Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi ársins 2022

Hagnaður þriðja ársfjórðungs nam 7,5 ma. kr. og arðsemi var 14,4%


Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs 2022 (3F22) –sterkur fjórðungur þar sem arðsemi eigin fjár er umfram markmið bankans

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 7,5 mö. kr. á þriðja ársfjórðungi (3F21: 7,6 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 14,4% á ársgrundvelli (3F21: 15,7%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans og spám greiningaraðila. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun og jákvæð virðisbreyting útlána.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 28,7% á milli ára og námu 11,3 mö. kr. á 3F22 samanborið við 8,8 ma. kr. á 3F21. Hækkunin á milli ára skýrist af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans. Vaxtamunur nam 3,0% á 3F22 samanborið við 2,4% á 3F21.
  • Hreinar þóknanatekjur jukust um 2,6% á milli ára og námu samtals 3,5 mö. kr. á 3F22 samanborið við 3,4 ma. kr. á 3F21. Auknar tekjur í greiðslumiðlun leiddu hækkunina.
  • Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á 3F22 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 102% af rekstrartekjum samanborið við 92% á 3F21. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 21,4% á milli 3F21 og 3F22.
  • Hreinn fjármunakostnaður nam 471 m.kr. á 3F22, samanborið við fjármunatekjur að upphæð 941 m.kr. á 3F21, fjármagnsgjöld í fjórðungnum skýrast að mestu leyti af hreyfingum á vaxtaferlum í íslenskum krónum.
  • Stjórnunarkostnaður nam 5,3 mö. kr. á 3F22 samanborið við 5,1 ma. kr. á 3F21, hækkun um 3,6% en lækkun um 5,5% að raunvirði.
  • Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 36,3% á 3F22 og er undir markmiði bankans, úr 39,4% á 3F21, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar.
  • Virðisrýrnun var jákvæð um 1.165 m.kr. á 3F22 og skýrist af batnandi útliti í ferðaþjónustu, uppfærðu fasteignamati, og áður niðurfærðu lánamáli en á móti vegur að hærri verðbólga hefur áhrif á efnahagssviðsmyndir. Á 3F21 var virðisrýrnun jákvæð um 1.757 m.kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,40% á ársgrundvelli á 3F22 samanborið við -0,64% á 3F21.
  • Útlán til viðskiptavina stóðu í stað frá lokum 2F22 og voru 1.153 ma. kr. í lok september 2022.
  • Innlán frá viðskiptavinum jukust um 24,8 ma. kr. á þriðja ársfjórðungi 2022 eða um 3,3% og voru 782 ma. kr. í lok september, aukningin kom aðallega frá Viðskiptabanka og Einstaklingum.
  • Lausafjárstaða bankans er áfram sterk og voru öll lausafjárhlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila í lok tímabils.
  • Eigið fé bankans nam 211,6 mö. kr. í lok september 2022. Eiginfjárgrunnur bankans, að meðtöldum viðbótareiginfjárþætti 1 og eiginfjárþætti 2, nam 213 mö. kr í lok september, líkt og í lok júní 2022, samanborið við 228 ma. kr í lok árs 2021. Eiginfjárhlutfall bankans var 21,4% að hagnaði 3F22 meðtöldum, samanborið við 21,5% í lok júní (25,3% í árslok 2021). Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 var 18,2% (300 punktar yfir kröfu eftirlitsaðila), sama og í lok júní (21,3% í árslok 2021). Það er vel yfir markmiði bankans sem er ~16,5%. Hlutföllin eru ákvörðuð á grundvelli óendurskoðaðs hagnaðar á fjórðungnum, að frádregnum 50% hagnaði sem er fyrirsjáanlegt að verði greiddur út sem arðgreiðsla samkvæmt arðgreiðslustefnu bankans og fyrirsjáanlegum endurkaupum á eigin hlutabréfum að fjárhæð 15 ma. kr. Lækkun eiginfjárhlutfalla á fjórðungnum skýrist að mestu leyti af hækkun á áhættugrunni (REA) vegna vaxtar í útlánum til lánastofnana.
  • MREL-krafa bankans er 21,2%, reiknuð í hlutfalli af áhættugrunni (e. Total Risk Exposure Amount – TREA) og var MREL hlutfall bankans 27,6% í lok september.
  • Vogunarhlutfallið var 11,9% í lok september, að hagnaði 3F22 meðtöldum, samanborið við 12,5% í lok júní (13,6% í árslok 2021), sem gefur til kynna lága skuldsetningu í alþjóðlegum samanburði.

Helstu atriði í afkomu á fyrstu níu mánuðum 2022 (9M22) – Arðsemi yfir markmiði með auknum tekjum

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 18,6 mö. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins (9M21: 16,6 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 12,1% á ársgrundvelli samanborið við 11,7% á 9M21.
  • Hreinar vaxtatekjur námu samtals 30,8 mö. kr. á 9M22 sem er hækkun um 21,2% milli ára og skýrist af hærra vaxtaumhverfi milli tímabila og auknum inn- og útlánum.
  • Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 8,9% milli ára og námu samtals 10,0 mö. kr á 9M22 samanborið við 9,2 ma. kr á 9M21. Þóknanir vegna greiðslumiðlunar, góðs gengis Allianz Ísland hf. sem og góðs gengis fjárfestingarbanka og verðbréfaviðskipta eru megin þættir hækkunarinnar.
  • Hreinn fjármunakostnaður nam 358 m.kr. á 9M22 samanborið við fjármunatekjur að upphæð 1.853 m.kr. á 9M21.
  • Stjórnunarkostnaður nam 17,1 mö. kr. á 9M22 samanborið við 17,4 ma. kr. á 9M21, sem er lækkun um 1,9% en 5,5% lækkun að raunvirði.
  • Kostnaðarhlutfall lækkaði milli ára, frá 46,6% á 9M21 í 41,9% á 9M22.
  • Hrein virðisbreyting á 9M22 var jákvæð um 2.223 m.kr. (9M21: 2.379 m.kr.). Jákvæð virðisbreyting er að mestu tilkomin vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu ásamt niðurstöðu dómsmáls varðandi lán sem áður var að fullu virðisrýrt og vega þessi atriði þyngra en neikvæð áhrif aukinnar verðbólgu og alþjóðlegs óstöðugleika. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,26% á ársgrundvelli á 9M22 samanborið við -0,30% á 9M21.

