Birgir Stefánsson
Forstöðumaður fyrirtækja- og fagfjárfestaráðgjafar VÍB
10. maí 2017

Ætlar Airbnb á markað?

Airbnb hefur formlega lokið 1 milljarðs dollara fjármögnun á lokuðum markaði sem gerir núverandi verðmæti fyrirtækisins um 31 milljarð dollara, en það voru fjárfestahóparnir Google Capital og Technology Crossover Venture sem leiddu kaupin. Forstjóri Airbnb, Brian Chesky, virðist ekki vera á þeim buxunum að flýta fyrir skráningu fyrirtækisins á hlutabréfamarkað þrátt fyrir þrálátan orðróm og að staða þess sé betri en hjá margra sem nýlega hafa farið í gegnum skráningu vestanhafs. Frekari fjármögnun virðist vera auðveld en undanfarin ár hefur tekist að safna 3 milljörðum dollara án þess að tilkynnt hafi verið um skráningu.

Seinni helming ársins 2016 skilaði Airbnb um 450 milljónum dollara í brúttó hagnað af um 2,8 miljarða tekjum. Til samanburðar má nefna að Snapchat, sem nýverið var tekið til viðskipta í kauphöll, skilaði tapi upp á 514 miljónir dollara í fyrra. Til skamms tíma má segja að tekjur fyrirtækisins séu nokkuð fyrirsjáanlegar sem ætti að vera gott veganesti til skráningar á markað.

En hvers vegna fara þeir ekki á markað strax?

Einn möguleiki er að fyrirtækið vilji sýna meiri hagnað áður en formlegt skráningarferli hefst. Annar möguleiki er áhersla á aukna fjölbreytni í tekjuöflun fyrirtækisins sem hefur sýnt sig í yfirtökum og samrunum síðustu ára. Netsíðan Luxury Retreats var keypt, en þar er hægt að bóka frí með fullri þjónustu. Einnig keypti Airbnb fyrirtækið Tilt sem þróar greiðsluferli í gegnum samfélagsmiðla. Þar sem fyrirtækið stendur vel er ekki ólíklegt að það haldi áfram að tryggja stoðir fyrirtækisins með fleiri tekjupóstum til að vera enn betur undir skráningu búið þegar og ef að slíku kemur.

Nýjasta þjónustuframboð Airbnb er svokallað Airbnb Trips, sem býður viðskiptavinum afþreyingu sem er stýrt af heimamönnum á hverjum áfangastað. Næsta viðbót er talin vera valmöguleikinn á bókun flugs í gegnum heimasíðuna sem myndi loka hringnum fyrir ferðabókun viðskiptavina.

Getur Airbnb hækkað enn frekar í virði?

Áhugavert verður að sjá hvort félaginu takist að vaxa hraðar en aðrir keppinautar og tryggja sér afgerandi forskot á þessum ört vaxandi markaði. Hið nýja módel brýtur upp gamla formið á hótel- og gistihúsabókunum þar sem ekki þarf lengur að vera með mikinn rekstur í kringum útleigu á íbúð eða húsum og auðvelt er að komast í samband við kaupendur og seljendur þjónustunnar.

Í dag er Airbnb langt komið með að vera stærsti einstaki söluaðilinn í alþjóðlega ferðamannabransanum, sem telur um 2.000 milljarða dollara í árlega veltu. Þannig er Airbnb orðið verðmætara en hótelkeðjurnar Hilton og Hyatt, flugfélögin United Airlines og American Airlines sem og netsíður Expedia og Ctrip. Fjárfestar hafa þó ástæðu til að hafa varan á vegna aukinnar samkeppni, vaxandi kvaða frá yfirvöldum og síðast en ekki síst hækkandi verðlags.

Talsvert er rætt um möguleikann á skráningu félagsins á markað en ýmislegt getur haft áhrif á verðið þegar og hef þar að kemur. Eftirtalin fimm gera stöðu fyrirtækisins sterka og möguleika á enn frekari vexti:

  1. Airbnb keppir á stórum markaði sem tekur örum breytingum
  2. Þeir hagnast á breyttum ferðavenjum ferðamanna
  3. Félagið er nú þegar leiðandi í útleigu á gistirými sem ekki telst til hótels eða gistiheimila
  4. Vaxtarmöguleikar eru margir og áhugaverðir og fyrirtækið hefur þegar hafið að breikka starfsemi sína
  5. Opið og gegnsætt markaðstorgi kaupenda og seljanda hefur reynst vel

Ljóst er að Airbnb er að vaxa hratt á markaði sem ekki var til fyrir nokkrum árum síðan en tilheyrir hinum risastóra markaði ferðamennsku sem hefur alla möguleika til að vaxa enn meira á næstu árum. Það verður því spennandi að fylgjast með viðtökunum ef af skráningu verður.

Birgir Stefánsson, forstöðumaður fyrirtækja- og fagfjárfestaráðgjafar VÍB

Netspjall