Elvar Orri Hreinsson
Sérfræðingur í Greiningu
13. desember 2017

Verulega hægir á fjölgun ferðamanna til Íslands

Ferðamönnum fjölgaði um 25% á fyrstu 11 mánuðum ársins. Á síðasta ári fjölgaði ferðamönnum hins vegar um 38% á sama tíma. Fjölgun ferðamanna á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs nam 56% sem var um 21 prósentustigi hraðari vöxtur en á sama tímabili árið 2016 og hófst því ferðamannaárið 2017 því með látum. Síðan í maí á þessu ári hefur hinsvegar hægt verulega á fjölgun ferðamanna. Ferðamönnum fjölgaði um 16% á tímabilinu maí-nóvember á þessu ári. Það er 23 prósentustigum hægari fjölgun en á sama tímabili árið 2016. Virðist sem hápunktinum sé náð varðandi framlag vaxtar ferðaþjónustunnar til hagvaxtar sem minnkar jafnt og þétt eftir því sem dregur úr fjölgun ferðamanna hingað til lands. Athygli vekur að þjónustuútflutningur jókst ekkert á þriðja fjórðungi þessa árs frá sama tíma í fyrra miðað við tölur Hagstofunnar, þrátt fyrir metsumar hvað varðar fjölda ferðamanna líkt og fram kemur í nýlegu korni okkar. Bendir það til minni verðmætasköpunar á hvern ferðamann um þessar mundir.

Brexit og gengislækkun pundsins hefur mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu

Hægt hefur á fjölgun ferðamanna frá flest öllum þjóðum en hægari fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum og Bretlandi vegur þyngst í þessari þróun, enda koma rúmlega 4 af hverjum 10 ferðamönnum sem hingað ferðast þaðan. Einnig hefur hægt talsvert á fjölgun ferðamanna hingað til lands frá Kanada.

Bretar skera sig úr sem ferðamenn til landsins með þeim hætti að flestir þeirra ferðast hingað á kaldari mánuðum ársins. Japanir hafa svo sambærilega ferðatilhögun. Þannig draga ferðamenn áðurgreindra þjóða úr árstíðarsveiflu í greininni og jafna rekstrargrundvöll ferðaþjónustufyrirtækja að einhverju leyti yfir allt árið. Bretum hefur ekki fjölgað jafn hægt frá því að uppgangur ferðaþjónustunnar hófst eftir árið 2010 en það sem af er ári hefur þeim fjölgað um 2%. Þá hefur Bretum fækkað milli ára alla mánuði frá því í apríl. Skertur kaupmáttur Breta á erlendri grundu vegna gengisfalls pundsins hefur eflaust haft talsverð áhrif á þessa þróun.

Bandarískir ferðamenn hafa sífellt meiri áhrif á íslenska ferðaþjónustu

Þó að hægi á fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum hefur þeim engu að síður fjölgað um 41% á fyrstu 11 mánuðum ársins. Er því ennþá hröð fjölgun bandarískra ferðamanna hingað til lands. Mikilvægi bandarískra ferðamanna hefur aukist umtalsvert á síðastliðnum árum og eru nú um 27% allra ferðamanna sem hingað koma frá Bandaríkjunum. Á sama tíma hefur hlutfall Breta lækkað að undanförnu. Fyrir vikið er íslensk ferðaþjónusta viðkvæmari fyrir áföllum í ferðatilhögun bandarískra ferðamanna. Í þessu samhengi er æskilegt að ferðaþjónustan byggi á fjölbreyttum grunni þannig að áfall í efnahag ákveðinnar þjóðar hafi ekki of veigamikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu og íslenska hagkerfið í heild.

aa36b9af-dd3a-11e4-8219-005056b00087
Netspjall