Þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka.

15.10.2013

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, kynnti fyrir stundu nýja þjóðhagsspá á Fjármálaþingi Íslandsbanka sem nú stendur yfir. Spáð er 1,7% hagvexti hér á landi í ár. Þetta er aðeins yfir þeim 1,4% hagvexti sem mældist á síðasta ári. Er þetta einnig hraðari hagvöxtur en reiknað er með í helstu viðskiptalöndum Íslands, en þar er spáð að meðaltali 0,8% hagvexti í ár.

Spá Greiningar Íslandsbanka um hagvöxt í ár er nokkuð bjartari en sú sem var birt í júní síðastliðnum, en þá var gert ráð fyrir 1,2% hagvexti á þessu ári. Að hluta skýrist meiri vöxtur á þessu ári í nýrri spá Greiningar hins vegar af því að Hagstofan hefur í millitíðinni endurskoðað hagvöxt síðustu tveggja ári til lækkunar, eða sem nemur um 0,4% samanlagt. Landsframleiðslan á föstu verði er þannig ekki nema 0,1% hærri í ár í nýrri spá en hún var birt í júní.

Spá Greiningar Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hagvöxtur þessa árs verði að stórum hluta drifinn áfram af vexti útflutnings sem reiknað er með að aukist um 2,5% í ár.

Hægur vöxtur hefur verið í einkaneyslu undanfarið og reiknar Greining Íslandsbanka með að hún muni einungis aukast um 1,6% í ár. Sú aukning er að mestu drifin áfram af 1,5% vexti kaupmáttar launa en einnig því að staðan á vinnumarkaði hefur batnað og eignaverð hækkað.

Dregið hefur úr slaka í hagkerfinu
Dregið hefur talsvert úr slakanum í hagkerfinu sem myndaðist við hrunið 2008. Er það m.a. sýnilegt í tölum um atvinnuleysi, sem hefur minnkað umtalsvert frá því að það náði hámarki á árinu 2010. Þrátt fyrir hægan hagvöxt í ár reiknar Greining Íslandsbanka með því að áfram dragi úr framleiðsluslakanum í hagkerfinu. Spáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi verði 4,6% í ár samanborið við 5,8% á síðasta ári. Þá gerir spáin ráð fyrir því að verðbólga muni reynast nokkuð mikil og þrálát, að gengi krónu hækki aðeins frá síðasta ári og að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum út árið.

Greining Íslandsbanka reiknar með því að vöxtur í hagkerfinu glæðist þegar kemur fram á næsta ár. Spáum við 2,6% hagvexti 2014 og 2,7% vexti 2015.

Gangi spáin eftir verður landsframleiðslan 2015 á föstu verði komin rétt yfir það sem hún var 2008, þ.e. árið sem bankakerfið hrundi. Samkvæmt spánni tekur það hagkerfið því sjö ár að ná upp sama framleiðslustigi og var áður en banka- og gjaldeyriskreppan skall á 2008.

Einna mestur verður viðsnúningurinn í fjárfestingum atvinnuveganna sem snúast frá samdrætti í ár í umtalsverðan vöxt á næsta og þarnæsta ári. Samhliða mun fjárfestingarstigið í hagkerfinu hækka, en það hefur verið afar lágt undanfarið.

Þrálát verðbólga
Greining Íslandsbanka spáir því að verðbólga verði nokkuð þrálát, mælist 4,0% á næsta ári og 3,8% á árinu 2015. Reiknað er með því að Seðlabankinn muni bregðast við með hækkun stýrivaxta þegar kemur fram á næsta ár um samtals 0,5 prósentur. Greining Íslandsbanka spáir því að krónan veikist aðeins og að henni verði haldið innan gjaldeyrishaftanna á spátímabilinu, þó svo að einhverjar tilslakanir kunni að verða gerðar í þeim efnum. Kaupmáttur launa ætti að halda áfram að aukast og raunverð íbúðarhúsnæðis að þokast hægt upp á við líkt og verið hefur.

Fjárfesting vaxið síðustu tvö ár
Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu hefur verið í sögulegu lágmarki síðustu fjögur ár, eða frá hruni. Var þetta hlutfall 14,5% í fyrra, en sambærilegt hlutfall fyrir OECD-ríkin í heild hefur verið um 20% undanfarinn aldarfjórðung.

Fjárfesting hefur vaxið síðustu tvö ár. Vöxtur hefur verið í fjárfestingum atvinnuveganna og í fjárfestingum í íbúðarhúsnæði. Greining Íslandsbanka spáir að fjárfestingar í hagkerfinu dragist hins vegar saman í ár um 7,3%. Ástæðan liggur í samdrætti í fjárfestingum atvinnuveganna, sem Greining reiknar með að dragist saman um 14,1%. Þennan samdrátt má að miklu leyti rekja til þess að fjárfestingar í skipum og flugvélum voru talsverðar í fyrra, en slíkar fjárfestingar hafa ekki verið í sama mæli í ár. Fjárfesting atvinnuveganna, fyrir utan skip og flugvélar, hefur hins vegar verið að vaxa í ár og nam vöxturinn á fyrri helmingi árs 4,8%. Reiknar Greining Íslandsbanka með áframhaldandi vexti á þessum hluta fjárfestingar. Skýrir það að mestu þann 11,1% vöxt í fjárfestingu atvinnuveganna sem deildin spáir á næsta ári.

Greining Íslandsbanka spáir því að framkvæmdir í orkutengdum iðnaði fari á skrið á ný árið 2015 eftir nokkurt hlé, þegar ráðist verður í að ljúka byggingu álvers í Helguvík. Talsverður vöxtur verður því það árið í atvinnuvegafjárfestingunni, eða sem nemur 25,1%. Talsverð óvissa er um þessa framkvæmd. Segir Greiningin að hagvöxtur verður 2,4% á næsta ári og 2,3% árið 2015 ef ekki verður af Helguvík þ.e. samanlagt 0,6% minni hagvöxtur þessi tvö ár en reiknað er með í grunnspá deildarinnar.

Drifkraftur útflutningsvaxtar er ferðaþjónustan
Einn helsti drifkraftur í vexti í útflutningi um þessar mundir er ferðaþjónustan, og reiknar Greining Íslandsbanka með áframhaldandi vexti í þeirri grein út spátímann þó að heldur hægi á vextinum frá því sem verið hefur. Gert er ráð fyrir að útflutningur þjónustu vaxi um 4,8% í ár, 4,0% á næsta ári og 3,5% á árinu 2015. Auk vaxtar í ferðaþjónustu hefur verið ágætur vöxtur í útflutningi sjávarafurða samhliða auknum kvóta. Greining Íslandsbanka reiknar með að útflutningur sjávarafurða aukist í ár og á næstu árum í samræmi við úthlutaðan kvóta og áætlun Hafrannsóknarstofnunar um þróun helstu nytjastofna. Gert er ráð fyrir 6,1% vexti í útflutningi sjávarafurða á næsta ári og um 2,6% vexti árið 2015.

 

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall