Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma fyrsta ársfjórðungs 2019

Staða bankans er afar traust, lausafjárhlutföll í erlendum og innlendum gjaldmiðlum yfir innri mörkum og kröfum eftirlitsaðila og eiginfjárhlutföll í takt við langtímamarkmið. Lánasafnið er sterkt og koma gæði þess vel út í alþjóðlegum samanburði.


Helstu atriði í afkomu Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 (1F19)

  • Hagnaður eftir skatta var 2,6 ma. kr. (1F18: 2,1 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár var 5,9% á ársgrundvelli (1F18: 4,8%).
  • Hagnaður af reglulegri starfsemi var 2,7 ma. kr. (1F18: 2,9 ma. kr.) og arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi miðað við 16% eiginfjárhlutfall þáttar 1 (CET1) var 6,7% á ársgrundvelli (1F18: 8,0%).
  • Hreinar vaxtatekjur voru 8,2 ma. kr. (1F18: 7,7 ma. kr.) sem er 5,3% hækkun á milli ára og var vaxtamunur 2,8% (1F18: 2,9%).
  • Hreinar þóknanatekjur voru 3,2 ma. kr. (1F18: 2,8 ma. kr.) sem er 15,8% hækkun frá 1F18.
  • Virðisbreyting útlána var neikvæð um 919 m.kr. á tímabilinu samanborið við að vera jákvæð um 88 m.kr. á 1F18.
  • Stjórnunarkostnaður jókst um rúm 3,5% á milli ára og nam 7,1 ma. kr. (1F18: 6,9 ma. kr.).
  • Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 62,6% samanborið við 69,8% á sama tímabili í fyrra, á meðan kostnaðarhlutfall móðurfélags var 58,1% sem er lítillega yfir 55% langtímamarkmiði bankans.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 3,2% (26,9 ma. kr.) og námu 874 ma. kr. í lok mars. Ný útlán á fyrstu þremur mánuðum ársins voru 51,3 ma. kr. og dreifðust vel á milli viðskiptaeininga bankans. 
  • Innlán frá viðskiptavinum hækkuðu um 5,6% eða 32,3 ma. kr. frá áramótum og námu 611 ma. kr. í lok mars.
  • Lausafjárstaða bankans er sterk bæði í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðlum og  vel umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið.  Eiginfjárhlutföll eru sterk og í takti við langtímamarkmið bankans.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Fyrsti ársfjórðungur einkenndist af áframhaldandi kröftugum útlánavexti og myndarlegri aukningu í vaxta- og þóknanatekjum og nam hagnaður bankans 2,6 ma. kr. sem er í takti við áætlanir.

Staða bankans er afar traust, lausafjárhlutföll í erlendum og innlendum gjaldmiðlum yfir innri mörkum og kröfum eftirlitsaðila og eiginfjárhlutföll í takt við langtímamarkmið. Lánasafnið er sterkt og koma gæði þess vel út í alþjóðlegum samanburði.

Það gladdi mig hversu vel síðasta skuldabréfaboð bankans upp á 300 milljónir evra gekk á erlendum mörkuðum og það er ljóst að bankinn og íslenskt efnahagslíf njóta áframhaldandi trausts erlendra fjárfesta.

Íslandsbanki hélt áfram að kynna nýjar stafrænar lausnir fyrir viðskiptavini sína í byrjun árs 2019. Sem dæmi hafa lausnirnar „Lán í appi“ og „Velkomin í viðskipti“ hlotið frábærar viðtökur viðskiptavina og er bankinn rétt að byrja á þessari vegferð. Ný skýrsla bankans um ferðaþjónustu var kynnt í síðustu viku og hefur hún hlotið mikla athygli enda er ljóst að þjóðfélagið á mikið undir að vel takist til með þessa mikilvægu atvinnugrein.

Ný stefna bankans var kynnt fyrir starfsfólki í lok mars og var hún unnin með alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu Boston Consulting Group. Ég er sannfærð um að ný stefna muni gera bankann enn betur í stakk búinn til að takast á við breyttan bankaheim og munum við leggja áherslu á innleiðingu hennar á næstunni.

Framhaldið er spennandi fyrir okkur í Íslandsbanka þar sem við ætlum okkur að vera hreyfiafl til góðra verka og hafa jákvæð og uppbyggileg samfélagsáhrif en jafnframt halda áfram að veita viðskiptavinum okkar bestu bankaþjónustu á Íslandi.

Helstu atriði úr rekstri fyrsta ársfjórðungs (1F19)

  •  Íslandsbanki hlaut viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum frá Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti sjötta árið í röð.
  • Íslandsbanki var með átta tilnefningar til Lúðursins ásamt því að vera tilnefndur til Árunnar, árangursríkasta auglýsingaherferðin fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka.
  • Nýjar stafrænar lausnir voru kynntar: „Velkomin í viðskipti“ og „Lán í appi“ en þær hafa báðar hlotið frábærar viðtökur viðskiptavina. Auk þess var viðskiptavinum bankans gert kleift að borga  snertilaust með snjallúrum frá Garmin og Fitbit út um allan heim í posum sem bjóða snertilausa virkni.
  • Ný stefna bankans var kynnt fyrir starfsmönnum í mars og jafnframt tilkynnt um enn frekari áherslu á virka samfélagsábyrgð og sjálfbærni en bankinn mun framvegis styðja sérstaklega við fjögur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: #4 Menntun fyrir alla, #5 Jafnrétti kynjanna, #9 Nýsköpun og uppbygging, og #13 Aðgerðir í loftslagsmálum.
  • Sem hluti af stuðningi bankans við heimsmarkmiðin, var ákveðið að hætta að gefa plast- og gjafavörur til barna- og unglinga til að sporna við mengun og sóun.
  • Íslandsbanki hlaut faggilta jafnlaunavottun, en meginmarkmið slíkrar vottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.
  • Nýr vefur Íslandsbanka fór í loftið í janúar. Vefurinn hefur verið endurhannaðar og forritaður frá grunni í samstarfi við Kolibri og Brandenburg. Öll ásýnd vörumerkis bankans hefur verið uppfærð síðustu mánuði og vefurinn endurspeglar það nýja viðmót.
  • Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í mars þar sem samþykkt var að 5,3 ma. kr. af hagnaði ársins 2018 yrðu greiddir í arð til hluthafa. Einnig urðu breytingar í stjórn bankans þegar Tómas Már Sigurðsson var kjörinn nýr í stjórn í stað Helgu Valfells, sem óskaði ekki eftir endurkjöri.
  • Tilkynnt var um að Íslandsbanki eigi ánægðustu viðskiptavinina á bankamarkaði fyrir árið 2018 samkvæmt niðurstöðu Íslensku ánægjuvogarinnar. Þetta var sjötta árið í röð sem bankinn hlýtur þessa viðurkenningu. 

Fjárfestatengsl

Símafundur með fjárfestum á ensku kl. 14.00

Símafundur með markaðsaðilum vegna uppgjörs verður haldinn fimmtudaginn 9. maí kl. 14.00. Farið verður yfir helstu atriði í íslenskum efnahagsmálum og afkomu bankans. Fundurinn verður á ensku.

Vinsamlegast skráið ykkur á símafundinn með því að senda póst á: ir@islandsbanki.is. Fundargögn og aðgangsorð vegna símafundar verða send út til skráðra aðila fyrir fundinn.

Frekari upplýsingar um uppgjörið er hægt að nálgast hér

Nánari upplýsingar veita


Gunnar Magnússon

Fjárfestatengsl


Senda póst
440 4665

Edda Hermannsdóttir

Samskiptastjóri


Senda póst
440 4005