Möguleg röskun á þjónustu næstu helgi
Innleiðing nýs kerfis hjá Arion banka mun hafa takmörkuð áhrif á viðskiptavini Íslandsbanka.
Arion banki mun um komandi helgi, dagana 16. – 18. apríl, innleiða nýtt greiðslu- og innlánakerfi í samstarfi við Reiknistofu bankanna.
Innleiðing kerfisins mun lítil sem engin áhrif hafa á viðskiptavini Íslandsbanka. Þó má gera ráð fyrir lítilsháttar röskun, þá sérstaklega um hádegisbil sunnudaginn 18. apríl. Hún felst fyrst og fremst í því að millifærslur á milli banka verða ekki sýnilegar í kerfum Arion banka frá föstudagskvöldi kl. 21 þar til eftir helgina. Færslurnar verða sjáanlegar í öðrum bönkum.
Við hvetjum viðskiptavini Íslandsbanka til að framkvæma greiðslur og afgreiða greiðslubunka fyrir föstudaginn 16. apríl eigi þeir þess kost.
Við minnum á að netspjallið er opið alla virka daga milli kl. 9 og 18 og ráðgjafaver, í síma 440-4000, er opið alla virka daga milli kl. 9 og 16. Þá er spjallmennið Fróði opinn allan sólarhringinn allan ársins hring hér á vef Íslandsbanka.
Nánari upplýsingar um innleiðinguna og þau áhrif sem hún kann að hafa um næstu helgi má nálgast á vef Arion banka.