Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Afkoma fyrri árshelmings 2020

Hagnaður annars ársfjórðungs nam 1,2 ma. kr. og kostnaður lækkar áfram í kjölfar hagræðingaraðgerða síðustu missera


Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2020 (2F20)

  • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka eftir skatta nam 1,2 ma. kr. á 2F20 samanborið við 2,1 ma. kr. á 2F19. Arðsemi eigin fjár var 2,8% á ársgrundvelli (2F19: 4,9%).
  • Vaxtatekjur drógust saman um 2,1% á 2F20 sem skýrist af mestu leyti af 2% lækkun stýrivaxta Seðlabankans seint á 1F20 og á 2F20. Þóknanatekjur drógust saman um 16,4% að stærstu leyti vegna minni kortaveltu.
  • Stjórnunarkostnaður lækkaði um 5,6% sem ber vott um að kostnaðarhagræðing síðastliðna ára sé farin að skila árangri.
  • Neikvæð virðisbreyting útlána á 2F20 nam 2,4 ma. kr. sem skýrist að stærstu leyti af endurmati á mögulegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á útlán á stigi 2 til fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  • Útlán til viðskiptavina jukust um 9,5 ma. kr. að mestu vegna útlána til einstaklinga. Innlán til viðskiptavina jukust um 33,4 ma. kr. aðallega vegna aukningar í innlánum frá lífeyrissjóðum og einstaklingum.

 

Helstu atriði í afkomu á fyrri helmingi ársins 2020 (1H20)

  • Tap var af rekstri Íslandsbanka á fyrri helmingi ársins sem nam 131 m.kr. samanborið við 4,7 ma. kr. hagnað á 1H19. Tapið skýrist aðallega af neikvæðri virðisbreytingu útlána að fjárhæð 5,9 ma. kr. sem orsakast af áhrifum af COVID-19 faraldrinum. Fjármagnsgjöld námu 1,9 ma. kr. sem má að mestu leyti rekja til óhagfelldra aðstæðna á mörkuðum. Arðsemi eigin fjár var -0,1% á ársgrundvelli samanborið við 5,4% á 1H19.
  • Hreinar vaxtatekjur jukust um 2,9% samanborið við 1H19. Vaxtamunur hélst stöðugur og var 2,7%. Hreinar þóknanatekjur drógust saman um 11,2% miðað við sama tíma í fyrra sem má helst rekja til minni kortaveltu í kjölfar COVID-19. Stjórnunarkostnaður dróst saman um 7,0% frá 1H19 sökum fækkunar stöðugilda á árinu 2019, hóflegra launahækkana og lækkunar á flestum kostnaðarliðum.
  • Útlán til viðskiptavina námu 933 ma. kr. í lok 1H20 og jukust um 3,7% frá áramótum en þar af eru 19,2 ma. kr. tilkomnir vegna gengisbreytinga. Húsnæðislán jukust um 12,3 ma. kr. og má merkja aukna eftirspurn vegna lægra vaxtaumhverfis. Hlutfall lána með laskað lánshæfi á stigi 3 nam 3,6% (vergt bókfært virði) í lok 1H20.
  • Innlán frá viðskiptavinum námu 681 ma. kr. í lok 1H20 og jukust um 10,2% frá áramótum sem stafar að töluverðu leyti af auknum innlánum lífeyrissjóða. Sterk lausafjárhlutföll í gjaldmiðlum og takmörkuð fjármögnunarþörf hafa gert það að verkum að endurkaup eigin skuldabréfa voru hagkvæm á tímabilinu.
  • Heildareiginfjárhlutfall bankans var sterkt og nam 22,2% í lok 1H20, eiginfjárhlutfall þáttar 1 var 19,4% og vogunarhlutfall var 13,4%.

Lykiltölur

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka

Hagnaður Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi ársins nam 1,2 milljarði króna. Virðisrýrnun útlána, sem er einkum tilkomin vegna áhrifa af COVID-19 heimsfaraldrinum, hafði mikil áhrif á afkomu fjórðungsins sem og á afkomu fyrstu sex mánaða ársins. Kostnaður dróst saman um 7,0% á milli ára og þar sáum við aðgerðir sem gripið var til á síðasta ári skila árangri.

Við höfum áfram unnið að lausnum með okkar viðskiptavinum og má þar til dæmis nefna að umsóknir um stuðningslán nema nú rúmlega 1,5 milljarði króna. Allmargar umsóknir hafa þegar verið afgreiddar og fleiri bíða úrvinnslu. Góður gangur var í nýjum útlánum á tímabilinu. Töluverður vöxtur var í húsnæðislánum og margir viðskiptavinir nýttu sér bílafjármögnun Ergo á tímabilinu, sem átti sitt stærsta tímabil um árabil. Grænum lánum, sem kynnt voru í byrjun sumars, var sömuleiðis vel tekið. Innlán frá viðskiptavinum jukust mikið á tímabilinu eða um 10,2%. Lausa- og eiginfjárhlutföll eru áfram sterk og er bankinn því í einkar góðri stöðu til að vinna áfram með sínum viðskiptavinum. 

Við sjáum ýmsar breytingar í hegðun og óskum okkar viðskiptavina og starfsfólks í kjölfar heimsfaraldursins. Heimsóknum í útibú hefur fækkað og notkun stafrænna lausna aukist mikið. Við kynntum til leiks fyrstu útgáfu af spjallmenninu Fróða, en hann leiðbeinir einstaklingum með bankaþjónustu á einfaldan hátt. Við ætlum jafnframt að nýta okkur þá reynslu sem fékkst af því að vinna heima og höfum því m.a. sett af stað tilraunaverkefni þar sem hluti starfsfólks vinnur heima einn dag í viku. Ef vel gengur mun ferðum starfsfólks til og frá vinnu fækka og kolefnaspor bankans þar með dragast saman.

Við munum halda áfram að styðja við viðskiptavini okkar í gegnum óvissutíma, með bjartsýni að leiðarljósi og kappkostum að veita þeim bestu bankaþjónustuna nú sem aldrei fyrr.

 

COVID-19 faraldurinn á Íslandi og aðgerðir Íslandsbanka til að styðja við viðskiptavini

  • Virk smit á Íslandi eru nú 28 talsins og sóttvarnaraðgerðir halda áfram.
  • Landamæri Íslands voru opnuð 15. júní og hafa komufarþegar val um sýnatöku eða sóttkví. Farþegar frá löndum sem ekki eru talin áhættulönd þurfa ekki að fara í sýnatöku.
  • Útibú Íslandsbanka voru opnuð að nýju þann 11. maí eftir tímabundnar lokanir. Þjónusta var veitt í gegnum stafrænar lausnir og síma á tímabilinu.
  • Íslandsbanki hefur meðal annars gefið kost á tímabundinni frestun afborgana og vaxta af lánum í allt að sex mánuði.
  • Úrræði fyrir fyrirtæki miða að því að útfæra þau úrræði sem ríkið hefur veitt. Þar má helst nefna stuðningslán og viðbótarlán sem eru með 70-100% ríkisábyrgð og eru ætluð fyrirtækjum sem uppfylla ákveðin skilyrði.
  • Í lok 1H20 voru um 1600 lán til fyrirtækja á tímabundnum fresti á greiðslu afborgana og vaxta eða um 150 ma. kr. sem samsvarar um 26% af útlánum til fyrirtækja.
  • Í lok 1H20 voru rúmlega 2500 lán til einstaklinga á tímabundnum fresti á greiðslu afborgana og vaxta eða um 30 ma. kr. sem samsvarar um 8% af útlánum til einstaklinga.

Helstu atriði úr rekstri á fyrri helmingi ársins 2020 (1H20)

  • Þann 7. júlí 2020 var tilkynnt að sölu væri lokið á 63,5% eignarhlut bankans í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd., en tilkynnt hafði verið um undirritun kaupsamnings í mars.
  • Með aukinni notkun stafrænna lausna og tilkomu nýrra lausna eins og endurfjármögnunarferli fyrir húsnæðislán, stofnun verðbréfaviðskipta og spjallmenninu Fróða fyrir einstaklinga, fékk útibúið í Laugardal aukna áherslu á einstaklingsþjónustu. Samhliða þessum breytingum sameinuðust  útibúin á Höfða og Granda útibúinu í Laugardal, Suðurlandsbraut. Eftir þessar breytingar þjónustar Íslandsbanki viðskiptavini sína í gegnum skilvirkt útibúanet sem samanstendur af 12 útibúum.
  • Þjónusta við lítil og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu var sameinuð í eina Fyrirtækjamiðstöð í Norðurturni, höfuðstöðvum Íslandsbanka. Fyrirtæki geta þó nú sem fyrr leitað í öll útibú fyrir einfalda bankaþjónustu.
  • Íslandsbanki hóf tilraunaverkefni þar sem starfsfólk vinnur heima einn dag í viku. Bankinn kynnti einnig nýjar áherslur sem hvetja til umhverfisvænni samgöngumáta.
  • Bankinn kynnti uppfærða þjóðhagsspá fyrir árin 2020-2022 þar sem m.a. er spáð að þjóðarframleiðsla dragist saman um 9,1% á árinu 2020 en að efnahagsbati verði á árinu 2021.
  • Íslandsbanki og Payday skrifuðu undir samstarfssamning. Payday býður upp á þjónustu sem einfaldar reikningagerð, launagreiðslur, bókhald og skil á virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum. Lausnin er ætluð sjálfstæðum atvinnurekendum og smærri fyrirtækjum.
  • Bankinn úthlutaði 30 m.kr. úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka. Við úthlutun styrkja var horft til verkefna sem stuðla að þeim fjórum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem Íslandsbanki hefur ákveðið að styðja sérstaklega við í stefnu sinni. Samtals hlutu 13 verkefni styrk.
  • Ergo kynnti betri kjör á grænni fjármögnun vegna bílalána og bílasamninga. Ergo býður nú jafnframt upp á fjármögnun á rafmagnshjólum og hleðslustöðvum fyrir vistvænar bifreiðar.
  • Íslandsbanki hélt endurkaupum á eigin skuldabréfum áfram á tímabilinu. Til viðbótar við SEK 350m endurkaupin í apríl keypti bankinn SEK 75m af almennu skuldabréfi, á gjalddaga í febrúar 2021, á öðrum ársfjórðungi. Bankinn mun áfram skoða endurkaup á eigin skuldabréfum ef tækifæri og aðstæður gefast.

Öll gögn tengd uppgjöri ásamt upplýsingum um fjárhagsdagatal og þögul tímabil má finna hér.

Nán­ari upp­lýs­ing­ar veita


Mar­grét Lilja Hrafn­kels­dótt­ir

Fjárfestatengill


Senda póst
844-4033

Edda Her­manns­dótt­ir

Samskiptastjóri


Senda póst
844-4005