Siðareglur Íslandsbanka hf.

Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi, starfsmenn og stjórnendur Íslandsbanka hf., og þá verktaka sem ráðnir eru til bankans til að sinna tilteknum verkefnum. 

Reglunum er ætlað að leiðbeina okkur við framkvæmd daglegra starfa með hagsmuni bankans og viðskiptavina hans að leiðarljósi. Reglunum er jafnframt ætlað að viðhalda og styrkja orðspor og trúverðugleika bankans. 

Við erum fagleg

Við vinnum faglega og erum heiðarleg í samskiptum við viðskiptavini, samstarfsmenn og aðra hagsmunaðila. 

Við bjóðum aðeins þá þjónustu sem við getum veitt og stöndum við orð okkar. 

Við kynnum okkur og virðum lög og reglur sem gilda um starfsemi bankans sem og þær innri reglur sem bankinn hefur sett sér. 

Við komum fram við viðskiptavini og samstarfsmenn af virðingu og sýnum sanngirni og gætum jafnræðis í störfum okkar. Við mismunum ekki á ólögmætum eða ómálefnalegum forsendum, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, uppruna, trúar‐ eða stjórnmálaskoðana. 

Við tökum ekki þátt í vinnu eða verkefnum sem kastað geta rýrð á orðspor bankans og dregið úr trausti á honum. 

Við drögum úr hættu á hagsmunaárekstrum

Við upplýsum um þau atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum í störfum okkar. Við upplýsum yfirmenn okkar um atriði sem geta haft áhrif á sjálfstæði, hlutleysi eða skyldu okkar við bankann og viðskiptavini hans. Þegar hagsmunaárekstrar koma upp tökum við á þeim í samræmi við reglur bankans um hagsmunaárekstra. Við þiggjum hvorki né bjóðum gjafir, greiða eða aðra umbun sem er til þess fallin að hafa áhrif á sjálfstæði eða hlutleysi viðkomandi og samræmist ekki reglum bankans um gjafir og boðsferðir. 

Við virðum trúnað

Við erum bundin þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna sem og önnur atriði sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og leynt eiga að fara. Við nýtum ekki upplýsingar sem við fáum í störfum okkar í eigin þágu eða vandamanna okkar.

Við veitum réttar upplýsingar

Við kappkostum að veita viðskiptavinum réttar, skýrar og áreiðanlegar upplýsingar og gætum þess við gerð markaðs‐ og kynningarefnis og sýnum sérstaka aðgát við gerð auglýsinga og kynningarefnis sem snerta börn.

Við erum til fyrirmyndar

Við sinnum störfum okkar og samskiptum við viðskiptavini og samstarfsmenn þannig að það sé öðrum til eftirbreytni.

Samþykkt af stjórn Íslandsbanka í maí 2017.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall