Jón Bjarki Bentsson
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka
22. nóvember 2017

Erum við að eyða meiru en við öflum?

Dregið hefur úr vexti kaupmáttar launa í ár miðað við síðasta ár, en einkaneysla heldur áfram að vaxa hratt. Útlit er fyrir að einkaneysluvöxturinn verði mun meiri í ár en vöxtur kaupmáttar stendur undir, og því lítur út fyrir að heimilin séu mörg hver að byrja að ganga á sparnað eftir ráðdeild í þeim efnum á síðustu árum.

Kaupmáttur launa sýnir hversu mikið laun hækka umfram verðbólgu. Vöxtur kaupmáttar milli ára var í október hægari en hann hefur verið frá því í apríl síðastliðnum. Vöxturinn er þó enn býsna myndarlegur í alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Má þar nefna að undanfarinn aldarfjórðung hefur ársvöxtur kaupmáttar launa að meðaltali verið 2,2%.

Það sem af er þessu ári hefur einkaneysla vaxið talsvert hraðar en hægt er að skýra með launahækkunum, jafnvel þótt tillit sé tekið til fólksfjölgunar, sem ætti að auka einkaneysluna enn hraðar. Er þetta viðsnúningur frá því sem við höfum séð á undanförnum árum, þar sem einkaneysla á mann hefur vaxið öllu hægar en kaupmáttur launa og sparnaður þar með aukist.

Kortaveltutölur fyrir 3. ársfjórðung benda til þess að síst hafi dregið úr einkaneysluvextinum á þeim fjórðungi frá fyrri helmingi ársins, þegar einkaneysluvöxturinn nam 9,5%. Þá óx kortavelta að raunvirði um tæplega 14% í október og er því ekkert lát á einkaneysluvextinum það sem af er síðasta fjórðungi ársins. Í þjóðhagsspá okkar í september síðastliðnum spáðum við því að einkaneysla myndi vaxa um 8% á yfirstandandi ári. Nýjustu tölur benda til að vöxturinn gæti jafnvel orðið enn meiri.

952fb5f3-32c8-11e4-bde2-005056b00087
Netspjall