Elvar Orri Hreinsson
Sérfræðingur í Greiningu
31. ágúst 2017

Hótelmarkaðurinn á Suðurnesjum og á Suðurlandi vex hraðast

Hægir á fjölgun seldra gistinátta á hótelum

Gistinóttum á hótelum landsins fjölgaði um 15% fyrstu sjö mánuði ársins en á sama tíma í fyrra hafði þeim fjölgað um 30%. Ferðamönnum á Íslandi fjölgaði tvöfalt hraðar á sama tíma eða um rúmlega 31%. Bendir það til skemmri dvalartíma og/eða aukinnar ásóknar ferðamanna í annars konar gistiþjónustu.

Hótelmarkaðurinn á Suðurnesjum og Suðurlandi vex hraðast

Vöxturinn fyrstu sjö mánuði ársins er drifinn áfram af hótelum á Suðurnesjum, en þar seldust 77% fleiri gistinætur fyrstu 7 mánuði þessa árs en á sama tímabili árið 2016, og á Suðurlandi en þar var aukningin um 29% á sama tímabili. Benda þessar tölur til þess að það sé talsverður uppgangur á hótelmarkaðnum á Suðurnesjum um þessar mundir. Vöxturinn á Suðurlandi eru svo sambærilegur þeim sem verið hefur að meðaltali undanfarin 5 ár.

Hægir talsvert á fjölgun gistinátta á höfuðborgarsvæðinu

Rúmlega 60% allra gistinátta voru seldar á höfuðborgarsvæðinu á síðustu 12 mánuðum. Gistinóttum þar fjölgaði um 10% á fyrstu sjö mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra hafði þeim fjölgað um 30%. Skýrist það m.a. vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu hefur framboð hótelherbergja ekki tekist að anna eftirspurn og nýting hótela á því svæði verið í hæstu hæðum allt árið um kring. Einnig kann þetta að vera vísbending um að ferðamenn séu að dvelja skemur og/eða að þeir séu að nýta sér annars konar gistiþjónustu en hótel á svæðinu.

Önnur landsvæði vaxa ýmist enn hægar eða eru að glíma við samdrátt

Á Norðurlandi, á Vesturlandi og Vestfjörðum hefur seldum gistinóttum fjölgað um rúm 4% á fyrstu sjö mánuðum ársins borið saman við sama tímabil árið áður. Á Austurlandi er svo samdráttur í seldum gistinóttum á sama tímabili sem nemur tæplega 1%. Bendir þetta til þess að hótelmarkaðurinn á áðurgreindum svæðum eigi undir högg að sækja.

Ferðamönnum frá Asíu og Bandaríkjunum fjölgar mest á hótelum landsins

Mesta hlutfallslega fjölgun í seldum gistinóttum á fyrstu sjö mánuðum ársins á sér stað hjá ferðamönnum frá Kína og öðrum Asíulöndum og þar á eftir frá Bandaríkjunum. Fjölgun seldra gistinótta á hótelum til Kínverja er talsvert umfram fjölgun þeirra til landsins. Getur það gefið til kynna að þeir séu í auknum mæli að nýta sér hótel umfram aðra gistikosti og/eða að þeir séu að dvelja lengur. Þróunin er því önnur hjá þessum hópi en flestum öðrum.

Verulega hægir á fjölgun seldra gistinótta til þjóða sem vega þungt í íslenskri ferðaþjónustu

Ferðamenn frá Bretlandi eru þeir næst fjölmennustu á eftir Bandaríkjamönnum sem hingað ferðast og hefur hægt verulega á komum þeirra til landsins og kemur það skýrt í ljós í seldum gistinóttum til þeirra. Einnig er athyglisvert að sjá að verulega hægir á fjölgun seldra gistinótta til franskra og kanadískra ferðamanna. Þá dragast seldar gistinætur til þýskra ferðamanna saman. Þetta er ekki í samræmi við fjölgun ferðamanna frá áðurgreindum löndum til landsins. Má því ætla að franskir, kanadískir og þýskir ferðamenn séu ýmist að dvelja skemur og/eða velja aðra gistiþjónustu en hótel.

 
Netspjall