Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka hefur úthlutað 17 milljónum til níu verkefna á árinu

10.11.2013

Fjögur fyrirtæki fengu styrki úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka að þessu sinni en þetta er í annað sinn á árinu sem veittir eru styrkir úr sjóðnum. Samtals hefur Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka úthlutað 17 milljónum til níu verkefna á árinu.

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka styrkir frumkvöðlaverkefni sem leggja áherslu á endurnýjanlega orku, sjálfbæran sjávarútveg og verndun hafsvæða. Stefna Íslandsbanka er að vera leiðandi á sviðum sjávarútvegs og endurnýjanlegrar orku og er Frumkvöðlasjóðurinn mikilvægur vettvangur til að styðja við nýsköpun í greinunum. Alls bárust sjóðnum 20 umsóknir og voru verkefnin fjölbreytt.

Frumkvöðlasjóður Íslandsbanka var stofnaður fyrir fimm árum en bankinn lagði til 10 milljónir króna í stofnfé sjóðsins. Einnig leggur bankinn 0,1% af vöxtum Vaxtasprota, sem er einn af sparnaðarreikningum bankans, inn á reikning Frumkvöðlasjóðsins. Staða sjóðsins er sterk og hefur honum vaxið fiskur um hrygg á þeim fimm árum sem liðin eru frá því hann var stofnaður.

Alls voru veittir fjórir styrkir og skipta styrkþegar átta milljónum á milli sín en þeir eru:

• Valorka ehf.

• Klappir ehf.

• Hugbúnaður til aðgreiningar síldarstofna, Lísa Anna Libungan og Snæbjörn Pálsson  

• Marsýn 

Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka:

„Frumkvöðlastyrkir eru nú veittir fjórum spennandi og metnaðarfullum verkefnum. Íslandsbanki hefur mikla og góða reynslu af því að vinna með fyrirtækjum sem starfa í sjávarútvegi og endurnýjanlegri orku og hefur byggt upp mikilvæga sérþekkingu á þeim sviðum. Með Frumkvöðlasjóðnum erum við að vinna að því að efla og þróa þessar greinar enn frekar. Ég óska styrkþegum úr Frumkvöðlasjóðnum til hamingju með styrkina og velfarnaðar í verkefnum sínum.“

Nánar um styrkþega úr Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka:

Valorka ehf.

Valorka ehf. vinnur að þróun hverfla til virkjunar lághraðastraums; t.d. sjávarfallsorku.  Sjóprófanir hverfilsins hófust nýlega og marka upphaf sjávarorkunýtingar á Íslandi, en sjávarorka er okkar stærsta og hreinasta orkuauðlind. 

Hverfill Valorku hefur sýnt góðan árangur í prófunum og hlotið alþjóðlega viðurkenningu.  Með honum skapast einstakt tækifæri til forystu á nýju sviði orkutækni þar sem markaður er fyrirsjáanlegur og tryggur.

Klappir ehf.

Áherslan í starfi Klappa er að þróa tæknilega lausn sem gerir eftirlitsaðilum kleift að mæla, fylgjast með og draga úr útblæstri skipa á tilgreindum svæðum og leiðum.  Mengun sjávar vegna alþjóðlegrar skipaumferðar er orðin að vandamáli.

Sýn stofnenda Klappa er að byggja upp alþjóðlegt hugverkafyrirtæki sem aðstoðar við að takast á við mengun sjávar með leiðandi tækni.

Hugbúnaður til aðgreiningar síldarstofna

Tilgangur verkefnisins er að hanna hugbúnað til aðgreiningar síldarstofna. Aðferðin byggir á tölfræðilegri myndgreiningu á útliti kvarna sem eru kalksteinar í innra eyra fiska. Þegar hefur verið sýnt fram á að þessi aðferðafræði er fær um að greina milli sjö mismunandi síldarstofna í Norðaustur-Atlantshafi.

Aðferðafræðin er nákvæmari en sú sem beitt er í dag og því mögulegt að fá áreiðanlegra stofnstærðarmat á þeim stofnum sem blandast á fæðuslóð.

Hugbúnaðurinn verður aðgengilegur öllum og hægt verður að útfæra hugbúnaðinn fyrir fleiri mikilvæga nytjastofna.

Marsýn ehf.

Marsýn ehf. er sprotafyrirtæki sem sérhæfir sig í að byggja líkön er lýsa flæði sjávar sem og öðrum þáttum svo sem:  hita, seltu, lagskiptingu, ölduhæð og útbreiðslu fiskstofna.

Þannig vinnur Marsýn að því að setja saman upplýsingakerfi fyrir alla sæfarendur sem byggir á þrívíddar straumalíkaninu CODE, en þróun þess hefur tekið átta ár. 

Sjá má fyrstu spár um ástand sjávar á vefnum www.marsyn.is en hann verður opnaður á næstu dögum.

Á myndinni eru: Hólmfríður Einarsdóttir, stjórnarmaður í Frumkvöðlasjóði Íslandsbanka, Sigurður Guðmundsson frá Marsýn, Steinunn H. Jónsdóttir og Þorsteinn Jónsson frá Klöppum ehf., Valdimar Össurarson, frá Valorku,  Lísa Anna Libungan og Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

Hér má sjá viðtöl við styrkhafana.

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall