Hækkunartaktur launa tók að róast verulega á þessu ári, í byrjun árs mældist 12 mánaða hækkun launavísitölunnar 5,8% og hefur takturinn farið lækkandi með hverjum mánuði síðan, að undanskildum aprílmánuði þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir.
Í september hækkaði vísitala kaupmáttar launa um 0,4% frá mánuðinum á undan, enda hækkaði vísitala neysluverðs um 0,1% í septembermánuði. Einnig hefur hægt talsvert á aukningu kaupmáttar launa á þessu ári, í byrjun árs mældist árstakturinn 2,3% en nú í september mældist hann 1,2%.
Hægari einkaneysluvöxtur í kortunum
Þróun kaupmáttar launa helst talsvert í hendur við einkaneyslu og hefur þróun þessa tveggja stærða verið býsna áþekk síðastliðin áratug eins og sést á myndinni. Í raun væri eðlilegt að einkaneysla yxi öllu hraðar en kaupmáttur þar sem fyrrnefnda stærðin ræðst einnig af fólksfjölgun á meðan kaupmáttarþróun endurspeglar neyslugetu á hvern einstakling.