okkar teljum við að einkaneysluvöxtur verði um 2,0% á þessu ári eftir að hafa mælst 4,8% árið 2018.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband