Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Síðasta vaxtalækkun í bili?

Stýrivextir hafa lækkað um 1,50% frá áramótum, þar af um 0,75% frá því nýr Seðlabankastjóri tók við um miðjan ágúst. Útlit er þó fyrir að þetta verði síðasta vaxtalækkunarskref bankans í bili.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25%. Vextirnir verða því 3,0% og hafa ekki verið lægri frá því að verðbólgumarkmið var tekið upp árið 2001.

Stýrivextir hafa nú lækkað um 1,50% frá áramótum, þar af um 0,75% frá því nýr Seðlabankastjóri tók við um miðjan ágúst. Útlit er þó fyrir að þetta verði síðasta vaxtalækkunarskref bankans í bili. Spár höfðu ýmist hljóðað upp á óbreytta vexti eða lækkun og höfðum við spáð lækkun vaxta líkt og raunin varð.

Spá minni hagvexti á næsta ári

Ný þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birt var í Peningamálum í morgun, gerir ráð fyrir versnandi hagvaxtarhorfum á síðari hluta þessa árs miðað við síðustu spá. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til verulegs samdráttar í vöruútflutningi á þriðja ársfjórðungi. Hagvöxtur hafi þó verið meiri á fyrri hluta árs en spáð var og er því gert ráð fyrir 0,2% hagvexti á árinu öllu líkt og spá gerði ráð fyrir í ágúst.

 

 

Horfur fyrir næsta ár hafa versnað og spáir Seðlabankinn 1,6% hagvexti sem er ögn minni vöxtur en bankinn gerði ráð fyrir í síðustu spá. Samkvæmt bankanum skýrist breytingin fyrst og fremst af lakari horfum um vöxt innlendrar eftirspurnar. Spá þeirra virðist vera að færast nær þjóðhagsspá okkar sem birt var í september en þar gerðum við ráð fyrir 1,3% hagvexti árið 2020.

Verðbólga hjaðnar hraðar

Þá spáir Seðlabankinn að verðbólga muni hjaðna hraðar en bankinn spáði í ágúst. Verðbólga mældist 2,8% í október og telur bankinn líkur á því að hún verði komin undir 2,5% markmiðið í lok þessa árs. Í spá sinni í ágúst gerði bankinn ráð fyrir að verðbólga yrði ekki komin í markmið fyrr en um mitt næsta ár. Þá nefnir bankinn að verðbólguvæntingar hafi haldið áfram að lækka og eru við markmið á flesta mælikvarða.

Eru stýrivextir að ná lágmarki í bili?

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir m.a.:

„Vextir bankans hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentur frá því í vor og eiga áhrif þess enn eftir að koma fram að fullu. Lækkun vaxta hefur stutt við eftirspurn og miðað við spá bankans ætti núverandi vaxtastig að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta.“

Lesa má úr tilkynningunni að allar líkur eru á að þetta sé síðasta vaxtalækkun bankans í bili, eða allt til loka ársins 2020. Á árinu 2021 eru horfur á að vextir taki að hækka eitthvað að nýju þegar betur fer að ára í hagkerfinu og verðbólguþrýstingur eykst lítillega á nýjan leik. Hins vegar er ekki útilokað að stýrivextir verði lækkaðir enn frekar á næsta ári ef afturkippurinn reynist dýpri en við höfum gert ráð fyrir. Slík þróun væri líkleg til að birtast bæði í minni verðbólguþrýstingi og auknum framleiðsluslaka þegar kæmi fram á næsta ár.

Fyrir áhugasama er hér hægt að sjá vefútsendingu þar sem vaxtaákvörðunin er rökstudd:

Vaxtaákvörðun Seðlabankans

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband