Aðalfundur Íslandsbanka

27.03.2012 - Uppgjör

Aðalfundur Íslandsbanka var haldinn í dag. Engar breytingar voru gerðar á stjórn bankans. Friðrik Sophusson, formaður bankastjórnar Íslandsbanka, flutti skýrslu stjórnar. Í máli hans kom m.a. fram að stjórn Íslandsbanka hefði á liðnu starfsári hleypt af stokkunum verkefni í því skyni að styrkja stjórnarhætti bankans m.a. með því að kortleggja ákvarðanatökuferla innan hans. Markmiðið með verkefninu er að tryggja að fyrir hendi séu kerfi og ferlar sem lágmarka áhættu, styðja við góða stjórnarhætti og að stjórnkerfi bankans sé ávallt í samræmi við það sem best gerist.

Hann sagði að þrátt fyrir að aðstæður í íslensku atvinnulífi hafi batnað frá efnahagshruni stæðu íslensk fyrirtæki og stjórnvöld frammi fyrir afar mikilvægum viðfangsefnum. Afar brýnt væri að stjórnvöld mótuðu skýra og trúverðuga stefnu um afnám gjaldeyrishafta á næstunni. Hann hvatti stjórnvöld og Seðlabanka til að leita eftir víðtæku samstarfi við innlenda og erlenda aðila um að losa hagkerfið úr viðjum gjaldeyrishafta eins fljótt og unnt er.

Friðrik sagði einnig að óvissa vegna væntanlegra breytinga á rammaáætlun og á fiskveiðistjórnkerfinu hefði haft slæm áhrif á fjárfestingar fyrirtækja og lagði áherslu á að á að verulegar breytingar á fiskveiðikerfinu myndu draga úr arðsemi starfandi sjávarútvegsfyrirtækja og geta haft áhrif á verðmæti lánasafna íslenska bankakerfisins.

Friðrik fjallaði einnig um nýútkomna skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíðarfyrirkomulag fjármálakerfisins. Hann lýsti sig sammála þeirri þeim sjónarmiðum sem fram koma í skýrslunni um að ekki sé tímabært að velta fyrir sér aðskilnaði starfsemi fjárfestingabanka og viðskiptabanka hér á landi þar sem fjárfesting væri í lágmarki. Hann sagði mikilvægt að fylgjast vel með því sem næstu nágrannaþjóðir okkar gera í þessum efnum.

Þá benti Friðrik einnig á þau sjónarmið skýrsluhöfunda að ekki væri einboðið að efna til strangara eftirlits og reglukerfis í fjármálageiranum. Fremur ætti að beina sjónum manna að betri og samræmdari heildarhagstjórn og skýrum reglum um verkaskiptingu og ábyrgð. Góð yfirsýn væri lykilatriði sem og heilbrigð dómgreind og huglægt mat á aðstæðum.

Traustur efnahagsreikningur

Birna Einarsdóttir, bankastjóri, fór yfir rekstrar- og efnahagsreikning bankans og það helsta í starfi Íslandsbanka á liðnu ári. Árið 2011 var mikilvægt ár í starfsemi Íslandsbanka þar sem grunnur var lagður að framtíð bankans. Birna sagði hagnað af reglulegum rekstri Íslandsbanka á árinu hafa verið viðundandi og standist arðsemiskröfu eigenda bankans en arðsemi eiginfjár af reglulegri starfsemi var 11%. Afkoma Íslandsbanka á árinu 2011 var jákvæð um tæpa 1,9 milljarða króna. Óreglulegir rekstrarliðir settu mark sitt á reksturinn þetta árið og að teknu tilliti til þeirra nam arðsemin 1,5%. Virðisrýrnun viðskiptavildar nam 17.9 milljörðum króna. Þessi einskiptiskostnaður hefur áhrif á afkomuna en ekki á sjóðstreymi né lausafjárstöðu bankans. Áætlaður kostnaður vegna nýfallins gengislánadóms Hæstaréttar er 12,1 milljarður króna, en ljóst er að hann hefur veruleg áhrif á afkomu bankans. Birna sagði afar mikilvægt að þeirri óvissu sem enn ríkir um gengislánamálin verði eytt sem allra fyrst. Hreinn vaxtamunur nam 4,5% og innlánahlutfall var 86,5%. Kostnaðarhlutfall var 56%. Heildareignir bankans námu tæpum 796 milljörðum króna við árslok 2011 samanborið við rúma 683 milljarða við árslok 2010. Aukninguna má að mestu leyti rekja til kaupanna á Byr. Heildarskuldir námu 672 milljörðum króna við árslok 2011 samanborið við tæplega 562 milljarða við lok árs 2010. Aukningin sem er tæplega 20% er mestmegnis tilkomin vegna yfirtöku innlána Byrs. Eigið fé í lok árs var 123,7 milljarðar króna samanborið við 121,5 milljarða í árslok 2010. Eiginfjárhlutfall bankans er sterkt eða 22,6% og er því vel yfir því 16% lágmarki sem FME setur.

Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og heimila

Í máli Birnu kom fram að alls hafa um 17.600 einstaklingar og um 3.000 fyrirtæki hlotið einhverskonar niðurfærslu lána sem samtals nema 343 milljörðum króna hjá Íslandsbanka frá stofnun hans. Áhersla hafi verið lögð á að leysa úr málum viðskiptavina með það fyrir augum að þeir standi eftir sem góðir og ánægðir viðskiptavinir.

Sameining Íslandsbanka og Byrs

Birna sagði að sameining Íslandsbanka og Byrs hafi verið stór liður í hagræðingu fjármálakerfisins en við hana hafi orðið til eitt öflugasta fjármálafyrirtæki landsins. Sameiningin hafi gengið vel og hafi áþekk fyrirtækjamenning bankanna tveggja skipt þar miklu. Um 100.000 þúsund viðskiptavinir hafi heimsótt útibúin í kringum sameininguna og um 70.000 viðskiptavinir hringt í þjónustuverið. Birna sagði að bæði viðskiptavinir og starfsfólk hafa tekið breytingunum af jákvæðni en rúmlega 80% starfsmanna eru ánægðir með sameininguna og hvernig staðið var að henni.

Útgáfa sértryggðra skuldabréfa

Íslandsbanki varð fyrsti bankinn til að skrá skuldabréf í kauphöllina frá haustdögum 2008 og náði með því að marka tímamót í enduruppbyggingu íslensks fjármálamarkaðar. Tvær viðbótarútgáfur voru gefnar út á nýju ári. Mikil eftirspurn hefur verið eftir bréfunum sem hafa verið seld til breiðs hóps fagfjárfesta. Í máli Birnu kom fram að Íslandsbanki undirbýr ennfremur skuldabréfaútgáfu á erlendri grundu.

Hér má nálgast ræður Birnu Einarsdóttur, bankastjóra, og Friðriks Sophussonar, formann stjórnar, sem og ársskýrslu Íslandsbanka og áhættuskýrslu.

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall