Björn Berg Gunnarsson
Fræðslustjóri
3. júlí 2017

Svona er staða reiðufjár á Íslandi

Það hefur varla farið fram hjá neinum að fjármálaráðherra viðraði þá hugmynd á dögunum að 10.000 kr. og 5.000 kr. seðlar yrðu teknir úr umferð hér á landi. Viðtökurnar voru misjafnar en umræðan gefur okkur þó tilefni til að ræða um og skoða hlutverk reiðufjár í hagkerfinu. Seðlabanki Íslands tekur reglulega saman áhugaverðar upplýsingar um fjárhagslega hegðun landsmanna. Lítum á það helsta.

Notkun reiðufjár virðist vera að aukast

Samkvæmt nýútgefnum Fjármálainnviðum Seðlabankans hefur notkun reiðufjár og annarra greiðsluleiða en greiðslukorta aukist úr 9% í 29% þegar litið er á svokölluð staðgreiðsluviðskipti. Er þar átt við alla liði í einkaneyslu heimila að frádreginni húsaleigu, menntun, fjármálaþjónustu, rafmagni og hita, símaþjónustu, tryggingum og kaupum á ökurtækjum. 

Erum á svipuðum slóðum og Norðurlöndin

Sé litið á reiðufé í umferð sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru Norðurlöndin, þar með talið Ísland, í neðri hlutanum. Þrátt fyrir að þetta hlutfall hafi hækkað hér á landi úr 1% á árunum 1983-2007 upp í 2,2% í dag er það enn um fimmfalt hærra á Evrusvæðinu.

Almenn notkun reiðufjár er mjög misjöfn eftir landsvæðum. Notkun rafrænna greiðsluleiða er í nokkuð góðu sambandi við velmegun í viðkomandi ríkjum og hafa slíkar leiðir ekki enn náð fótfestu á gríðarstórum mörkuðum í Afríku og Asíu.

Ferðamenn og svört atvinnustarfsemi?

Flestir ferðamenn sem sækja okkur heim koma frá löndum þar sem notkun reiðufjár er tiltölulega lítil. Notkun þeirra á hraðbönkum hefur þó aukist gríðarlega eins og sjá má á meðfylgjandi grafi.

Sennilega má rekja einhvern hluta aukningar í notkun reiðufjár til aukinnar ferðamennsku en þegar litið er til þeirra mynta sem notaðar eru vekur athygli hversu stórt hlutverk 10.000 kr. og 5.000 kr. seðlar leika. Nefnd fjármálaráðherra taldi þetta vitnisburð um skattsvik og að með því að taka þessa stærstu seðla úr umferð mætti hafa hemil á slíkri starfsemi.

Tækninýjungar og aukin netverslun geta vel orðið til þess að framtíðin verði seðla- og klinklaus. Miðað við nýjustu tölur er þó augljóslega einhver bið í það.

Netspjall