Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

2021: Betra efnahagsár en við þorðum að vona

Efnahagsþróun á árinu 2021 hefur að mörgu leyti verið jákvæðari en vænst var í ársbyrjun. Hagvöxtur hefur glæðst meira, atvinnuleysi hefur hjaðnað hraðar og krónan styrkst nokkuð umfram það sem við væntum. Verðbólga hefur hins vegar reynst þrálátari og vaxtahækkunarferli er fyrr á ferðinni en við bjuggumst við.


Árið sem nú er að renna sitt skeið hefur sannarlega verið ár bæði skins og skúra í efnahagslífinu. Líklega voru flestir að vona að útbreidd bólusetning myndi snúa við gangi faraldursins þegar á árið liði en í staðinn er heimsbyggðin að glíma við enn eina faraldursbylgjuna yfir hátíðirnar og staðan víða nokkuð tvísýn.

En þótt Kórónuveiran hafi ekki kvatt okkur á árinu hefur ýmislegt í hagkerfinu þróast til betri vegar en margir þorðu að vona og efnahagslega er staða landsmanna að mörgu leyti sterkari en við og flestir aðrir væntu í ársbyrjun. Því er fróðlegt að líta um öxl og bera væntingar okkar í ársbyrjun um þróun ýmissa lykilstærða saman við raunþróunina og útlitið nú í árslok.

Hagvöxtur framar væntingum

Ef við byrjum á hagvaxtarhorfunum þá gáfum við í janúarlok út þjóðhagsspá þar sem við spáðum 3,2% hagvexti á árinu 2021. Áttum við von á að þann vöxt mætti að stærstum hluta þakka bata í ferðaþjónustu ásamt hóflegum vexti neyslu og fjárfestingar. Nú liggja fyrir þjóðhagsreikningar fyrir fyrstu 9 mánuði ársins ásamt hagvísum sem gefa vísbendingar um þróunina á lokafjórðungnum.

Í sem stystu máli teljum við nú að hagvöxtur á árinu 2021 muni reynast talsvert meiri en við spáðum í ársbyrjun. Þann mun má skýra með talsvert líflegri vexti innlendrar eftirspurnar en við væntum. Til að mynda spáðum við 1,9% einkaneysluvexti í janúarspánni. Vöxturinn var hins vegar 5,4% á fyrstu þremur ársfjórðungunum og tölur á borð við kortaveltu og innflutning neysluvara gefa til kynna að vöxturinn á árinu öllu gæti jafnvel reynst aðeins meiri. Einkaneysluþróun vegur þungt í hagvaxtartaktinum og þessi munur er að sama skapi stór hluti skýringarinnar á vanmati okkar á hagvexti ársins í janúarspánni.

Svipaða sögu má segja af fjárfestingu sem ætlar að reynast mun myndarlegri í ár en við hugðum. Í janúar spáðum við tæplega 4% vexti fjármunamyndunar í ár en vöxturinn reyndist ríflega 13% á fyrstu 9 mánuðum ársins.

Hins vegar er útlit fyrir að útflutningsvöxtur verði álíka mikill og við spáðum í ársbyrjun. Myndarlegum vexti innlendrar eftirspurnar fylgir aftur á móti meiri innflutningur en ella og framlag utanríkisviðskipta til vaxtar verður því ekki jafn hagfellt í ár og við væntum í ársbyrjun.

Atvinnuástand hefur batnað umtalsvert

Allhraður efnahagsbati hefur orðið til þess að störfum hefur fjölgað hraðar á nýjan leik en útlit var fyrir í ársbyrjun og atvinnuleysi hefur að sama skapi hjaðnað fyrr. Við töldum í janúarspánni að atvinnuleysi yrði að jafnaði 9,4% af vinnuafli í ár en myndi hjaðna í 4,6% að jafnaði á næsta ári. Atvinnuleysi var hins vegar komið niður í 5% á haustdögum og hefur haldist í því hlutfalli síðan.

Nú þegar einungis vantar tölur fyrir desembermánuð er útlit fyrir að atvinnuleysið í ár reynist í samræmi við septemberspá okkar. Að því gefnu að ekki verði verulegt og langvarandi bakslag í bata ferðaþjónustunnar vegna faraldursins á komandi ári erum við bjartsýn á að septemberspáin reynist einnig nærri lagi hvað varðar næsta ár og að þegar sígur á seinni hluta þess árs verði atvinnuástand almennt orðið áþekkt og það var áður en faraldurinn skall á.

Krónuþróunin í takti við væntingar

Í ársbyrjun vorum við hóflega bjartsýn á þróun krónu eftir tæplega 10% veikingu hennar árið 2020. Töldum við líklegt að gengi krónunnar myndi eiga nokkuð undir högg að sækja þar til ferðaþjónustan tæki að rétta úr kútnum en að með fjölgun ferðafólks myndi hagur hennar vænkast á ný. Gerðum við þá ráð fyrir lítilsháttar styrkingu krónu yfir þetta ár en hraðari styrkingu í kjölfarið.

Framan af árinu leit út fyrir að þessi sýn okkar myndi reynast heldur svartsýn enda styrktist krónan um 5% á fyrri helmingi ársins. Uppfærðum við spá okkar fyrir gengi krónunnar með hliðsjón af þessu og gerðu spár okkar bæði í maí og september fyrir 3 – 4% sterkari krónu að jafnaði á yfirstandandi ári en því síðasta.

Þróunin á seinni helmingi ársins hefur hins vegar orðið með talsvert öðrum hætti en á fyrri helmingnum. Krónan gaf nokkuð eftir á 3. ársfjórðungi en hefur sótt heldur í sig veðrið á nýjan leik frá nóvemberbyrjun. Niðurstaðan fyrir árið í heild, 2,5% sterkari króna en í fyrra, virðist því ætla að verða mitt á milli spár okkar í ársbyrjun annars vegar og spánna frá maí og september hins vegar. Eftir sem áður erum við þeirrar skoðunar að krónan eigi inni nokkra styrkingu með fjölgun ferðamanna og vaxandi viðskiptaafgangi á komandi ári eins og lesa má um hér.

Verðbólga þrálátari en við væntum

Þegar sögunni víkur að verðbólgu og vöxtum fer hins vegar heldur að kárna gamanið þegar þróun ársins er borin saman við væntingar okkar í ársbyrjun. Við áttum í janúar von á því að verðbólga yrði tiltölulega skapleg þetta árið enda voru vísbendingar um að innflutti verðbólgukúfurinn sem kom í kjölfar krónuveikingar á árinu 2020 yrði brátt að baki. Raunin varð hins vegar aldeilis önnur. Árið 2021 hefur verið mesta verðbólguár frá árinu 2012 á Íslandi og var verðbólga að meðaltali 4,4% á árinu.

Segja má að vanmat okkar á verðbólgu ársins hafi að talsverðu leyti endurspeglað of hóflegar væntingar okkar framan af ári til innlendrar eftirspurnar og stöðu íslenskra heimila á árinu. Sér í lagi áttum við ekki frekar en flestir aðrir von á því að íbúðamarkaður myndi taka eins hressilega við sér og raunin varð. Við spáðum í ársbyrjun að íbúðaverð myndi að jafnaði verða 6,5% hærra á árinu 2021 en á árinu á undan. Raunin er hins vegar tæplega 13% hærra verð að meðaltali á árinu en í fyrra. Þar sem íbúðaverð vegur allþungt í vísitölu neysluverðs hefur þessi þróun heldur betur sett mark sitt á verðbólguþróun ársins.

Þá hefur verðþróun erlendis sem og þróun flutningskostnaðar verið töluvert óhagstæðari en við væntum enda er verðbólga um þessar mundir víðast meiri en hún hefur verið um árabil og mun meiri en almennt var spáð á heimsvísu fyrr á árinu. Við erum því í góðum hópi innlendra sem erlendra kollega sem hafa vanmetið áhrif mótvægisaðgerða stjórnvalda við faraldrinum, breytinga á eftirspurn heimila og ójafnvægis í framleiðslu- og flutningakerfum jarðarkringlunnar á veðbólguna undanfarna fjórðunga. Er það eilítil huggun harmi gegn.

Vaxtahækkunarferli fyrr á ferð

Það leiðir svo bæði af hagfelldari hagþróun og óhagstæðari verðbólguþróun að stýrivextir Seðlabankans hafa þróast á annan veg en við væntum í ársbyrjun. Í janúar töldum við líklegast að stýrivextir yrðu óbreyttir út árið í þeim 0,75% sem þeir höfðu kvatt árið á undan. Töldum við hóflegar verðbólgu- og vaxtarhorfur tæpast gefa Seðlabankanum tilefni til annars en fara hægt í sakirnar í vaxtahækkunarferli á þeim misserum sem í hönd fóru.

Skemmst er frá því að segja að vaxandi verðbólga ásamt batamerkjum í hagkerfinu, sér í lagi hvað varðar innlenda eftirspurn, urðu til þess að bankinn réðist í vaxtahækkun í maí sl. Seðlabankinn hefur alls hækkað stýrivexti um 1,25 prósentur frá því í ársbyrjun og eru meginvextir bankans nú 2,0%.

Eftir því sem skýrari merki urðu um bata í hagkerfinu og þrálátari verðbólguþrýsting uppfærðum við einnig stýrivaxtavæntingar okkar til samræmis. Teljum við nú horfur á því að vaxtahækkunarferli Seðlabankans muni halda áfram sleitulítið fram á árið 2023 og að bankinn muni fyrst láta staðar numið um mitt þarnæsta ár þegar stýrivextirnir eru komnir í 3,5%.

Batnandi hagkerfi er best að lifa

Sem betur fer endurspeglar munurinn á spám okkar í upphafi árs og þróuninni á árinu að mestu leyti kraftmeiri efnahagsbata en við bjuggumst við. Þótt þrálát verðbólga og spenna á íbúðamarkaði séu vissulega áhyggjuefni um þessar mundir eru það þó ákjósanlegri áskoranir en þrálátt atvinnuleysi og dræmur eftirspurnarvöxtur hefðu verið. Góðu heilli er líka fjárhagur heimila, fyrirtækja og hins opinbera á heildina litið traustur og bendir flest til þess að þessir aðilar séu ágætlega í stakk búnir til að leggja sitt að mörkum við frekari bata efnahagslífsins á komandi ári.

Við erum því eftir sem áður bjartsýn á efnahagshorfurnar á komandi ári þótt vissulega séu snúnar áskoranir framundan á borð við að kalla fram betra jafnvægi á íbúðamarkaði og feta meðalveginn í hagstjórn með vaxandi aðhaldi án þess að efnahagsbatanum sé stefnt í voða. Síðast en ekki síst verður flókið, en að sama skapi mikilvægt, að ná lendingu í komandi kjarasamningum sem varðveitir kaupmátt launþega, samrýmist á sama tíma afar mismunandi stöðu innlendra fyrirtækja að áliðnum faraldri og snýr ekki áfram hinni gamalkunnu verðbólguskrúfu hækkandi launa, gengislækkunar krónu og þrálátrar verðbólgu. Óskandi er að jafn vel gangi að vinna úr þessum verkefnum og glíman við efnahagslegar afleiðingar faraldursins hefur gengið í stórum dráttum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband