Tékklisti við starfslok

Hvað þarftu að kanna og ákveða áður en þú hættir að vinna?


Það er gott að gefa sér nægan tíma við undirbúning starfsloka. Mikilvægt er að kynna sér vel alla króka og kima áður en ákvarðanir eru teknar um tilfærslur fjármuna á lífeyrisaldri, enda eru slíkar ákvarðanir ekki teknar til baka.

Ákveða þarf hvenær skuli sótt um greiðslur og hvernig þeim skuli hagað. Sömuleiðis er mikilvægt að vita fyrirfram hvaða áhrif tekjur munu hafa á skatta og eftir atvikum greiðslur Tryggingastofnunar, svo fáeitt sé nefnt.

Tímanum er því vel varið í vandaðan undirbúning og hér höfum við því tekið saman tékklista við starfslok, sem vonandi reynist vel í aðdraganda starfsloka.

Tékklisti

 • Séreign og annar sparnaður

  Við sextugt er viðbótarlífeyrissparnaður laus til úttektar en þér er þó frjálst að geyma sparnaðinn þar inni eins lengi og þú vilt. Ávöxtun og úttekt slíkrar séreignar skerðir ekki ellilífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar og er ávöxtunin auk þess undanþegin fjármagnstekjuskatti. Séreign erfist að fullu og er ekki aðfararhæf við gjaldþrot.

  Séreignin er á þinni kennitölu og þú ræður að talsverðu leyti hvernig hún er geymd og ávöxtuð, til dæmi hjá okkur í Íslandsbanka.

  □ Kannaðu hvort verið sé að geyma og ávaxta séreignina eins og þér líður vel með.

  □ Ákveddu hvernig þú vilt nota séreignina. Ætlar þú t.d. að eiga hana sem varasjóð sem gengið er í eftir þörfum, viltu taka hana út eins hratt og þú getur eða jafnvel skammta þér mánaðarlegar greiðslur?

 • Lífeyrissjóðurinn             

  Lífeyrisréttindi okkar eru misjöfn og heimildir til lífeyristöku sömuleiðis. Það gæti hentað þér að sækja lífeyri snemma eða seinna, eða jafnvel byrja á töku hálfs lífeyris. Vandaðu þig við að taka ákvörðun sem mun henta þér sem best.

  □ Líttu á yfirlitið þitt í Lífeyrisgáttinni. Hana nálgast þú í gegnum vefsíðu þíns lífeyrissjóðs.

  □ Taktu ákvörðun um hentugan tíma til að hefja töku lífeyris. Byggðu hana á þínum persónulegu aðstæðum og hvernig þú sérð fyrir þér tekjur þínar og útgjöld á lífeyrisaldri.

 • Tryggingastofnun

  Ekki láta flækjustig TR og öll þessi nýju hugtök rugla þig í rýminu. Lestu þér til um tekjutengingar og greiðslur stofnunarinnar hér á vefnum okkar.

  □ Notaðu reiknivél lífeyris á vef TR til að átta þig á þeim greiðslum sem þú átt von á

  □ Taktu ákvörðun um hentugan tíma til að hefja töku lífeyris. Það er alls ekki víst að það borgi sig fyrir þig að sækja um fyrr en þú hættir á vinnumarkaði.

 • Fjárhagslegt öryggi sambýlisfólks (fyrir fólk í sambúð)   

  Hvernig stendur fólk í sambúð hvort um sig ef eitthvað kemur upp á. Hvaða áhrif hefði andlát annars eða dvöl á hjúkrunarheimili á fjárhag hins?

  □ Fáðu upplýsingar um makalífeyri hjá lífeyrissjóðnum þínum

  □ Lífeyrisréttindi eru einstaklingsbundin. Takið saman réttindi hvors um sig.

  □ Er ástæða til að skipta lífeyri eða ganga frá umboði til að tryggja betur það ykkar sem síðri réttindin hefur?

 • Skuldir

  Starfslokum fylgja yfirleitt lægri mánaðarlegar tekjur. Greiðslubyrði lána verður því hærra hlutfall af tekjum og áhættan því meiri. Við starfslok kjósa margir að greiða niður lán, ef kostur er, einkum óhagstæð neyslulán.

  □ Taktu saman skuldir heimilisins. Er svigrúm til að létta á þeim?

  □ Ef þú ert með íbúðalán skaltu kanna hvort tækifæri séu til endurfjármögnunar á betri kjörum.

Það getur tekið dágóða stund að fara í gegnum tékklistann hér að ofan en nú er bara að bíta á jaxlinn og láta sig hafa það, tímakaupið gæti nefnilega verið ansi gott.

Fjármál við starfslok


Myndband um þau atriði sem gott er að hafa á hreinu í aðdraganda starfsloka. Upptakan er frá ársbyrjun 2021.

 • Lífeyrissparnaður01:00
 • Séreignarsparnaður05:09
 • Tryggingastofnun08:28
 • Hvað ef eitthvað kemur fyrir?19:03
 • Tékklisti við starfslok25:38

Ítarefni um undirbúning starfsloka


Starfslokavefur Íslandsbanka

Ítarlegur en aðgengilegur upplýsingavefur um undirbúning starfsloka.

Starfslokavefur

Grein um undirbúning starfsloka

Nokkur gagnleg ráð þegar styttist í eftirlaun

Undirbúningur starfsloka