Uppfært leiðbeinandi bil fyrir árið 2022

  • Í ljósi góðrar afkomu á árinu og væntinga fyrir síðasta fjórðung ársins hefur leiðbeinandi bil fyrir arðsemi verið endurskoðað upp á við og er nú 11-13% samanborið við fyrri tölu sem var yfir 10%. Jafnframt hefur leiðbeinandi bil fyrir kostnaðarhlutfall nú verið endurskoðað í 41-44% , en var áður 44-47%.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Afkoma Íslandsbanka á þriðja ársfjórðungi var gríðarsterk þar sem hagnaður var 7,5 ma. kr. og arðsemi eigin fjár 14,4% sem er yfir fjárhagsmarkmiðum bankans. Tekjur af kjarnastarfsemi héldu áfram að vaxa þar sem samanlagður vöxtur vaxta- og þóknanatekna var 21%. Kostnaður lækkaði að raunvirði um 5,5% og vorum við umfram markmið okkar um kostnaðarhlutfall sem var 36.3% á fjórðungnum, sem er óvanalega lágt sökum árstíðabundinnar sveiflu.

Útlán til viðskiptavina stóðu í stað á meðan innlán jukust um 3,3% sem styrkir okkar helstu fjármögnunarstoð enn frekar. Íslandsbanki býður samkeppnishæf vaxtakjör og hefur stafræni reikningurinn Ávöxtun, sem býður ein bestu vaxtakjör á markaðnum, slegið í gegn á meðal viðskiptavina okkar. Bankinn jók enn frekar dreifingu í markaðsfjármögnun sinni með útgáfu sértryggðra skuldabréfa í evrum og víkjandi skuldabréfa í krónum.

Það var stór áfangi fyrir bankann þegar sala Símans á Mílu til Ardian France SA lauk en Íslandsbanki var í lykilhlutverki við sölu á Mílu. Íslandsbanki er leiðandi í fjárfestingarbankastarfsemi á Íslandi og sýndi þetta verkefni vel getu bankans til að leiða og samþætta fjölþætt verkefni.

Samhliða útgáfu fjárhagsuppgjörs fyrir 3F22 birtum við skýrslu um vörður okkar að kolefnishlutleysi. Helstu tækifærin til að draga úr losun tengdri útlánastarfsemi bankans eru í umskiptum yfir í grænar samgönguleiðir í lofti, á landi og á sjó. Ein af helstu niðurstöðum skýrslunnar er að losun frá útlánastarfsemi muni minnka um 60% fyrir árið 2030 og um 85% fyrir árið 2040.

Íslandsbanki hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu fjórða árið í röð sem var mikill heiður. Þetta hvetur okkur áfram á þeirri braut að hlúa að jafnréttismálum og vera hreyfiafl til góðra verka. Það var jafnframt einstaklega ánægjulegt að sjá fullan sal gesta á fundi okkar um konur og fjármál en bankinn hefur haldið reglulega fundi tengda jafnréttismálum síðan 2015.

Ég er stolt af þeim árangri sem bankinn náði á fjórðungnum. Hagnaðurinn er traustur og kostnaði haldið í skefjum, eignagæði eru sterk og útlánin eru með góða veðstöðu. Íslenskt efnahagslíf heldur áfram að vera þróttmikið á umbrotatímum og mun Íslandsbanki áfram leggja sitt af mörkum til áframhaldandi velgengni þess.

Fjárfestatengsl

Afkomufundur og vefstreymi föstudaginn 28. október 2022

Íslandsbanki mun halda afkomufund/vefstreymi föstudaginn 28. október kl. 8.30 fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Birna Einarsdóttir, bankastjóri og Jóhann Ottó Wathne, forstöðumaður Fjárstýringar munu kynna afkomu bankans og helstu atriði í rekstri hans á ársfjórðungnum. Fundurinn fer fram á ensku.

Vefstreymið fer fram á þessari síðu. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á heimasíðu fjárfestatengsla að honum loknum. Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn og lagt fram spurningar munnlega með því að skrá sig á þessari síðu. Þar kemur upp listi yfir innhringingarnúmer og persónulegt PIN-númer. Ef það er ekki til staðarnúmer fyrir landið þitt, eða ef þú vilt fá símtal í stað þess að hringja inn, er hægt að nota „Hringja í mig“ valkostinn. Veldu þá landið þitt, sláðu inn símanúmerið þitt og smelltu á bláa „Call me“ hnappinn til að tengjast.

Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna á þessari síðu

Nánari upplýsingar veita:


Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir

Fjárfestatengill


Senda tölvupóst
844 4033

Edda Hermannsdóttir

Forstöðumaður


Senda tölvupóst
844 4005