Elvar Orri Hreinsson
Sérfræðingur í Greiningu
8. september 2017

Hægir á fjölgun ferðamanna til Íslands

Ferðamönnum fjölgaði um 30% á fyrstu 8 mánuðum ársins. Á síðasta ári fjölgaði ferðamönnum um 33% á sama tíma. Hægari fjölgun ferðamanna frá Bandaríkjunum og Bretlandi vegur þyngst í þessari þróun enda koma um 4 af hverjum 10 ferðamönnum sem hingað ferðast frá þessum löndum. Einnig hefur hægt talsvert á fjölgun ferðamanna hingað til lands frá Kanada.

....en bara yfir sumartímann

Jákvætt þykir að árstíðasveifla í ferðaþjónustu hefur verið að minnka undanfarin ár enda hefur ferðamönnum hlutfallslega fjölgað hraðar á kaldari mánuðum ársins en á háannatíma á sumrin. Ferðamönnum hefur aldrei fjölgað eins hratt á fyrstu fjórum mánuðum ársins eins og á þessu ári. Hægari fjölgun ferðamanna um þessar mundir er því alfarið bundið við sumarmánuði þessa árs. Það sem af er ári hefur því dregið enn frekar úr árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu. Áhugavert verður að fylgjast með komandi mánuðum, en líkt og greint hefur verið frá eru ýmsar blikur á lofti ef marka má nýlega tölfræði í tengslum við íslenska ferðaþjónustu.

Bretar ekki seldir á íslenska sumarið

Bretar skera sig úr sem ferðamenn til landsins með þeim hætti að flestir þeirra ferðast hingað á kaldari mánuðum ársins. Um þrír af hverjum fjórum Bretum sem hingað hafa komið á árinu gerðu það á fyrstu fjórum mánuðum ársins eða 72%. Japanir hafa svo sambærilega ferðatilhögun. Þannig draga ferðamenn áðurgreindra þjóða úr árstíðarsveiflu í greininni og jafna rekstrargrundvöll ferðaþjónustufyrirtækja að einhverju leyti yfir allt árið. Báðar þessar þjóðir virðist vera að færast enn lengra í þessa átt. Bretum fjölgaði um 16% á fyrstu 4 mánuðum ársins en fækkaði svo um 14% yfir sumarið (maí-ágúst) frá sama tíma í fyrra. Japönum fjölgaði um 26% á fyrstu 4 mánuðum ársins en einungis um 3% yfir sumarið.

Netspjall