Icelandic Group selur Seachill

18.10.2017

Icelandic Group hefur undirritað samning um sölu á Seachill, dótturfélagi sínu í Bretlandi. Kaupandi er breska matvælafyrirtækið Hilton Food Group. Heildarvirði Seachill í viðskiptunum nemur um 12 milljörðum króna (GBP 84 milljónir). Ráðgert er að félagið verði afhent nýjum eiganda þann 7. nóvember 2017.

Söluferlið á Seachill var auglýst í apríl síðastliðnum. Mikill áhugi var á félaginu þar sem fjölmargir alþjóðlegir aðilar tóku þátt í ferlinu og lýstu yfir vilja til kaupanna. Niðurstaða ferlisins var að ganga til samninga við Hilton. Umsjón með söluferlinu og ráðgjöf til seljanda var í höndum Oghma Partners og Íslandsbanka. Logos veitti seljanda lögfræðiráðgjöf í tengslum við viðskiptin.

„Með sölunni á Seachill er stórum áfanga náð í þeirri vegferð sem hófst árið 2015 þegar stefnan var tekin að selja Icelandic Group í einingum frekar en í heilu lagi. Samstarf og samlegðaráhrif milli félaga samstæðunnar var nánast engin. Með þessari ákvörðun tókst að auka virði seldra eininga umtalsvert og nemur söluandvirðið alls um 20 milljörðum króna. Þessir fjármunir skila sér beint til eigenda okkar sem eru að meirihluta íslenskir lífeyrissjóðir sem er ánægjulegt“, segir Herdís Dröfn Fjeldsted stjórnarformaður Icelandic Group og framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.

Salan á Seachill kemur í kjölfar sölu Icelandic Group á öðrum helstu dótturfélögum samstæðunnar. Á síðustu 18 mánuðum hefur Icelandic þannig gengið frá sölu á Gadus í Belgíu, Ný-Fiski í Sandgerði, Ibérica á Spáni og Icelandic í Asíu. Kaupendur að þeim síðarnefndu voru allt íslensk félög sem tengjast framleiðslu og sölu í sjávarútvegi með einum eða öðrum hætti. Eftir þessa sölu stendur eftir félagið Icelandic Trademark Holding, eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood, í eigu Icelandic Group. Icelandic Trademark Holding heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi. Fleiri samstarfsaðilar munu bætast í hópinn á komandi mánuðum en áhersla er lögð á að auka útflutning og efla hróður og ímynd hágæða íslenskra sjávarafurða og tengdra vara á alþjóðlegum vettvangi.

Framtakssjóður Íslands hefur greitt alls um 75 milljarða króna til hluthafa samanborið við innborgað hlutafé upp á 43 milljarða króna. Eftirstandandi fjárfestingar sjóðsins, þar með taldar peningalegar eignir, eru metnar á 15 milljarða króna. Ársávöxtun sjóðsins reiknuð til dagsins í dag nemur 23% á ári,

Nánari upplýsingar veitir Sara Lind Þrúðardóttir í síma 852 8804 eða í gegnum netfangið sara@icelandic.is

Um Seachill:

  • Seachill er umfangsmikill framleiðandi á kældum og frosnum sjávarafurðum sem og tilbúnum sjávarréttum til stórra smásölukeðja í Bretlandi. Seachill á einnig vörumerkið ‚The Saucy Fish Co.‘ sem hefur verið byggt upp á breska neytandamarkaðinum og í fleiri löndum.
  • Tekjur Seachill árið 2016 námu um 37 milljörðum króna og starfsmenn eru um 750 talsins. Félagið verður rekið sem sjálfstæð eining hjá Hilton eftir viðskiptin og munu stjórnendur Seachill og aðrir lykilstarfsmenn halda áfram störfum fyrir félagið.
  • Óverulegt magn af íslenskum fiski er selt í gegnum verksmiðjur Seachill eða einungis um 5% alls af heildarhráefni félagsins.

Um Icelandic Group:

  • Framtakssjóður Íslands (FSÍ) er eigandi að 100% hlutafjár í Icelandic Group. FSÍ er fjárfestingarsjóður í eigu fimmtán lífeyrissjóða, Landsbankans og VÍS.
  • Icelandic Group er eigandi vörumerkjanna „Icelandic“ og „Icelandic Seafood“ og heldur utan um markaðssetningu vörumerkjanna ásamt þjónustu gagnvart leyfishöfum og öðrum framleiðendum á Íslandi. Helstu samstarfsaðilar félagsins eru Solo Seafood og Highliner Foods sem selja hágæða sjávarafurðir undir vörumerkinu Icelandic Seafood. Afurðir seldar undir vörumerkinu Icelandic Seafood lúta ströngum gæðakröfum og gæðaeftirliti sem er grunnurinn að þeirri sterku stöðu sem vörumerkið hefur á mörkuðum.
  • Solo Seafood, eigandi Ibérica á Spáni, er einn helsti sölu- og dreifingaraðili á léttsöltuðum þorski frá Íslandi en Ibérica selur sjávarafurðir til meira en 4.000 viðskiptavina í fimm löndum í Suður-Evrópu.
  • Kanadíska fyrirtækið Highliner Foods, sem er eitt af stærstu fyrirtækjum í N-Ameríku í framleiðslu sjávarafurða er leyfishafi vörumerkisins og selur frosnar sjávarafurðir inn á hótel og veitingahús.

Um Hilton Food Group:

  • Hilton er leiðandi framleiðandi á kjötafurðum og er mikilvægur birgi alþjóðlegra smásöluverslana. Vörur frá Hilton eru seldar í stórverslunum 14 landa.
  • Félagið var stofnað 1994 í Huntingdon í Bretlandi og hefur síðan byggt upp sex úrvals kjötvinnslur í fleiri löndum Evrópu. Hjá félaginu starfa ríflega 2.800 manns.
  • Hlutabréf í Hilton eru skráð á aðallista Kauphallarinnar í London.

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall