Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021

Hagnaður fyrsta ársfjórðungs nam 3,6 ma. kr.


Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2021 (1F21)

 • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 3,6 ma. kr. á 1F21 (1F20: -1,4 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 7,7% á ársgrundvelli (1F20: -3,0%).
 • Hreinar vaxtatekjur námu 8,2 ma. kr. á fjórðungnum samanborið við 8,6 ma. kr. á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir lægra vaxtaumhverfi var vaxtamunur  2,4% samanborið við 2,8% á 1F20.
 • Hækkun í hreinum þóknanatekjum var 14,9% á milli ára, hækkun úr 2,5 ma. kr. í 2,9 ma. kr. er tilkomin vegna aukningar í bæði þóknanatekjum og -gjöldum.
 • Hreinar fjármunatekjur námu 293 m.kr. (1F21: -1,7 ma. kr.) sem skýrist einkum af hreinum virðisbreytingum og markaðsaðstæðum.
 • Stjórnunarkostnaður hækkaði lítillega á milli ára og nam 5,9 ma. kr. á fjórðungnum (1F20: 5,7 ma. kr.). Hækkunin í launalið skýrist einkum af samningsbundnum kjarahækkunum og starfslokagreiðslum á meðan annar rekstrarkostnaður lækkar á milli ára.
 • Kostnaðarhlutfallið lækkar á milli ára og var 52.0% á fyrsta fjórðungi samanborið við 62.9% á sama tíma í fyrra. Aukning í notkun á stafrænum lausnum spilar þar lykilhlutverk.
 • Neikvæð virðisbreyting útlána er mun lægri á fyrsta ársfjórðungi ársins en á sama tíma i fyrra, samtals 518 m.kr. samanborið við 3,5 ma. kr. á 1F20, þróun sem skýrist af batnandi efnahagsaðstæðum. Hrein virðisbreyting útlána til viðskiptavina var 0,05% á fyrsta ársfjórðungi (0,20% á ársgrundvelli) en var 0,91% fyrir árið 2020.
 • Útlán til viðskiptavina jukust um 2,3% á fjórðungnum en þar vegur þyngst aukning húsnæðislána.
 • Hlutfall lána með laskað lánshæfi lækkaði um 0,5% frá árslokum og var 2,4% (miðað við vergt bókfært virði) í lok mars.
 • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 19 ma. kr. eða 2,8% frá áramótum.
 • Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir kröfum eftirlitaðila.
 • Eigið fé bankans nam 185 ma.kr. í lok mars og heildar eiginfjárhlutfall bankans var sterkt og nam 21,9%, það er yfir markmiði bankans sem er 17,5-19%. Vogunarhlutfallið var 12,6% í lok mars samanborið við 13,6% í árslok.
 • Fjárhagsleg markmið bankans hafa nú verið uppfærð í takti við stefnu bankans og batnandi efnahagsumhverfi.

Það er ánægjulegt að sjá að afkoma fyrsta ársfjórðungs kemur vel út og er í takti við þá þróun sem var á seinni hluta síðasta árs. Hagnaður bankans á tímabilinu var 3,6 milljarðar sem skilar arðsemi eigin fjár upp á 7,7% og er það mikill viðsnúningur frá sama tímabili í fyrra. Vöxtur var í heildartekjum á milli ára og virðisrýrnun var mun lægri en á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Fjárfestingar undanfarinna ára í innviðum og stafrænum lausnum og aukin stafræn notkun viðskiptavina leiddu til lækkunar á kostnaðarhlutfalli bankans á milli ára. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 2,8% og útlán til viðskiptavina jukust um 2,3% frá árslokum. Aukninguna í útlánum má aðallega rekja til áframhaldandi aukinnar eftirspurnar á húsnæðislánamarkaði en mun styttri biðtími er eftir afgreiðslu húsnæðislána en áður og mælist mikil ánægja með þjónustuna. Við finnum að eftirspurnin er líka orðin fjölbreyttari og nú býður bankinn viðskiptavinum sínum græn húsnæðislán við fjármögnun á vistvænu húsnæði á hagstæðari kjörum.

Þróun stafrænna lausna á síðustu árum hefur verið hröð og tók stökk þegar þörfin var hvað mest í upphafi heimsfaraldurs. Frá árinu 2017 höfum við séð 20% árlegan vöxt í fjölda notenda í appi og nú eru 99% snertinga við einstaklinga stafrænar. Við höldum áfram á stafrænni vegferð og meðal nýjunga sem við kynntum nýverið er viðbót í appið þar sem viðskiptavinir geta fylgst með kolefnisspori einkaneyslu sinnar.

Nýlega kynntum við markmið Íslandsbanka um að ná fullu kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Undanfarin tvö ár hefur eigin rekstur bankans verið kolefnishlutlaus en nú á markmiðið einnig við um kolefnisspor af öllu lána- og eignasafni bankans. Við erum afar stolt af þessu markmiði sem er í takti við metnaðarfulla áætlun Íslands í loftslagsmálum. Á dögunum hlaut Íslandsbanki flest stig íslenskra fyrirtækja í UFS mati Reitunar en samkvæmt matinu hefur bankinn unnið vel að því að koma sjálfbærnimiðaðri hugsun inn í starfsemi bankans. Einnig hlaut bankinn Kuðunginn, umverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf í þágu umhverfismála á síðasta ári. Þessir áfangar styðja svo sannarlega við það hlutverk bankans að vera hreyfiafl til góðra verka og sýnum við það í verki með góðum árangri á sviði sjálfbærnimála.

Fjárhagsstaða bankans er áfram sterk og undirstöður traustar. Efnahagsreikningur bankans er traustur með eigin- og lausafjárhlutföll vel yfir innri markmiðum og kröfum eftirlitsaðila. Fjárhagsleg markmið bankans hafa verið uppfærð með það að markmiði að gefa skýrari mynd af þróun og áherslum í stefnu bankans. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur á opinberum vettvangi lýst því yfir að unnið sé að skráningu hlutabréfa bankans á skipulegan verðbréfamarkað, að undangengnu útboði, og að stefnt sé að því að hún eigi sér stað í júní. Það er því ljóst að spennandi tímar eru framundan.

Birna Einarsdóttir

Bankastjóri Íslandsbanka

Nánari upplýsingar veita:


Fjárfestatengsl


Senda póst