Ábyrg viðskipti

Íslandsbanki leggur áherslu á góða stjórnarhætti og hagkvæmni. Bankinn leitast við að þjóna viðskiptavinum sínum með því að hafa skýrt regluverk, veita gagnlegar upplýsingar og gæta jafnræðis meðal viðskiptavina.


Stjórnarhættir

Stjórn Íslandsbanka hefur það að markmiði að þróa stöðugt og styrkja góða stjórnarhætti innan bankans og að stjórnarhættir bankans samræmist alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum og bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta. Nánar

Ábyrgar fjárfestingar

Ábyrgar fjárfestingar eru nálgun á fjárfestingar sem miða að því að taka tillit til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta þegar valið er að fjárfesta í fyrirtækjum til þess að hafa betri stjórn á áhættu og hafa sjálbæra langtíma hugsun að leiðarljósi.

Markmið Íslandsbanka

  • Íslandsbanki fjárfestir til góðra verka með fjárhagslega arðsemi og jákvæð samfélagsleg áhrif að leiðarljósi.
  • Íslandsbanki leitast við að fjárfesta í fyrirtækjum sem skila góðri arðsemi, eru vel rekin og viðhafa góða stjórnarhætti ásamt því að sýna ábyrgð í umhverfis-, samfélags- og siðferðislegum málum í störfum sínum.
  • Íslandsbanki ætlar að beita áhrifum sínum sem fjárfestir og halda gildum samfélagslegrar ábyrgðar á lofti gagnvart félögum sem bankinn fjárfestir í sem og samfélaginu öllu.
  • Íslandsbanki leggur áherslu á að fyrirtæki sem hann fjárfestir í horfi til meginreglna Sameinuðu þjóðanna, UN Global Compact eða annarra viðurkenndra aðila, við starfsemi sína.

Ábyrgar fjárfestingar skilgreina þau viðmið og fyrirmyndir sem Íslandsbanki setur við mat og ákvörðun um fjárfestingar. Atriði sem varða það eru t.d. umhverfissjónarmið, mannréttindi, spilling, samkeppnissjónarmið, samfélagsmál, gott siðferði og ábyrgir stjórnarhættir. Það er trú Íslandsbanka að áhrif þess að tvinna saman arðsemi- og ábyrgðarsjónarmið séu jákvæð á verðmætasköpun í hagkerfinu til lengri tíma litið og stuðli að heilbrigðum markaðsaðstæðum. Íslandsbanki leitast við að fjárfesta í fyrirtækjum sem skila góðri arðsemi, eru vel rekin og viðhafa góða stjórnarhætti ásamt því að sýna ábyrgð í umhverfis,- samfélags-, og siðferðislegum málum í störfum sínum.

Íslandssjóðir

Íslandssjóðir hf er elsta eignastýringarfyrirtæki landsins og dótturfélag Íslandsbanka. Félagið stýrir 26 verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum og tveimur fagfjárfestasjóðum. Auk þess sjá Íslandssjóðir um eignaumsýslu fyrir þá viðskiptavini Íslandsbanka sem kjósa að hafa eignir í sínar í stýringu.

Fyrirtækið tekur mið af stefnu bankans í samfélagsábyrgð en hefur að auki sett sér stefnu í samfélagsábyrgð auk stefnu um ábyrgar fjárfestingar.

Íslandssjóðir er einn af stofnaðilum Samtaka um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi sem voru stofnuð í lok ársins 2017. Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki. Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum).

Ábyrg innkaup

Íslandsbanki hefur einsett sér að stunda heilbrigðan rekstur og góða viðskiptahætti. Jafnframt leitast bankinn við að skilja kröfur og óskir hagaðila til að móta nýjar lausnir til hagsbóta fyrir umhverfi, samfélag og efnahag. Bankinn er stór kaupandi þjónustu og vara og getur því haft mikil áhrif á birgja.

Íslandsbanki vinnur skipulega að því að byggja upp gott samband við birgja sína með það fyrir augum að bæta starf beggja aðila, draga úr umhverfisáhrifum og efla nærsamfélag. Íslandsbanki vinnur eftir gagnsæju og sanngjörnu innkaupaverklagi. Birgjar þurfa að uppfylla kröfur um gæði og þarfir bankans í innkaupum. Gerðar eru verðkannanir og tilboða leitað í stærri innkaup í samræmi við opnar og aðgengilegar kröfur hverju sinni um gæði og þarfir bankans. Við mat á hagkvæmni tilboða er, auk efnahagslegra viðmiða, tekið mið af áhrifum á umhverfi og samfélag.

