Bergþóra Baldursdóttir
Sérfræðingur í Greiningu Íslandsbanka
29. nóvember 2017

Væntingar neytenda standa í stað

Væntingavísitala Gallup var birt í gærmorgun. Litlar breytingar er á væntingavísitölunni frá fyrri mánuði en breytingin milli mánaða var -1,2 stig og stendur vísitalan nú í 124 stigum. Endurspeglar það almenna bjartsýni meðal neytenda þar sem gildið er talsvert umfram þau 100 stig sem marka jafnvægið milli bjartsýni og svartsýni.

Flestar undirvísitölur lækka

Athygli vekur á því að þrátt fyrir litlar breytingar á vísitölunni lækka allar undirvísitölur nema ein. Sú undirvísitala sem hækkar er mat á efnahagslífinu (10,4) og stendur í 127,6 stigum. Undirvísitalan sem lækkar mest er mat á atvinnuástandi (-8,4) en stendur þó í 123,1 stigi. Eins lækka vísitölurnar sem eiga að endurspegla mat neytenda á núverandi stöðu (-0,8) og væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði (-1,6). Sú fyrrnefnda mælist 164 stig, sem þó telst hátt sögulega séð, og sú síðarnefnda 97,3 stig sem er lægst allra undirvísitalnanna. Er hún jafnframt eina undirvísitalan sem er undir 100 stiga jafnvægisgildinu.

Áfram þróttur í einkaneysluvexti?

Athyglisvert er að skoða væntingavísitöluna í samanburði við einkaneyslu því þróun þessara stærða helst oft í hendur. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs benti væntingavísitalan til þess að töluvert gæti hægt á vexti einkaneyslunnar á komandi fjórðungum þar sem vísitalan lækkaði töluvert. Það sem af er fjórða ársfjórðungi benda væntingar hins vegar til hins gagnstæða, væntingavísitalan hefur hækkað og því má ætla að einkaneyslan muni halda áfram að vaxa af nokkrum þrótti.

Kynin meta stöðuna ólíkt

Þegar væntingavísitalan er skoðuð út frá kyni svarenda má glögglega sjá að kynin meta stöðuna á ólíkan hátt. Konur eru talsvert svartsýnni en karlar og þannig hefur staðan verið frá því farið var að mæla vísitöluna fyrir sextán árum síðan. Munurinn fer þó eftir stöðu hagsveiflunnar, þar sem hann er töluvert meiri í uppsveiflu en í niðursveiflu. Í nóvember lækkuðu karlar (-4,6) og mældust með 129 stig á meðan konur hækkuðu (1,1) og mældust með 117,3 stig og er því munurinn milli kynjanna í þessum mánuði 11,7 stig.

Elsti aldurshópurinn svartsýnastur

Áhugavert er að skoða væntingavísitöluna eftir aldurshópum. Aldurshópurinn 18-24 ára er bjartsýnastur á meðan elsti hópurinn, 55-80 ára er svartsýnastur. Hins vegar lækkaði væntingavísitalan hjá tveimur yngstu hópunum talsvert í nóvember á meðan hún hækkaði hjá öðrum hópum. Vísitalan lækkaði mest hjá 18-24 ára (-9,7) og stendur í 136,5 stigum en hækkaði mest hjá elsta hópnum (5,4) og stendur í 110,2 stigum. Það lítur því út fyrir að væntingar bjartsýnustu og svartsýnustu aldurshópanna séu að færast nær öðrum aldurshópum.

952fb5f3-32c8-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall