Ný þjóðhagsspá Greiningar Íslandsbanka

05.06.2013
Greining Íslandsbanka hefur gefið út nýja þjóðhagsspá. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur hér á landi verði 1,2% á þessu ári. Þetta er hægur vöxtur í sögulegu samhengi, en meðalhagvöxtur hér á landi síðustu 30 árin er 2,5%. Þetta er þó ögn meiri hagvöxtur en sjá má að jafnaði í viðskiptalöndunum um þessar mundir, en þar er spáð 0,8% hagvexti að meðaltali í ár. Spá Greiningarinnar fyrir hagvöxt í ár er nokkuð lægri en spár annarra aðila sem birt hafa hagspár undanfarið og talsvert undir síðustu spá sem birtist síðastliðið haust. Frá þeim tíma hefur almennt dregið úr væntingum um hagvöxt á þessu ári. Reiknað er með að vöxturinn glæðist þegar kemur fram á næsta ár. Greiningin spáir 3,1% hagvexti 2014 og 2,7% hagvexti 2015. Verður vöxtur bæði árin rétt yfir langtímahagvexti og nokkuð yfir þeim hagvexti sem spáð er í helstu viðskiptalöndunum á næsta ári.

Hagur heimila vænkast
Greining spáir 1,8% vexti einkaneyslu í ár en að vöxturinn verði nokkuð hraðari á næstu tveimur árum, eða 2,6% árið 2014 og 2,4% árið 2015. Til grundvallar þessum vexti liggur spá Greiningar um vöxt kaupmáttar launa sem reiknað er með að aukist um 2,0% í ár, 2,5% á næsta ári og 2,0% á árinu 2015. Þá gerir Greiningin einnig ráð fyrir því að atvinnuástandið batni á spátímabilinu og að atvinnuleysið verði komið niður í 3,9% á árinu 2015. Spáð er hækkun á raunverði íbúðarhúsnæðis á næstu tveimur árum, þ.e. 1,9% á næsta ári og 1,7% á árinu 2015, en það mun einnig bæta fjárhag heimila. Óvissa er hins vegar enn um hvaða áhrif boðaðar aðgerðir stjórnvalda til að bæta stöðu heimilanna munu hafa þar sem þær hafa ekki verið útfærðar enn sem komið er.

Samdráttur í fjárfestingum í ár
Greining spáir því að fjárfesting atvinnuveganna dragist saman um 19,7% í ár. Á móti fellur hins vegar 18% aukning í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og 20% aukning í fjárfestingu hins opinbera. Á komandi misserum reiknar Greiningin með því að fjárfesting í orkutengdum iðnaði fari á fullt skrið að nýju eftir nokkurt hlé. Er það ein meginforsenda þess að Greining spáir 20,2% vexti í fjárfestingum atvinnuveganna á næsta ári og 10,6% vexti árið 2015. Auk þess reiknar hún með nokkuð hröðum vexti í fjárfestingum í íbúðarhúsnæðis, eða 22,0% á næsta ári og 15,0% á árinu 2015. Mun hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna, verðhækkun íbúðarhúsnæðis, skortur á nýju húsnæði ásamt hugsanlegri eftirgjöf á skuldum heimila ýta undir íbúðafjárfestingu.

Þá gerir Greiningin ráð fyrir að krónan muni veikjast og að verðbólgan verði nokkuð þrálát, 3,0% á næsta ári og 3,6% á árinu 2015. Spáð er að Seðlabankinn muni bregðast við því með frekari hækkun stýrivaxta þegar kemur fram á næsta ár.

Hér má nálgast spánna í heild sinni. 

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall