Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Af­koma á fyrsta árs­fjórð­ungi 2023

Sterk rekstrarniðurstaða - hagnaður nam 6,2 ma. kr og arðsemi var 11,4%


Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023 (1F23) – sterk rekstrarniðurstaða í krefjandi markaðsumhverfi

 • Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 6,2 ma. kr. á fyrsta ársfjórðungi (1F22: 5,2 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 11,4% á ársgrundvelli (1F22: 10,2%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun sem vegur upp á móti hækkun kostnaðar. 
 • Hreinar vaxtatekjur jukust um 34,9% á milli ára og námu 12,4 ma. kr. á 1F23 samanborið við 9,2 ma. kr. á 1F22. Hækkunin á milli ára skýrist að mestu af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans. Vaxtamunur á heildareignir nam 3,2% á 1F23 samanborið við 2,6% á 1F22.
 • Hreinar þóknanatekjur jukust um 13,2% á milli ára og námu samtals 3,5 ma. kr. á 1F23 samanborið við 3,1 ma. kr. á 1F22. Tekjur af kortum og greiðslumiðlun og þóknanatekjur hjá Allianz Ísland hf., dótturfélagi bankans, eru áfram þeir liðir sem leiða hækkunina.
 • Kjarnastarfsemi gegnir eftir sem áður lykilhlutverki í tekjustreymi bankans og á 1F23 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 95% af rekstrartekjum (97% á 1F22). Þessir tveir tekjuliðir jukust um 29,5% á milli 1F23 og 1F22. 
 • Hreinar fjármunatekjur námu 538 m.kr. á 1F23, samanborið við fjármunakostnað að fjárhæð 95 m.kr. á 1F22 sem skýrist að mestu leyti af hreyfingum á vaxtaferlum í íslenskum krónum og erlendum myntum. 
 • Stjórnunarkostnaður nam 7,0 ma. kr. á 1F23 samanborið við 5,8 ma. kr. á 1F22, sem er talsverð hækkun milli ára, eða sem nemur 20,7%. Hækkunin skýrist að mestu af samningsbundnum launahækkunum, stefnumótandi verkefnum, auknum umsvifum Allianz Ísland hf. og mikilli verðbólgu. Hluti aukins kostnaðar á fjórðungnum ætti að jafnast út yfir árið, eða jafnast á móti auknum tekjum. 
 • Kostnaðarhlutfall bankans var 42,1% á 1F23 og er innan markmiða bankans um kostnaðarhlutfall á bilinu 40-45% og lækkar úr 47,6% á 1F22. Sterk tekjumyndun vegur að hluta til á móti auknum kostnaði. 
 • Gjaldfærð virðisrýrnun nam 675 m.kr. á 1F23 og skýrist að mestu af stækkun lánasafnsins. Á 1F22 var virðisrýrnun jákvæð um 483 m.kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var +0,22 prósentustig á ársgrundvelli á 1F23 samanborið við -0,17 prósentustig á 1F22.
 • Útlán til viðskiptavina jukust um 32,4 ma. kr á fjórðungnum, eða um 2,7% og voru 1.219 ma. kr. í lok fyrsta ársfjórðungs 2023.
 • Aukning var á innlánum frá viðskiptavinum um 10,2 ma. kr. á fjórðungnum eða um 1,3% og voru 800,1 ma. kr. í lok fyrsta ársfjórðungs, aukningin kom aðallega frá viðskiptavinum Einstaklingssviðs.
 • Eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er áfram sterk og voru öll hlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.
 • Eigið fé bankans nam 210,4 ma. kr. í lok fjórðungsins samanborið við 218,9 ma. kr. í lok árs 2022. Bankinn greiddi alls um 12,3 ma. kr. í arð til hluthafa á fyrsta ársfjórðungi 2023. Eiginfjárhlutfall bankans var 23,2% í lok 1F23, samanborið við 22,2% í árslok 2022. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 19,9%, samanborið við 18,8% í árslok 2022. Uppfært viðmið bankans um eiginfjárhlutfall almenns þáttar gerir ráð fyrir 100-300 prósentustigum í eiginfjárauka umfram kröfur eftirlitsaðila. 
 • Bankinn fyrirhugar að halda áfram með fimm milljarða endurkaup á eigin bréfum á komandi mánuðum,  og ljúka bestun efnahagsreiknings fyrir lok árs 2024, með fyrirvara um aðstæður á mörkuðum. 

Við erum ánægð með afkomu Íslandsbanka á fyrsta ársfjórðungi 2023. Verkefnin hafa verið fjölbreytt og spennandi í upphafi árs þó alþjóðamarkaðir hafi sjaldan verið jafn krefjandi. Hagnaður fyrsta ársfjórðungs nam 6,2 ma. kr. og var arðsemi eigin fjár 11,4%, sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Tekjur bankans á árinu jukust um 32,6% miðað við sama fjórðung í fyrra og nam vöxtur í hreinum vaxtatekjum tæpum 35% miðað við fyrsta ársfjórðung 2022. Stjórnunarkostnaður jókst talsvert á fjórðungnum, miðað við sama ársfjórðung í fyrra, en hækkunin nam 20,7% miðað við 1F22. Hækkunin skýrist helst af auknum launakostnaði, sem stafar að hluta til af samningsbundnum launahækkunum og tilfallandi kostnaði. Sterk tekjumyndun á ársfjórðungnum leiðir til þess að kostnaðarhlutfallið var 42,1%, sem er innan fjárhagslegra markmiða bankans. Útlán til viðskiptavina jukust um 2,7% og nam aukning í innlánum viðskiptavina rúmum 10 milljörðum króna frá áramótum. 

Endurkaupaáætlun var hleypt af stokkunum á fjórðungnum, í samræmi við heimild aðalfundar árið 2022 um kaup á eigin bréfum. Á tímabilinu frá febrúar fram til 15. mars keypti bankinn eigin hluti fyrir rúmar 900 milljónir króna. Þau endurkaup eru hluti af allt að fimm milljarða króna endurkaupum á eigin bréfum sem bankinn hafði áður tilkynnt um. Er það hluti af bestun á eigin fé bankans sem ráðgert er að ljúki fyrir lok árs 2024, með fyrirvara um aðstæður á mörkuðum. Heimild til kaupa á eigin hlutum var endurnýjuð á aðalfundi bankans í mars síðastliðnum. Á aðalfundi bankans var einnig ákveðið að greiða samtals um 12,3 milljarða í arð til hluthafa.

Ný stefna bankans var samþykkt af stjórn í mars síðastliðnum. Stefnan var unnin í nánu samstarfi við starfsfólk þvert á bankann. Samkvæmt nýrri stefnu verður hlutverk Íslandsbanka áfram að vera hreyfiafl til góðra verka, með því að skapa virði til framtíðar með viðskiptavinum okkar. Árangursrík innleiðing fyrri stefnu skilaði miklum innri vexti og þar voru tekin markviss skref í átt að aukinni arðsemi eigin fjár. Yfirskrift stefnuáhersla næstu tveggja ára er „Sókn og vöxtur“, sem vísar ekki síst til þess að bankinn horfi jafnt til tækifæra utan bankans sem og innan hans til vaxtar. 

Yfirstandandi viðræður við Kviku banka hf. eru því að okkar mati eðlilegt skref í þeirri vegferð. Verkefnið er umfangsmikið en félögin og ráðgjafar vinna að því að meta samlegð af samrunanum og meta stöðu sameinaðs félags á markaði.  Á meðan afmarkaður hópur innan bankans sinnir þessu verkefni ásamt ráðgjöfum leggjum við mikla áherslu á að halda áfram öllum þeim spennandi verkefnum sem við fáum að takast á við með viðskiptavinum okkar.

Birna Einarsdóttir
Bankastjóri Íslandsbanka

Fjárfestatengsl

Vefstreymi föstudaginn 5. maí 2023

Íslandsbanki mun halda vefstreymi föstudaginn 5. maí kl. 8.30 fyrir markaðsaðila. Birna Einarsdóttir, bankastjóri og Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri munu kynna afkomu bankans og helstu atriði í rekstri hans á ársfjórðungnum. Fundurinn fer fram á ensku.

Vefstreymið fer fram á þessari síðu. Upptaka af fundinum verður aðgengileg á heimasíðu fjárfestatengsla að honum loknum. Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn og lagt fram spurningar munnlega með því að skrá sig á þessari síðu. Þar kemur upp listi yfir innhringingarnúmer og persónulegt PIN-númer. Ef það er ekki til staðarnúmer fyrir landið þitt, eða ef þú vilt fá símtal í stað þess að hringja inn, er hægt að nota „Hringja í mig“ valkostinn. Veldu þá landið þitt, sláðu inn símanúmerið þitt og smelltu á bláa „Call me“ hnappinn til að tengjast.

Fjárfestaefni

Allt fjárfestaefni mun verða birt á vef fjárfestatengsla þar sem upplýsingar um fjárhagsdagatal og þögul tímabil eru einnig aðgengilegar.

Nánari upplýsingar veita


Bjarney Anna Bjarna­dótt­ir

Fjárfestatengsl


Senda tölvupóst
698 0259

Edda Hermannsdóttir

Forstöðumaður


Senda tölvupóst
844 4005