Álit Íslandsbanka á frumvörpum um stjórn fiskveiða og veiðigjald

04.04.2012
  • Skerðingar á aflahlutdeild munu hafa veruleg áhrif á rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarútveginn í heild sinni
  • Líklegt er að fjárfestingar í sjávarútvegi muni dragast verulega saman
  • Breytingarnar munu hafa neikvæð áhrif á efnahag viðskiptabankanna þriggja

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram tvö frumvörp um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða annars vegar og á veiðigjaldi hins vegar. Íslandsbanki hefur gefið út álit á efni frumvarpanna þar sem meðal annars kemur fram að breytingarnar munu hafa veruleg áhrif á íslenskt efnahagslíf.

Áhrif frumvarpanna á sjávarútvegsfyrirtækin

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur gengið vel síðustu ár og arðsemi þeirra aukist jafnt og þétt þrátt fyrir hækkað olíuverð og samdrátt í aflaheimildum. Skerðingar á aflahlutdeild sem boðaðar eru munu hafa verulega áhrif á rekstrarafkomu sjávarútvegsfyrirtækja og þar af leiðandi sjávarútveginn í heild sinni.

Sérstaka veiðigjaldið verður til þess að lítill hagnaður verður eftir fyrir sjávarútvegsfyrirtækin. Þetta mun óneitanlega koma til með að veikja íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og jafnvel valda því að sum þeirra geti ekki staðið við skuldbindingar sínar sökum þess að ekki er tekið tillit til réttar skuldsetningar greinarinnar í útreikningi stofnsins. Við útreikning stofnsins er metin renta veiða og vinnslu saman og getur það verið áhyggjuefni að leggja veiðigjald á útgerð sem hlutfall af heildarrentu veiða og vinnslu. Með þessu er verið að gera ráð fyrir að engin renta verði til í fiskvinnslu. Fiskvinnslufyrirtæki geta skapað sér umframhagnað vegna annarra ástæðna en vegna takmörkunar sjávarauðlindarinnar meðal annars með vinnslu afla sem keyptur er af erlendum aðilum. Rekstur vinnslufyrirtækjanna er oft áhættumeiri en sjálfrar útgerðarinnar.

Sérstaka veiðigjaldið felur einnig í sér að íslenska ríkið tekur til sín stærsta hluta þess virðisauka sem verður til meðal annars við uppbyggingu vörumerkja og gæðastaðla, sérhæfingu og hagkvæmni í nýtingu á fiskafla. Slík uppbygging er kostnaðarsöm og því er hætta á að sá hluti starfseminnar færist frá sjávarútvegsfyrirtækjunum og flytjist jafnvel úr landi til að komast hjá því að virðisauki hennar verði notaður í stofn til útreiknings veiðigjalds.

Áhrif á viðskiptabanka og fjármögnunarleiðir fyrirtækja

Fyrirhugaðar breytingar hafa töluverð áhrif á starfsemi viðskiptabankana og þ.a.l. fjármögnunarleiðir sjávarútvegsfyrirtækja. Líklegt er að fjárfestingar í sjávarútvegi muni dragast saman nái frumvörpin fram að ganga. Erfitt verður fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að byggja upp eigið fé á sama tíma og fjárflæði dregst saman. Þetta veldur því að erfiðara er fyrir þau að fá ný lán og mun hamla nýliðun þar sem nýir aðilar munu þurfa að leggja fram mikið eigið fé eða eiga aðrar eignir til veðsetningar til að hefja rekstur. Þar sem fjárfestingageta fyrirtækjanna minnkar mun skipaflotinn eldast og framþróunin verða lítil sem engin. Með þessu er verið að veikja sjávarútvegsfyrirtækin og getu þeirra til að standa við núverandi og væntanlegar skuldbindingar gagnvart lánastofnunum.

Útlán til sjávarútvegsfyrirtækja vega misþungt í efnahagsreikningi stóru viðskiptabankanna þriggja. Sjávarútvegurinn er um 12% af útlánum Íslandsbanka, 23% hjá Landsbankanum og um 11% hjá Arion banka (bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar). Komið hefur fram hjá bönkunum að þessi útlánasöfn eru þeim mikilvæg og röskun á núverandi kerfi mun hafa verulega neikvæð áhrif á efnahag þeirra.

Áhrif frumvarpsins á íslenskt efnahagslíf

Flækjustig laganna, verði þau ekki einfölduð umtalsvert frá frumvörpunum, er ávísun á þjóðhagslega sóun sem hlýst af minni stærðarhagkvæmni í sjávarútvegi, kostnaði við að framfylgja lögunum jafnt hjá stjórnvöldum sem fyrirtækjum og viðleitni til að fara í kring um þau eða aðlaga rekstur að þeim án tillits til þess hvort slíkt sé skynsamlegt út frá hreinum hagkvæmnisjónarmiðum. Þá er aukin pólitísk aðkoma að úthlutun aflahlutdeilda skref til fortíðar.

Tekjur hins opinbera af veiðigjaldi og útleigu veiðiheimilda verða verulegar miðað við forsendur frumvarpsins. Gert er ráð fyrir 18-20 ma.kr. tekjum af veiðigjaldinu og ríflega 3 ma.kr. tekjum til ríkissjóðs, og öðru eins til sveitarfélaga, af leigu veiðiheimilda. Fjármálaráðuneytið áætlar að tekjuskattur sjávarútvegsfyrirtækja muni minnka um u.þ.b. 3 ma.kr. á ári ef síðustu þrjú ár eru lögð til grundvallar. Þar er ekki gert ráð fyrir áhrifum af breyttum lagaramma, sem er líklegur til að minnka framlegð sjávarútvegsfyrirtækja, og þar með skattstofninn, verulega. Óbein áhrif geta þessu til viðbótar orðið umtalsverð og rýrt tekjur hins opinbera enn frekar.

Áhrif á nærumhverfið

Það hefur sýnt sig í allmörgum sveitarfélögum á landsbyggðinni að öflug sjávarútvegsfyrirtæki eru ein forsenda blómlegrar byggðar og mannlífs. Góður rekstur fyrirtækjanna skapar mörg afleidd störf hjá þjónustufyrirtækjum útvegsins sem og styrkja rekstur sveitarsjóða. Sjávarútvegsfyrirtækin veita oft myndarleg framlög til samfélagsmála s.s. íþrótta- og æskulýðsstarf, góðgerðar-, heilbrigðis- og menningarmála. Það er því hætta á að áhrifin verði umtalsverð í mörgum sveitarfélögum á landsbyggðinni þar sem fyrirtækin hafa mun minna svigrúm til að taka þátt í samfélagslegum verkefnum. Fækkun starfa í sjávarútvegi og tengdum greinum getur rýrt lífsgæði umtalsvert með auknu atvinnuleysi þar sem mörg sveitarfélög hafa ekki möguleika á að bjóða upp á störf í öðrum greinum.

Nálgast má álit Íslandsbanka á vef bankans.

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall