Björn Berg Gunnarsson
Fræðslustjóri
14. júní 2017

Sósíalistarnir í NBA

Eigendur liðanna í bandarísku NBA deildinni í körfubolta eiga deildina til jafns. Enginn getur fallið eða unnið sér inn sæti í deildinni og engar reglur gilda nema fulltrúar liðanna vilji að svo sé. Og hvernig ætli þær reglur sem snúa að peningahliðinni séu þegar 30 milljarðamæringar og fjárfestar vestanhafs komast að samkomulagi? Það kemur kannski á óvart að þá verði til eitthvað sterkasta samtryggingarkerfi sem þekkist í íþróttaheiminum og þó víðar væri leitað.

Allir eiga séns

Flóknu kerfi, sem stýrir flæði fjármagns í deildinni og hvernig leikmönnum er komið fyrir, er ætlað að tryggja að enginn dragist aftur úr. Í fótboltanum hagnast liðin af góðu gengi í deildinni, fjölda stuðningsmanna, ríkidæmi eigenda og bestu leikmennirnir vilja vera hjá hinum stærstu og ríkustu. Gangi liðum vel fá þau möguleika á enn meiri tekjum í alþjóðlegum keppnum og farnist þeim illa getur allt farið í kaldakol samhliða falli niður um deildir. Þetta vilja menn (og þetta eru nær eingöngu karlmenn) ekki sjá í NBA. Allir skulu hagnast vel, enginn verður útundan og þó sum lið séu oftar en önnur meðal þeirra sterkustu fá stuðningsmenn nær allra liða að upplifa spennandi tíma, skemmtilega leikmannahópa og góðan árangur, endrum og sinnum að minnsta kosti. Þessi jöfnuður er tryggður með gríðarlega flóknu og umfangsmiklu regluverki. Þyngst vegur þó sennilega tvennt; nýliðavalið og launaþakið.

Bestu ungu leikmennirnir í verstu liðunum

Ekkert barna- og unglingastarf er stafrækt hjá félögunum líkt og við þekkjum hér heima. Velja þarf leikmenn sérstaklega inn í deildina með nýliðavali og liðin sem þurftu að sætta sig við verstan árangur á síðasta tímabili eiga mesta möguleika á bestu leikmönnunum nú. Bestu liðunum er beinlínis refsað með því að eiga minnsta möguleika á að endurnýja leikmannahópinn með öflugum ungum strákum, eða erlendum stjörnum. Stuðningsmenn verstu liðanna geta því oftast huggað sig við að næsta stórstjarna deildarinnar mæti þó til leiks um haustið.

Útgjöldum haldið í skefjum

Launaþak eyðir áhrifum fjárhagslegs forskots einstakra félaga og auðugir eigendur geta ekki keypt árangur (þó slíkt hafi verið reynt, t.d. hjá Brooklyn Nets fyrir skömmu síðan). Það er einfaldlega ekki pláss fyrir nema 1-2 stórstjörnur í hæsta launaflokki í hverju liði. Þau sem minnsta tekjumöguleika hafa ná samt sem áður að fullnýta launaþakið þar sem stórum hluta tekna deildarinnar er dreift með jöfnum hætti til aðildarfélaganna.

 

Auðvelt er að benda á ókosti þessa kerfis. Lið fara reglulega í gegnum tímabil þar sem slæmur árangur virðist ásættanlegur og freista á þess að byggja upp að nýju með vali á bestu nýliðunum. Munurinn á góðum og slæmum árangri í deildinni er lítill þegar litið er á rekstrarreikninginn og enginn fellur. En þetta vilja eigendurnir.

Allir vilja vinna. Það er þó sjaldgæft að sjá heila íþróttadeild með fyrirkomulagi sem hreint og beint hefur þann tilgang að tryggja félögum sem jafnasta möguleika á sigri. Nema auðvitað að Curry og Durant séu í sama liði, þá vinna þeir.

Netspjall