Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Islandsbanki hf. : Afkoma fyrri árshelmings 2015

Hagnaður bankans eftir skatta var 10,8 ma. kr. á fyrri árshelmingi 2015 samanborið við 14,7 ma. kr. á sama tímabili 2014 en þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri.


Helstu niðurstöður

1H 2015

  • Hagnaður bankans eftir skatta var 10,8 ma. kr. á fyrri árshelmingi 2015 samanborið við 14,7 ma. kr. á sama tímabili 2014 en þá voru tekjur af einskiptisliðum umfangsmeiri.
  • Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 14% eiginfjárhlutfall A var 13,9% samanborið við 12,4% á sama tímabili 2014. 
  • Eiginfjárhlutfallið er sterkt, var 28,3% (mars15: 28,4%) og eiginfjárhlutfall A (Tier 1) var 25,8% (mars15: 25,7%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru 13,6 ma. kr. á fyrri árshelmingi 2015 (1H14: 13,6 ma. kr.). Vaxtamunur var 2,9% á fyrri árshelmingi 2015 (1H14: 3,1%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 6,4 ma. kr. (1H14: 5,7 ma. kr.) eða 13,2% aukning milli ára.
  • Kostnaðarhlutfall var 56,0% (1H14: 55,6%). Bankaskattur og einskiptiskostnaður er undanskilinn við útreikning kostnaðarhlutfalls. 
  • Vogunarhlutfall var 18,3% við lok tímabilsins, sem telst hóflegt í alþjóðlegum samanburði.
  • Hlutfall lána með varúðarafskrift og lána með vanskil umfram 90 daga var 2,7% (mars 15: 3,0%).
  • Heildareignir voru 976 ma. kr. (mars15: 926ma. kr.). 

2F 2015

  • Hagnaður bankans eftir skatta var 5,4 ma. kr. á öðrum ársfjórðungi (2F14: 6,4 ma. kr.)
  • Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 14% eiginfjárhlutfall A var 12,8% á fjórðunginum (2F14: 9,3%) 
  • Hreinar vaxtatekjur voru 7,4 ma. kr. á öðrum ársfjórðungi (2F14: 6,9 ma. kr.)
  • Hreinar þóknanatekjur voru 3,5 ma. kr. á 2F15 (2F14: 2,8 ma. kr.) sem er 24,8% aukning. 

'Afkoma bankans á fyrri helmingi ársins var góð. Grunnreksturinn styrktist á tímabilinu sem endurspeglast í heilbrigðum vexti útlána og innlána, sem og í þóknanatekjum sem jukust um 13% milli ára. Útlán jukust um 3% frá áramótum og er það í samræmi við áætlaðan hagvöxt á tímabilinu. Ánægjulegt var fyrir bankann að hljóta hærri einkunn í fjárfestingarflokki hjá bæði Fitch og S&P. 

Launakostnaður stendur í stað og mun bankinn halda áfram að vinna að hagræðingaraðgerðum til kostnaðarlækkunar. Eiginfjárhlutfall bankans helst áfram sterkt sem og lausafjárstaða bankans. Það er afar mikilvægt nú þegar við horfum fram á losun fjármagnshafta. Íslandsbanki gegnir þar mikilvægu hlutverki og vinnur að þeirri áætlun með eigendum sínum og stjórnvöldum. Stefnt er að töluverðri breytingu á efnahagsreikningi bankans með rammasamkomulagi sem gert var við Glitni.

Viðskiptavinir okkar kalla í auknum mæli eftir að geta stundað bankaviðskipti hvar og hvenær sem er og við leggjum áherslu á að koma til móts við þær óskir. Íslandsbanka Appið er í dag sú dreifileið sem er í mestum vexti og er í stöðugri þróun. Það sem af er ári höfum við séð 43% aukningu virkra notenda og 37% notenda heimsækja appið að meðaltali einu sinni eða oftar á dag. Við höfum lagt áherslu á að bæta virkni Netbankans og kannanir sýna að viðskiptavinir okkar eru hvað ánægðastir meðal netbankanotenda. 

Ný samfélagsskýrsla Íslandsbanka var birt í gær en skýrslan uppfyllir að fullu viðmið GRI. Í skýrslunni er farið yfir níu metnaðarfullar áherslur bankans í samfélagslegri ábyrgð. Þær snúa að ábyrgum lánveitingum, ábyrgum fjárfestingum, ábyrgum innkaupum, samgöngum, jafnrétti, fræðslu, styrkjum bankans, öryggi viðskiptavina og að lokum góðum málefnum. Bankinn er stoltur samstarfsaðili Reykjavíkurmaraþonsins sem haldið var á dögunum þar sem 15.000 manns tóku þátt og söfnuðust 78 milljónir til góðra málefna.

Í dag, þriðjudaginn 25. ágúst kl. 12.30, munu Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri, kynna afkomu bankans á opnum fjárfestafundi og svara fyrirspurnum. Fundurinn fer fram á íslensku og er haldinn í höfuðstöðvum bankans að Kirkjusandi. Boðið verður upp á veitingar. 

Skrá mig á fjárfestafund á Kirkjusandi.

Einnig er markaðsaðilum boðið upp á símafund kl. 14.00 á ensku. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með að senda póst á ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila 2 tímum fyrir fundinn. 

Öll gögn má nálgast á vef fjárfestatengsla, www.islandsbanki.is/fjarfestatengsl

Hér má sjá upptöku þar sem Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóra Íslandsbanka, segir frá uppgjörinu. 

Nánari upplýsingar: