Kvartanir og ábendingar

Íslandsbanki hefur það að markmiði í samskiptum við viðskiptavini sína að tryggja að kvartanir, ábendingar og önnur sambærileg erindi fái skjóta, skilvirka og sanngjarna afgreiðslu. Kappkostað er að skrá kvartanir með kerfisbundum hætti og að svara þeim sem fyrst skriflega eða með öðrum rekjanlegum aðferðum eigi síðar en innan fjögurra vikna.

Ef kvörtun er þess eðlis að meðhöndlun hennar taki lengri tíma skal sá er kom kvörtun á framfæri upplýstur um töfina, ástæður hennar og hvenær svars sé að vænta. Aflað er allra tiltækra gagna og nauðsynlegra upplýsinga um kvörtun og þau metin á hlutlægan hátt. Haft er að leiðarljósi að öll samskipti og svör til viðskiptavin séu skýr og afdráttarlaus.

Ef ekki er talið tilefni til að bregðast við kvörtun er það rökstutt sérstaklega. Bankinn áskilur sér ávallt rétt til að leiða hjá sér eða kæra kvartanir eða samskipti sem fela í sér hótun í garð starfsmanna eða fjölskyldna þeirra. Upplýsingar um úrræði innan bankans ásamt stjórnvalds- og réttarúrræðum eru veittar á heimasíðu bankans. Meðferð kvartana og ábendinga lýtur verklagsreglum bankans þar að lútandi.

Kvörtunum er unnt að koma á framfæri með ýmsum hætti, s.s. með tölvupósti, bréfleiðis, með símtali eða á fundi. Jafnframt er hægt að senda kvörtun með rafrænum hætti í gegnum vef bankans. Innri endurskoðun bankans hefur eftirlit með að stefnu og verklagsreglum um meðferð kvartana sé fylgt.

Umboðsmaður viðskiptavina

Telji viðskiptavinur sig ekki hafa fengið efnislega  umfjöllun eða úrlausnir í samræmi við gildandi lög eða reglur bankans, getur hann leitað til Umboðsmanns viðskiptavina.

  • Þegar aðkomu Umboðsmanns er óskað skal liggja fyrir niðurstaða frá útibúi, eða þeirri viðskiptaeiningu sem fer með málefni viðskiptavinar.
  • Hlutverk umboðsmanns er að skoða málin hlutlaust og vinna að úrlausn mála eftir þeim leiðum sem í boði eru hverju sinni innan bankans og sanngjarnar geta talist miðað við aðstæður.

Úrskurðar- og réttarúrræði

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki

Viðskiptavinur getur skotið ágreiningi til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki sem er í umsjá Fjármálaeftirlitsins.
Erindi skulu send á:

Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki
Katrínartún 2
105 Reykjavík
Sími: 520 3888
Tölvupóstur: urskfjarm@fme.is

Fylla þarf út sérstakt málskotseyðublað og skila eða senda í pósti til skrifstofu Fjármálaeftirlitins til að óska eftir úrskurði nefndarinnar. Jafnframt má nálgast málsskotseyðublað á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins eða á skrifstofu þess. Nánari upplýsingar um nefndina, málskotsgjald, hverjir geta leitað til nefndarinnar o.fl. er að finna á vef Fjármálaeftirlitsins, fme.is.

Upplýsinga- og leiðbeiningaþjónusta Fjármálaeftirlitsins

Fjármálaeftirlitið starfrækir upplýsinga- og leiðbeiningaþjónustu fyrir viðskiptavini eftirlitsskyldra aðila. Sjá nánari upplýsingar um neytendaþjónustu Fjármálaeftirlitsins á fme.is.

Dómstólar

Aðilar geta leitað réttar síns fyrir almennum dómstólum hafi ágreiningsefnið ekki verið undanþegið lögsögu þeirra með lögum eða samningi.

Neytendastofa

Neytendastofa er stjórnvald á sviði neytendamála sem annast framkvæmd á ýmsum lögum á sviði neytendaverndar. Á heimasíðu Neytendastofu er m.a. unnt að nálgast upplýsingar um það í hvaða tilvikum og með hvaða hætti neytendur geta leitað til stofnunarinnar, telji þeir að réttur sé á þeim brotinn. Sjá nánar á neytendastofa.is.

Persónuvernd

Persónuvernd annast eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og úrskurðar í ágreiningsmálum á sviði persónuverndar, svo sem ef viðskiptavinur telur misfarið með persónugreinanlegar upplýsingar.
Á vef stofnunarinnar má finna upplýsingar um með hvaða hætti er hægt að leggja fram kvörtun, sjá nánar á https://www.personuvernd.is/

Tryggingasjóður innstæðueigenda og fjárfesta

Vakin er athygli á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta sem starfar skv. lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Markmið laganna er að veita innstæðueigendum í viðskiptabönkum og sparisjóðum og viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis í samræmi við ákvæði laganna. Sjá nánar viðeigandi lög/reglur og frekari upplýsingar um sjóðinn, útgreiðslur o.fl. á tryggingarsjodur.is.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall