Helstu atriði í afkomu fjórða ársfjórðungs 2022 (4F22) – sterk rekstrarniðurstaða í sveiflukenndu markaðsumhverfi
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 6,0 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi (4F21: 7,1 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 11,1% á ársgrundvelli (4F21: 14,2%) sem er yfir fjárhagslegum markmiðum bankans. Helstu ástæður góðrar afkomu eru sterk tekjumyndun sem vegur upp á móti hækkun kostnaðar.
- Hreinar vaxtatekjur jukust um 42,9% á milli ára og námu 12,3 ma. kr. á 4F22 samanborið við 8,6 ma. kr. á 4F21. Hækkunin á milli ára skýrist að mestu af hærra vaxtaumhverfi og stækkun inn- og útlánasafns bankans. Vaxtamunur á heildareignir nam 3,1% á 4F22 samanborið við 2,4% á 4F21.
- Hreinar þóknanatekjur jukust um 10,5% á milli ára og námu samtals 4,0 ma. kr. á 4F22 samanborið við 3,7 ma. kr. á 4F21. Tekjuaukning hjá Allianz Ísland hf., dótturfélagi bankans, og auknar tekjur af kortum og greiðslumiðlun leiddu hækkunina.
- Bankinn leggur aðaláherslu á kjarnastarfsemi og á 4F22 námu vaxta- og þóknanatekjur samanlagt 102% af rekstrartekjum samanborið við 93,7% á 4F21. Þessir tveir tekjuliðir jukust um 33,3% á milli 4F21 og 4F22.
- Hreinn fjármunakostnaður nam 899 m.kr. á 4F22, samanborið við fjármunatekjur að fjárhæð 646 m.kr. á 4F21 sem skýrist að mestu leyti af hreyfingum á vaxtaferlum í íslenskum krónum og erlendum myntum.
- Stjórnunarkostnaður nam 6,8 ma. kr. á 4F22 samanborið við 5,8 ma. kr. á 4F21, hækkun um 18,2% milli ára og skýrist að mestu af aukinni verðbólgu, hækkun á launum og gjaldfærslu á líklegri stjórnvaldssekt.
- Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði á milli ára í 42,5% á 4F22 og er undir markmiði bankans, úr 45,3% á 4F21, aðallega vegna sterkrar tekjumyndunar.
- Gjaldfærð virðisrýrnun nam 647 m.kr. á 4F22 og skýrist af væntum áhrifum aukinnar verðbólgu á gæði lánasafnsins. Á 4F21 var virðisrýrnun jákvæð um 639 m.kr. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var +0,22 prósentustig á ársgrundvelli á 4F22 samanborið við -0,23 prósentustig á 4F21.
- Útlán til viðskiptavina jukust um 33,6 ma. kr á fjórðungnum, eða um 2,9% og voru 1.186 ma. kr. í árslok 2022.
- Aukning var á innlánum frá viðskiptavinum um 8,3 ma. kr. á fjórða ársfjórðungi 2022 eða um 1,1% og voru 790 ma. kr. í lok árs 2022, aukningin kom aðallega frá Fyrirtækjum og fjárfestum og Einstaklingum.
- Eiginfjár- og lausafjárstaða bankans er áfram sterk og voru öll hlutföll vel yfir innri viðmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila í lok tímabils.
Helstu atriði í afkomu ársins 2022 – Tekjuvöxtur ástæða góðrar afkomu
- Hagnaður af rekstri Íslandsbanka nam 24,5 ma. kr. á árinu 2022 (2021: 23,7 ma. kr.). Arðsemi eigin fjár var 11,8% á ársgrundvelli samanborið við 12,3% fyrir árið 2021.
- Hreinar vaxtatekjur námu samtals 43,1 ma. kr. á árinu 2022 sem er hækkun um 26,7% á milli ára og skýrist af hærra vaxtaumhverfi milli tímabila og auknum inn- og útlánum. Vaxtamunur nam 2,9% árið 2022, samanborið við 2,4% á árinu 2021.
