Bergþóra Baldursdóttir
Sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka
4. júlí 2018

Grill á 20% afslætti

Árið 1998 var heimsmeistaramótið í fótbolta haldið í Frakklandi og heimamenn unnu eftirminnilegan sigur á Brasilíu í úrslitaleiknum 3-0. Ekki er möguleiki að þessi lið muni mætast í úrslitaleik á HM í Rússlandi í ár en svo gæti farið að þau mættust í undanúrslitum þann 10. júlí næstkomandi. En hvað sem gerist verður leikið til úrslita þann 15. júlí og þá verður grillað enda komin sól.

Hvað kostar grillveislan?

Talandi um grill, það er áhugavert að bera saman hvað það kostaði að halda grillveislu yfir HM í Frakklandi árið 1998 og nú 20 árum síðar þegar HM í Rússlandi stendur yfir. En hvað kostar grillveisla, og hvað kostaði hún fyrir 20 árum? Til að bera saman verð með 20 ára millibili verður að taka tillit til verðbólgu og eru verðin því reiknuð m.v. vísitölu neysluverðs 2018.

Ef halda á grillveislu með úrval af kjöti, pylsum fyrir börnin ásamt gosi og bjór kemur í ljós að það var rúmlega 20% dýrara að halda grillveislu árið 1998 en nú tveimur áratugum síðar. Að halda slíka grillveislu árið 1998 kostaði 11.985 kr. á verðlagi ársins 2018. Sams konar veisla kostar hins vegar tæpar 9.500 kr. í dag.

Þegar vörurnar eru skoðaðar betur kemur í ljós að allar vörurnar fyrir grillveisluna voru dýrari árið 1998. Mesti munurinn var á svínakótelettum og 2 lítra flösku af Coca-Cola. En árið 1998 kostaði kíló af svínakótelettum helmingi meira en í dag og 2 lítra Coke sömuleiðis.

Minni munur er á öðrum vörum sem við bárum saman, sem dæmi má nefna að stór dós af Egils Gulli og hálft kíló af pylsum eru um fjórðungi ódýrari í dag. 

Þetta er þó aðeins til gamans gert, taka verður tillit til þess að aðeins er um samanburð á sambærilegum vörum að ræða og einnig að verðsöfnun árið 2018 var í einni verslun.

Hvort sem úrslitaleikurinn verður jafn frábær núna og árið 1998 verður að koma í ljós en grillveislan er allavega ódýrari, skapar jafnvel rými fyrir aðeins meira af öllu.

952fb5f3-32c8-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall