Siðareglur Íslandsbanka 

Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi, starfsmenn og stjórn Íslandsbanka hf., og þá verktaka sem ráðnir eru til bankans. 


Reglunum er ætlað að leiðbeina okkur við framkvæmd daglegra starfa með hagsmuni bankans og viðskiptavina hans að leiðarljósi. Reglunum er jafnframt ætlað að viðhalda og styrkja orðspor og trúverðugleika bankans.

Við ástundum fagleg vinnubrögð

Við erum fagleg og heiðarleg í samskiptum við viðskiptavini, samstarfsmenn og aðra hagsmunaðila. 

Við bjóðum aðeins þá þjónustu sem við getum veitt og stöndum við orð okkar.

Við tryggjum að við búum yfir þeirri færni sem þarf til að sinna störfum okkar.

Við komum fram af heilindum

Við erum bundin þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna sem og önnur atriði sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og leynt eiga að fara. 

Við nýtum ekki upplýsingar sem við fáum í störfum okkar í eigin þágu eða vandamanna okkar. Við veitum ávallt réttar upplýsingar

Við komum fram við viðskiptavini og samstarfsmenn af virðingu og sýnum sanngirni og gætum jafnræðis í störfum okkar.

Við mismunum ekki á ólögmætum eða ómálefnalegum forsendum, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, uppruna, trúar‐ eða stjórnmálaskoðana.

Við aðhöfumst ekkert sem sem kastað getur rýrð á orðspor bankans og dregið úr trausti á honum.

Við berum ábyrgð

Við kynnum okkur og virðum lög og reglur sem gilda um starfsemi bankans sem og þær innri reglur sem bankinn hefur sett sér. 

Við látum vita ef við höfum vitneskju eða grun um hugsanlegt misferli sem tengist starfsemi bankans á einhvern hátt.

Við erum ábyrg í fjárfestingum, lánveitingum sem og öllum öðrum störfum sem við tökum okkur fyrir hendur.

Við erum til fyrirmyndar

Við sinnum störfum okkar og samskiptum við viðskiptavini og samstarfsmenn þannig að það sé öðrum til eftirbreytni. 

Við höfum jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfið.

Við tryggjum uppbyggilegt vinnuumhverfi sem er laust við mismunum eða áreitni. Auk siðareglna þá ber starfsfólki bankans að fara eftir starfsreglum hans og staðfesta árlega.

Samþykktar af stjórn Íslandsbanka 11. janúar 2018.