- Hreinar þóknanatekjur hækkuðu um 9,4% milli ára og námu samtals 14,1 ma. kr á árinu 2022 samanborið við 12,9 ma. kr á árinu 2021. Auknar þóknanir vegna greiðslumiðlunar, gott gengi Allianz Ísland hf. sem og mikil umsvif í gjaldeyrismiðlun eru megin þættir hækkunarinnar.
- Hreinn fjármunakostnaður nam 1.257 m.kr. á árinu 2022 samanborið við fjármunatekjur að fjárhæð 2.499 m.kr. á árinu 2021. Skýrist það af sveiflum á fjármagnsmörkuðum og hækkun vaxtaferla hérlendis og erlendis.
- Stjórnunarkostnaður nam 23,9 ma. kr. á árinu 2022 samanborið við 23,2 ma. kr. á árinu 2021, sem er hækkun um 3,1% en 4,8% lækkun að raunvirði.
- Kostnaðarhlutfall lækkaði milli ára, frá 46,2% árið 2021 í 42,1% árið 2022.
- Hrein virðisbreyting á árinu 2022 var jákvæð um 1.576 m.kr. (2021: 3.018 m.kr.). Jákvæð virðisbreyting er að mestu tilkomin vegna bjartari horfa í ferðaþjónustu ásamt niðurstöðu dómsmáls varðandi lán sem áður var að fullu virðisrýrt og vega þessi atriði þyngra en neikvæð áhrif aukinnar verðbólgu og alþjóðlegs óstöðugleika. Áhættukostnaður útlána (e. cost of risk) var -0,14 prósentustig á ársgrundvelli fyrir árið 2022 samanborið við -0,28 prósentustig árið 2021.
- Eigið fé bankans nam 218,9 ma. kr. í lok árs 2022 samanborið við 203,7 ma. kr. í lok árs 2021. Bankinn greiddi alls 11,9 ma.kr. í arð til hluthafa á árinu 2022. Eiginfjárhlutfall bankans var 22,2% samanborið við 25,3% í árslok 2021. Samsvarandi eiginfjárhlutfall almenns þáttar 1 (CET1) var 18,8%,
- MREL-krafa (e. Minimum Required own funds and Eligible Liabilities) bankans er 21,2%, reiknuð í hlutfalli af áhættugrunni (e. Total Risk Exposure Amount – TREA). MREL-krafan að viðlögðum eiginfjáraukum var 30,5% í lok árs 2022 og hlutfall bankans var 34,5% í árslok 2022.
Bestun efnahagsreiknings, arðgreiðsla og endurkaup eigin bréfa
- Stjórn Íslandsbanka mun leggja til 12,3 ma. kr. arðgreiðslu við aðalfund bankans, sem er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans.
- Eiginfjárhlutföllin gera ráð fyrir áður áætluðum endurkaupum á eigin bréfum að fjárhæð 15 ma. kr. Bankinn hefur séð arðbæran vöxt útlána til viðskiptavina á árinu 2022 sem var umfram upphaflegar áætlanir og sér frekari tækifæri til að stækka útlánasafnið. Þá hefur Seðlabanki Íslands, í ljósi alþjóðlegrar efnahagsóvissu og óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum, beðið íslensku bankana um að stíga varlega til jarðar þegar kemur að úthlutun eigin fjár á næstunni. Því hefur bankinn í hyggju að hefja endurkaup á eigin hlutabréfum með venjulegu endurkaupaferli að fjárhæð 5 milljarðar króna, sem færi fram á næstu mánuðum og mun tilkynna um slíkt á markaðinn í samræmi við kröfur þar um þegar þar að kemur. Þeir 10 milljarðar króna sem eftir standa verður bætt aftur inn í eiginfjárauka bankans, sem leiðir til 1 prósentustigs hækkunar á eiginfjárhlutföllum bankans. Bankinn mun óska eftir endurnýjaðri heimild til endurkaupa á eigin hlutabréfum á aðalfundi bankans í mars og hefur áform um að bæta enn frekar samsetningu eigin fjár fyrir árslok 2024.