Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Aðalfundur Íslandsbanka 2014

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag, miðvikudaginn 2. apríl. Friðrik Sophusson, formaður stjórnar, flutti skýrslu stjórnar og Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir uppgjör bankans og helstu þætti í starfsemi hans á árinu 2013. 


Friðrik fór yfir starfsemina á árinu 2013 og sagði frá því að Íslandsbanki hafi greitt samtals 12,4 milljarða króna í skatta og gjöld til hins opinbera að meðtöldum eftirlitsgjöldum. Þar af nemi bankaskatturinn 2,3 milljörðum króna. Ríkisstjórnin hefur sagt að nýjar álögur, sem standa eiga straum af kostnaði vegna höfuðstólsleiðréttingar húsnæðislána, séu tímabundnar. 
Hann sagði mikilvægt að ríkisstjórnin standi við orð sín því að þessi mikla skattlagning á tekjustofna eins og skuldir og laun dragi stórlega úr hagræði í bankakerfinu og dragi einnig úr áhrifum þeirra fjölmörgu aðgerða sem Íslandsbanki hefur gripið til á undanförnum árum til þess að lækka kostnað og hagræða í rekstri. 

Framtíðareignarhald

Friðrik sagði einnig ljóst að þeir sem færu með eignarhaldi bankans í dag væru ekki framtíðareigendur bankans. Markmið þeirra væri að selja bankann strax og aðstæður leyfa. „Ég vil sérstaklega taka fram að núverandi eigendur bankans hafa aldrei reynt að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnar bankans í því skyni að draga taum eigenda á annarra kostnað. Slitastjórn Glitnis, sem á, í gegnum tvö dótturfélög, 95% hlut í bankanum, hefur lýst áhuga sínum á að skrá bankann á markað.“
Fram kom í máli hans að miklu skipti að Íslandsbanki verði í eigu einkaaðila, innlendra eða erlendra, sem sjá hag sínum borgið með því að stunda fjármálastarfsemi hér á landi til langframa og hafi áhuga á því að taka þátt í uppbyggingu og þróun atvinnu- og efnahagslífs hér á landi. Erlend eignaraðild geti haft jákvæð áhrif á greiðslujöfnuð við útlönd, opnað aðgengi að erlendu fjármagni og þannig liðkað til við losun gjaldeyrishaftanna.

Gott ár að baki

Birna Einarsdóttir sagði árið 2013 einkennast af góðum árangri og samþættingu í rekstri. Allar viðskiptaeiningar hefðu sýnt góða afkomu sem hefði skilað sér í heildarafkomu bankans. Að auki væru allar viðskiptaeiningar með góða markaðshlutdeild og eru í fararbroddi hvað þjónustu og fagmennsku varðar.

Á árinu 2013 voru augljóst merki um að hjól atvinnulífsins væru farin að snúast að nýju en ný útlán Íslandsbanka á árinu námu 100 milljörðum króna. Um 60 milljarðar eru ný útlán frá viðskiptabankasviði og 40 milljarðar frá fyrirtækjasviði. 
Birna sagði einnig frá því að Íslandsbanki hafi lokið fyrsta erlenda skuldabréfaútboði sínu í lok árs fyrir sem samsvarar rúmlega níu milljarða íslenskra króna á tiltölulega hagstæðum kjörum en áhersla hafi verið lögð á að fjölga stoðum í fjármögnun bankans með góðum árangri. Aðgengi að erlendum fjármagnsmörkuðum og aukið sjálfstæði í fjármögnun tryggi bankanum samkeppnisforskot til lengri tíma. Fyrst og fremst sé bankinn betur í stakk búinn til að styðja við viðskiptavini sína sem stunda alþjóðleg viðskipti og þarfnast fjármögnunar í erlendri mynt. 

Íslandsbanki var fremstur á bankamarkaði í Ánægjuvoginni sem er ánægjulegt þar sem bankinn leggur áherslu á að vera númer eitt í þjónustu.

Ákvarðanir aðalfundar

Stjórn bankans er óbreytt frá fyrra ári. Þá samþykkti fundurinn að greiða 4,0 milljarða króna í arð til hluthafa bankans vegna rekstrarársins 2013. Á fundinum var einnig samþykkt að Deloitte hf. verði endurskoðunarfélag bankans til eins árs. Engin breyting var gerð á þóknunum til stjórnarmanna á aðalfundinum og þá var samþykkt að starfskjarastefna bankans yrði óbreytt frá fyrra ári.