Björn Berg Gunnarsson
Fræðslustjóri
9. júní 2017

Kennum börnum á peninga 17. júní

Hátíðarhöldin 17. júní gefa foreldrum kærkomið tækifæri til að kenna börnum að fara vel með peninga.

Við komuna niður í bæ getur verið erfitt að neita yfirspenntum börnum um blöðrur, snuð, rellur og fleira sem fylgir að sjálfsögðu stemningunni en kostar drjúgan skilding. Hvernig væri að snúa þessu upp í léttan fjármálaleik sem allir græða á?

Látum börnin velja

Fyrsta skref er að ræða um hvaða vörur, veitingar og skemmtun er í boði og hvað þetta kostar nú allt saman. Barnið fær ákveðna upphæð til að verja yfir daginn og þarf því að forgangsraða, bera saman og velta fyrir sér verðmæti þess sem kaupa má fyrir þessa dýrmætu aura. Munað getur um 1.000 krónum á stórri og lítilli blöðru, en fyrir þá upphæð má jafnvel kaupa rellu, sykurfrauð og snuð.
Barnið tekur sjálft ábyrgð á fjármálum sínum þennan skemmtilega dag og lærir með einföldum hætti að peningar eru takmarkaðir og dýrmætir. Ekki er verra ef hægt væri að geyma aurinn þar til daginn eftir og kaupa blöðru á lægra verði eða fá vexti.

Vextir

Þar sem við erum byrjuð á þessu er lag að kenna börnunum á sparnað í leiðinni. Við getum samið við barnið um að ef einhver afgangur er í lok dags fái það 100% mótframlag og megi nýta það fé um næstu helgi. Græddur er geymdur eyrir og rúmlega það.

17. júní er stórskemmtilegur fjölskyldudagur. Grípum tækifærið og aukum fjármálalæsi í leiðinni.

Netspjall