Íslandsbanki telur mikilvægt að vinna með birgjum sem starfa af ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi. Birgjar fylgja gátlista í gæðahandbók bankans um umhverfismál, starfsskilyrði, mannréttindi og varnir gegn spillingu.

Umhverfisvernd innkaupa

Íslandsbanki leitast við að valda sem minnstum umhverfisáhrifum í innkaupum með því að taka tillit til líftímakostnaðar og kaupa umhverfisvottaða þjónustu og vörur þegar það er í boði. Íslandsbanki leitast við að hafa góð áhrif á umhverfi og nærsamfélag með því að kaupa vöru og þjónustu sem er upprunnin eru nálægt starfsstöðvum bankans sé þess kostur. Íslandsbanki dregur úr umhverfisáhrifum til dæmis með því að bjóða ekki upp á markaðsvöru með þekktum heilsu- og umhverfisspillandi áhrifum. Með því að starfrækja umhverfisvæn mötuneyti, kaupa eingöngu visthæfa bíla og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mikilvægt er að velja vistvænar lausnir við endurnýjun og rekstur skrifstofa og skila úrgangi á ábyrgan hátt

Ábyrgar lánveitingar

Íslandsbanki vinnur eftir verklagi um ábyrgar lánaveitingar og sýnir ábyrgð í verki með því að vanda til ákvarðana er varða lánveitingar og með því að veita viðskiptavinum haldgóða ráðgjöf við lántöku.

Lánveitingar byggja á trausti og trúnaði á milli bankans og viðskiptavina, þar sem greiðsluhæfi viðskiptavinar liggur fyrst og fremst til grundvallar lánveitingu. Hvað lán til einstaklinga varðar skulu lánsbeiðnir afgreiddar án tillits til kynþáttar, trúar eða lífsskoðana. Bankinn virðir á hverjum tíma þær takmarkanir sem leiða af alþjóðasamningum um lánveitingar til aðila frá tilteknum ríkjum.

Ábyrgar lánveitingar fela í sér að skilyrði laga og reglugerða séu uppfyllt, svo sem varðandi neytendavernd, peningaþvætti, eða aðra lagasetningu eða reglugerðir er varða lögaðila og starfsemi þeirra. Ábyrgar lánveitingar fela það einnig í sér að hafna lánsbeiðni ef lánshæfisskilyrði eru ekki uppfyllt.

Orðsporsáhætta er einn þeirra þátta sem bankinn horfir til við lánveitingar og það skiptir máli hvort fyrirtækin sem leita eftir lánafyrirgreiðslu hjá bankanum starfi í sátt og samlyndi við samfélagið. Sem dæmi um orðsporsáhættu sem tengst getur lánsbeiðni er ólögleg eða mjög mengandi starfsemi, skattaundanskot, slæm framkoma við starfsmenn, ófullnægjandi aðbúnaður dýra og skortur á opinberum leyfum. Lögð er áhersla á að starfsmenn heimsæki fyrirtæki, kynni sér rekstur þeirra og ræði við helstu stjórnendur.

Peningaþvættisvarnir

Þekktar bankastofnanir í heiminum hafa staðið frammi fyrir mikilli orðsporsáhættu og lögsóknum vegna peningaþvættismála sem komið hafa upp. Íslandsbanki tekur sínar peningaþvættisvarnir föstum tökum og hefur sett sér reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og mótað verklag á grundvelli þeirra sem starfsmönnum er skylt að fylgja.

Með reglunum leitast bankinn við að uppfylla í hvívetna ýtrustu kröfur, sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja á innlendum og alþjóðlegum vettvangi á því sviði. Markmið reglnanna er að hindra að rekstur og starfsemi Íslandsbanka verði notuð til peningaþvættis eða til að fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Allir viðskiptavinir gangast undir áreiðanleikakönnun í upphafi samningssambands. Þannig er t.a.m. óheimilt að stofna nafnlausa reikninga.