UN Kvikmyndasýningar

Inngangur væntanlegur


Stærsta litla býlið (The Biggest Little farm)

Segir sögu John og Moly Chester en þau ákváðu að snúa baki við borgarlífi og hefja sjálfbæran búskap. En það reyndist hægara sagt en gert að lifa í samræmi við hugsjónir og í sátt og samlyndi við náttúruna og hverri ákvörðun fylgdi ný áskorun. Í Stærsta litla býlinu er brugðið upp nærmynd af lífkeðjunni og hún sýnd í nýju ljósi og spillir ekki fyrir frábær myndataka. Hanar og svín verða vinir áhorfandans sem nagar á sér neglurnar þegar refir sitja um búið og kindurnar eru í hættu. 

Saga Chester-hjónanna er ekki aðeins fróðleg og áhugaverð heldur bráðskemmtileg og mannleg. Hún segir okkur mikið um þau tækifæri sem búa í nátturunni og líka um náttúru okkar mannanna. Þegar upp er staðið er Stærsta litla býlið vegvísir að betri og heilbrigðari plánetu – mynd sem fólk horfir á með bros á vör.

Sjá vefsíðu myndarinnar

Stikla úr myndStóra súkkulaðimálið (The Chocolate Case)

Segir söguna af hollenskum sjónvarpsmönnum sem byrjuðu á því í spaugi að hringja í símanúmer sem gefin voru upp á súkkulaðiumbúðum. Þessir  Harmageddon-bræður þeirra Hollendinga ætluðu sér í fyrstu ekkert annað en gera góðlátlegt grín, en smátt og smátt komust þeir að því að framleiðendur lofuðu upp í ermina á sér þegar þeir sögðu vöruna framleidda á sjálfbæran hátt og án þrælahalds. Þetta átti eftir að vinda upp á sig eins og segir frá í þessari bráðskemmtilegu og fræðandi mynd.

Niðurstaða grínsins varð grafalvarleg og allt önnur en til var sáð í upphafi. Svo fór að sjónvarpsmennirnir gerðust súkkulaðiframleiðendur og sögðu barnaþrælkun sem oft viðgengst í súkkulaðibransanum stríð á hendur – og reyndu að stuðla að betri heimi, (súkkalaði)bita fyrir bita.

Gestur sýningarinnar er Ynzo van Zenten frá Tony´s Chocolonely og allir sýningargestir verða leystir út með gjöf: súkkulaði sem framleitt er án þrælahalds.

Sýningin er haldin í samvinnu við sendiráð Hollands á Íslandi og Festu – Miðstöð um samfélagsábyrgð

Sjá vefsíða myndar

Stikla úr Stóra súkkulaðimálið (The Chocolate Case)


Unaður kvenna (Female pleasure)

Í heimildarmynd Barböru Miller Unaður kvenna (Female pleasure) er dregin upp mynd af fimm hugrökkumk, klárum og ákveðnum konum sem hver á sinn hátt hefur rofið þagnarmúr sem reistur hefur verið af samfélagi feðraveldisins og trúarhópum. Þær koma hver úr sínu heimshorni en þær Deborah Feldman, Leyla Hussein, Rokudenashiko, Doris Wagner og Vithika Yadav hafa hver um sig barist fyrir kynferðislegu frelsi og sjálfstæði kvenna og mætt harðri trúarlegri – og menningarlegri andspyrnu. Þær hafa mátt gjalda sigra sína dýru verði því allar hafa þær mátt þola opinbera smánun, hótanir og útskúfun. Allar hafa þær komist að sömu niðurstöðu að hvort heldur sem er á meðal bókstafstrúaðra gyðinga í Brooklyn, kaþólskra klerka í Evrópu, sómalskra múslima, Indverja eða Japana, er litið á líkama kvenna fyrst og fremst sem leikvöll lostafullra karla og tæki til fjölgunar kynstofnsins án tillits til vilja og unaðar kvenna.

Sjá nánar vefsíðu 

Sjá stiklu úr Unaður kvenna (Female pleasure)