Björn Berg Gunnarsson
Fræðslustjóri
27. júní 2017

FIFA bullandi rangstæðir

Umfang heimsmeistaramótsins í fótbolta fer sífellt vaxandi. Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA hirðir tekjurnar að mestu og gestgjafarnir standa straum af megni kostnaðarins. Sambandinu hefur því tekist að safna digrum sjóðum þrátt fyrir ákaflega dýran rekstur, svo ekki sé meira sagt.

Aðildarsamböndin eiga heimtingu á þessu fé FIFA. Sé því illa varið bitnar það á knattspyrnunni heima fyrir og því ætti okkur ekki að vera sama um þá sviðnu jörð sem Sepp Blatter og félagar skilja eftir.

Lítum á nokkur áhugaverð atriði.

Katar og Rússland

Árið 2014 skilaði þáverandi formaður rannsóknarsviðs siðanefndar FIFA, Michael Garcia, ítarlegri skýrslu um aðdraganda þess að Rússlandi og Katar var falið að halda heimsmeistaramótin 2018 og 2022. Skrif Garcia voru ekki gerð opinber, einungis stutt og breytt útgáfa frá FIFA þar sem sambandið var hreinsað af öllum ásökunum. Garcia sagði starfi sínu lausu í kjölfarið.

Þýska blaðið Bild hefur skýrsluna nú undir höndum og mun birta það helsta úr henni í dag og næstu daga. Meðal annars mun þar vera að finna dæmi um umfangsmiklar mútugreiðslur.

Óhóflegar greiðslur

Bandarísk yfirvöld áætla að umfang mútugreiðslna í tengslum við FIFA nemi að lágmarki 20 milljörðum króna. Dómsmálaráðherra Sviss heldur því þar að auki fram að Blatter hafi ekki haft tilefni til að greiða Michel Platini, formanni UEFA, yfir 200 milljónir króna í starfslokagreiðslu og bæta yfir 100 milljónum við lífeyrisréttindi hans.

Kaupaukagreiðslur til Sepp Blatter og fleiri starfsmanna FIFA eru til rannsóknar, en auk umtalsverðra launagreiðslna fékk hann milljarða króna kaupaukagreiðslur, þar af um 4 milljarða sem nú eru til rannsóknar. Aðrar 4 milljarða króna greiðslur til Jerome Valcke, fyrrum aðalritara FIFA, eru undir smásjánni en hann fékk auk þess tæplega 2 milljarða í starfslokagreiðslu.

Til að bæta gráu ofan á svart er lögfræðikostnaður sambandsins vegna rannsókna á spillingu áætlaður um 10 milljarðar króna á árunum 2015-2018.

FIFA safnið sem enginn sækir heim

Gott dæmi um vitleysuna sem viðgekkst í stjórnartíð Sepp Blatter er World football safnið og hótel þar við hlið. Núverandi stjórn hefur formlega kallað framkvæmdirnar illa ígrundaðar og ekki í tengslum við kjarnastarfsemi sambandsins. Safnið, sem opnaði árið 2015, kostaði yfir 15 milljarða króna og hefur verið rekið með miklu tapi. Í stað þess að loka safninu, sem stóð til seint á síðasta ári, hefur nú verið ákveðið að draga saman í rekstri þess.

3 milljarða króna fundir

Forsvarsmönnum FIFA leiðist ekki að halda fundi. Nefndarfundir og ársþing sambandsins kosta um 3 milljarða króna á ári, en vegna sérstaks sparnaðarátaks spöruðust um 600 milljónir í fyrra, en það er sama fjárhæð og kostar að afhenda leikmanni ársins FIFA World player of the year (fyrrum Ballon d'or) bikarinn.

Varasjóðirnir

Þrátt fyrir allt stendur sambandið traustum fótum fjárhagslega. Að loknu heimsmeistaramótinu í Rússlandi ættu varasjóðir FIFA að nema um 180 milljörðum króna eða um fjórðungi af fjárlögum íslenska ríkisins. Fjárfestingarstefnan er þó áhugaverð þar sem þessir fjármunir eru geymdir eins og um skammtímafé sé að ræða sem til stendur að ráðstafa. Nær öll upphæðin liggur á svissneskum bankareikningum og í skuldabréfum með ríkisábyrgð. Öryggið er því mikið en ávöxtunin sama og engin. Þó mætti segja að engin ávöxtun varasjóða sé smámál í samhengi alls þess sem á undan er gengið í rekstri sambandsins.

Á næstunni munum við í Íslandsbanka kafa nánar ofan í rekstur og fjármál FIFA sem og heimsmeistaramótanna í Rússlandi og Katar.

Netspjall