Björn Berg Gunnarsson
Fræðslustjóri
13. júlí 2017

Áhugaverður hagnaður Amazon

Í þessari grein:

  • Tekjur Amazon hafa vaxið árlega um 20% eða meira allan síðasta áratug
  • Upp á síðkastið hefur hagnaður félagsins verið borinn uppi af Amazon Web Services

Hvernig ætli sé best að skilgreina Amazon? Sem smásala á netinu? Að þeir bjóði skýjalausnir fyrir aðra smásöluaðila? Er þetta tæknifyrirtæki í samkeppni við Apple og Google, stærsta bókabúð í heimi eða sjónvarpsstöð? Jeff Bezos og félagar hjá Amazon halda skilgreiningunni ansi opinni þar sem hinn ævintýralegi vöxtur fyrirtækisins hefur verið í allar áttir undanfarin ár.

Áhersla á vöxt

Þrátt fyrir gríðarlega stærð (einungis þrjú verðmætari fyrirtæki eru skráð á markað; Apple, Google og Microsoft) virðist sem enn sé fyrst og fremst lögð áhersla á vöxt fremur en hámörkun hagnaðar og má þar sem dæmi benda á afar áhugaverð kaup á Whole Foods um daginn fyrir um 1.500 milljarða króna og umfangsmikla þróun á vörum á borð við Echo, Kindle og Fire. Sá hluti starfseminnar sem vaxið hefur hvað hraðast er þó ekki eins áberandi, en það eru skýjalausnir fyrir smásala. Dóttur félagið Amazon Web Services (AWS) skilar nú um 10% tekna fyrirtækisins og á síðasta ársfjórðungi mátti rekja 89% hagnaðar fyrirtækisins til slíkrar þjónustu. Tekjuvöxtur AWS hefur verið hreint magnaður eins og sést á meðfylgjandi grafi og hagnaðurinn ljómandi góður.

Startup?

Það er sennilega fullmikið að kalla Amazon startup fyrirtæki þegar það er 52.000 milljarða króna virði en að ákveðnu leiti lítur það þannig út. Félagið hefur aldrei greitt út arð til hluthafa, heldur nýtir hagnað til vaxtar. Tekjuvöxtur Amazon hefur verið yfir 20% allan síðasta áratug og nýsköpun er afar umfangsmikil.

27. júlí verður uppgjör 2. ársfjórðungs birt. Þá verður áhugavert að sjá umfang og áhrif kaupanna á Whole foods og hvort AWS haldi áfram að mala gull. En hvað segir Jeff Bezos, forstjóri Amazon um framtíðina? Hér má sjá áhugavert viðtal við kappann.

 

Netspjall