Sé horft til liðinnar verðbólgu hafa raunstýrivextir lækkað jafnt og þétt síðustu mánuði með vaxandi verðbólgu og námu þeir u.þ 3,1% í októbermánuði samkvæmt útreikningum okkar. Á þann kvarða hefur aðhald peningastefnunnar ekki verið minna frá ágúst í fyrra. Sé hins vegar horft til verðbólguvæntinga, sem er rökréttari mælikvarði á aðhaldsstigið, er hins vegar nær lagi að raunstýrivaxtastigið hafi verið fremur stöðugt í kring um 3,5%.
Þá hefur einnig orðið nokkur viðsnúningur í langtíma raunvöxtum á skuldabréfamarkaði. Þannig hafa vextir á 10 ára verðtryggðum skuldbindingum ríkissjóðs lækkað úr 3,1% í ágústmánuði niður í 2,7% það sem af er nóvembermánuði. Slík lækkun á raunvaxtastiginu til lengri tíma litast trúlega af versnandi horfum um hagþróun komandi fjórðunga.
Nýju ári fagnað með vaxtalækkun?
Í ljósi versnandi efnahagshorfa má færa rök fyrir því að ekki þurfi jafn háa raunvexti og áður til þess að ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Þar er hins vegar sá hængur á að framsýn leiðsögn peningastefnunefndar hefur undanfarið verið afdráttarlaus með það að ekki sé svigrúm til lækkunar vaxta fyrr en verðbólgan sjálf gefur meira eftir. Til að mynda segir í fundargerð októberfundar nefndarinnar (feitletrun okkar):
„Vegna mikillar fylgni verðbólguvæntinga við núverandi þróun verðbólgu taldi nefndin brýnt að sjá skýrari hjöðnun verðbólgu áður en frekari skref væru tekin í lækkun vaxta. Hætta væri á að viðvarandi háar verðbólguvæntingar myndu auka líkur á að launahækkanir leiddu til þess að verðbólga yrði þrálátari en ella.“
Svo afdráttarlaus skilaboð fyrir aðeins rúmum mánuði síðan gera nefndinni erfitt fyrir að taka núna allt annan pól í hæðina varðandi þörfina á aðhaldi þrátt fyrir lakari efnahagshorfur til skemmri tíma litið, sér í lagi í ljósi þess að verðbólga hefur færst í aukana í flestum skilningi miðað við nýjustu mælingar Hagstofunnar.