Ný skýrsla Íslandsbanka um sjávarútveg á Íslandi

09.06.2010

Íslandsbanki hefur gefið út nýja skýrslu um sjávarútveg á Íslandi. Í skýrslunni er meðal annars fjallað, í máli og myndum, um helstu hagstærðir, þýðingu sjávarútvegs fyrir efnahag landsins, rekstrarárangur og efnahagslegan styrk fyrirtækja í greininni. Þá er fjallað um viðhorf bankans til fyrningarleiðarinnar.

Fram kemur m.a. að árið 2009 námu verðmæti útflutnings á sjávarafurðum um 42% af heildarútflutningsverðmætum landsins. Bráðabirgðatölur sýna að um 10% af vergri landsframleiðslu Íslands eiga rætur að rekja til sjávarútvegs. Innan greinarinnar starfa 7.300 manns eða sem nemur um 4% vinnuafls þjóðarinnar. Evrópa er langmikilvægasta markaðssvæðið en um 82% af útflutningi sjávarafurða í fyrra fóru til Evrópulanda. Af einstökum löndum er Bretland það mikilvægasta.

Lágt gengi krónu og fremur hátt afurðaverð hafa reynst jákvæðir drifkraftar í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á nýliðnum misserum. Árin 2008 og 2009 voru með þeim allra bestu hvað varðar EBITDA framlegð eða yfir 25%. EBITDA framlegð hefur raunar aukist jafnt og þétt síðustu áratugi. Á sama tíma hefur þorskafli, mikilvægasti fiskstofninn, dregist verulega saman, úr 430 þús. tonnum árið 1980 í 151 þús. tonn árið 2008. Það er því ljóst að hagræðing í greininni hefur verið mikil á tímabilinu.

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja hafa aukist síðustu ár að mestu í takti við aðrar atvinnugreinar (að fjármálastarfsemi undanskilinni). Nettó skuldir námu um 465 milljörðum króna í lok árs 2008 sem er mikið. Stærsti hluti skulda er tilkominn vegna fjárfestinga fyrirtækja í aflaheimildum; við bein kaup þeirra eða vegna samruna fyrirtækja. Veiking krónunnar hefur einnig haft mikil áhrif. Að mati Íslandsbanka, eftir greiningu á stöðu 50 stærstu fyrirtækjanna, hafa handhafar um 64% aflaheimilda forsendur til að standast skuldbindingar sínar.

Boðuð fyrningarleið í sjávarútvegi mun hafa þungbær áhrif á greinina. Hún hefði neikvæð áhrif á verðmæti aflaheimilda og þar af leiðandi á efnahag fyrirtækjanna. Fyrning hefði jafnframt áhrif á rekstur þeirra þar sem gert er ráð fyrir að fyrirtækin leigi aflaheimildir aftur gegn gjaldi. Ljóst er að lán til sjávarútvegs vega þungt í efnahagsreikningum hinna endurreistu banka.

Íslenskur sjávarútvegur á í harðri samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum fyrir sjávarafurðir þar sem gæði vörunnar, afhendingaröryggi og þjónusta skipta höfuðmáli. Hagsmunir Íslendinga eru miklir og mikilvægt er að fiskistofnarnir í kringum landið skili þjóðarbúinu sem mestum arði með sjálfbærum hætti. Í því ljósi þarf að ná sátt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar sem allra fyrst. Við núverandi stöðu fer dýrmæt orka og tími til spillis sem betur væri nýttur við að finna leiðir til að hámarka verðmætasköpun úr þeim fiskistofnum sem eru fyrir hendi og efla samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja á erlendum vettvangi.

 

Nýjustu fréttir

Eignarhlutur í Borgun í formlegt söluferli

11.01.2019
Stjórn Íslandsbanka hefur tekið ákvörðun um að setja eignarhlut bankans í Borgun í formlegt söluferli.Nánar

Nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár

07.01.2019
Seðlabanki Íslands hefur gefið út nýjar reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár og taka reglurnar gildi þann 1. nóvember næstkomandi. Nánar

Afgreiðslutími yfir jól og áramót

20.12.2018
Útibú Íslandsbanka verða lokuð á aðfangadag,jóladag, annan í jólum og nýársdag.Nánar

Breytingar á verðskrá Íslandsbanka

17.12.2018
Breytingar á verðskrá Íslandsbanka taka gildi þann 17.desember 2018.Nánar

Breyting á Heiðursmerki

11.12.2018
Í febrúar munu vaxtakjör Heiðursmerkis breytast.Nánar

Íslandssjóðir fjárfesta í grænum skuldabréfum Reykjavíkurborgar

07.12.2018
Reykjavíkurborg hefur gefið út grænt skuldabréf til 30 ára fyrir 4,1 milljarð að nafnverði og þannig tekið mikilvægt skref í uppbyggingu markaðar með...Nánar

Ný skýrsla Íslandsbanka um íslenskan sjávarútveg

04.12.2018
Ísland situr í 17. sæti meðal stærstu fiskveiðiþjóða heims með um 1,3% hlutdeild og er reiknað með 15% aukningu útflutningsverðmætis árið 2018 og...Nánar
Netspjall