Íslandsbanki býður heppnum hlaupara á Ólympíuleikana
Íslandsbanki hefur ákveðið að draga út einn heppinn viðskiptavin sem hefur skráð sig í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og er að safna áheitum á hlaupastyrk.is. Viðskiptavinurinn hlýtur ferð fyrir tvo til Lundúna, gistingu og miða á landsleik Íslands og Túnis í handbolta á Ólympíuleikunum. Útdrátturinn fer fram 26. júlí næstkomandi.
Íslandsbanki er stoltur aðili að Ólympíufjölskyldunni og hefur um árabil verið traustur bakhjarl ÍSÍ. Þá hefur bankinn einnig styrkt Kára Stein Karlsson, maraþonhlaupara, í vegferð hans á Ólympíuleikana en hann er fyrsti íslenski karlmaðurinn sem keppir í þeirri grein á leikunum.
Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram laugardaginn 18. ágúst. Skráning í hlaupið er nú í fullum gangi og má nálgast allar upplýsingar á vef Íslandsbanka. Á síðasta ári var metþátttaka þegar rúmlega 12 þúsund innlendir sem og erlendir hlauparar tóku þátt. Þá söfnuðust rúmlega 43.6 milljónir króna til góðra málefna á hlaupastyrk.is.