Samkeppnisstefna

1. Inngangur

Samkeppnisreglur eru hluti af lagaumhverfi Íslandsbanka sem fjármálafyrirtækis á samkeppnismarkaði. Samkeppnisreglur gegna mikilvægu hlutverki á frjálsum markaði til að tryggja neytendum og þjóðfélaginu í heild ábatann af vikri samkeppni.

Hætta á samkeppnislagabrotum í starfsemi bankans er mikil. Starfsemi bankans er víðtæk og ákvarðanataka um viðskipti er dreifð. Auk þess á bankinn í samstarfi við keppinauta sína í gegnum t.d. Reiknistofu bankankanna hf., Auðkenni, kreditkortafyrirtækin og SFF svo eitthvað sé nefnt. Einnig hefur Samkeppniseftirlitið byggt á því í ákvörðunum sínum að stóru viðskiptabankarnir þrír teljist í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu. Íslandsbanki þarf því að gæta varfærni í aðgerðum sínum á markaði og eru möguleikar bankans til að taka þátt í samkeppni því takmarkaðri en almennt er heimilt í viðskiptum.

Íslandsbanka er mjög í mun að starfsemi bankans sé að öllu leyti í samræmi við samkeppnisreglur og að ákvarðanir, samningar og aðgerðir hans á markaði brjóti ekki á neinn hátt gegn samkeppnislögum enda telur bankinn að með heiðarlegri samkeppni á markaði sé hagur viðskiptavina bankans best tryggður.

Samkeppnisstefnu þessari er ætlað að tryggja að bankinn starfi að öllu leyti á forsendum heiðarlegrar samkeppni og vinni í hvívetna í samræmi við samkeppnisreglur.

2. Innra samkeppniseftirlit Íslandsbanka

Á lögfræðisviði bankans skal starfa ábyrgðaraðili samkeppnismála sem annast innra samkeppniseftirlit í bankanum. Bankastjóri skal setja ábyrgðaraðilanum sérstakt erindisbréf sem kveður á um verksvið, heimildir og aðgang að öllum nauðsynlegum gögnum og upplýsingum sem ábyrgðaraðili telur nauðsynleg til að sinna starfi sínu. Í innra samkeppniseftirliti felst meðal annars að
 • Annast samskipti við Samkeppniseftirlitið og sjá um gagnaöflun vegna rannsókna þess á viðskiptaháttum og starfsemi bankans.
 • Halda skrá yfir eignarhluti bankans, að undanskildum eignarhlutum skráðum í veltubók, og dótturfélaga hans og hafa eftirlit með öllum breytingum á þeim.
 • Halda skrá yfir stjórnarmenn í þeim félögum sem bankinn eða dótturfélög hans eiga hlut í og hafa eftirlit með breytingum á þeim.
 • Hafa eftirlit með yfirtökum bankans og annast tilkynningar á þeim til Samkeppniseftirlitsins.
 • Halda skrá yfir samruna eða samstarf sem háð eru sérstökum skilyrðum frá Samkeppniseftirlitinu.
 • Halda skrá yfir þau skilyrði sem bankinn gengst undir, t.d. í tengslum við yfirtökur bankans eða samstarf við keppinauta.
 • Hafa eftirlit með því að skilyrði þau sem bankinn hefur gengist undir séu virt af starfsmönnum bankans og dótturfélögum hans.
 • Hafa eftirlit með því að samskipti bankans við keppinauta séu innan marka samkeppnislaga og að verkferlar séu fullnægjandi.
 • Greina hættu á samkeppnislagabrotum í starfsemi bankans.
 • Skipuleggja aðgerðir gegn samkeppnislagabrotum.
 • Ákveða áherslur í fræðslu um samkeppnismál og standa að fræðslu um samkeppnismál.
 • Stuðla að úrbótum á verkferlum þegar þörf krefur.
 • Gæta að sjónarmiðum er varða samkeppnismál í tengslum við vörusamþykktarferli bankans.

Stjórnendur skulu gæta þess að upplýsa ábyrgðaraðila samkeppnismála án tafar um allar hugmyndir og fyrirætlanir um samstarf við samkeppnisaðila, auk annarra mála sem viðkomandi telur að varðað geti við samkeppnismál.

3. Fræðsla

Ábyrgðaraðili samkeppnismála annast fræðslu um samkeppnismál fyrir starfsmenn bankans. Í því felst meðal annars að
 • Sjá um almenna fræðslu um samkeppnismál á nýliðakynningum bankans.
 • Sjá um almenna reglubundna fræðslu um samkeppnismál fyrir starfsmenn bankans.
 • Sjá um sérstaka fræðslu fyrir starfsmenn einstakra sviða bankans um samkeppnismál sem varða þeirra starfsemi sérstaklega.
 • Sjá um sérstaka fræðslu fyrir starfsmenn bankans um skilyrði sem bankinn hefur gengist undir.
 • Sjá um reglubundnar áminningar til starfsmanna um skyldur þeirra og ábyrgð í samkeppnismálum.

4. Ábyrgð á samkeppnisstefnu

Stefna þessi er samþykkt af framkvæmdastjórn Íslandsbanka og er hún uppfærð þegar þurfa þykir. Ábyrgðaraðili samkeppnismála ber ábyrgð að stefnan sé uppfærð þegar þess er þörf.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall