Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,2% í maí samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga minnkar því úr 4,2% í 3,8%. Verðbólga miðað við VNV án húsnæðis mælist 2,7%, hjaðnar því einnig milli mánaða og mælist nánast í markmiði. Mæling maímánaðar er heilt yfir í takti við okkar spá en við spáðum 0,2% hækkun VNV. Spár greiningaraðila voru á bilinu 0,2% til 0,36% hækkun VNV í mánuðinum. Myndin að neðan sýnir að helstu frávikin voru í reiknaðri húsaleigu ásamt húsgögnum og heimilisbúnaði. Reiknaða húsaleigan hækkaði annan mánuðinn í röð nokkuð umfram okkar spá en húsgögn lækkuðu talsvert.
Hægir á verðbólgu í takt við væntingar
Ársverðbólga dýfði tánum aftur inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í maí. Lægri flugfargjöld vógu þyngst til lækkunar en reiknuð húsaleiga og matvara til hækkunar. Von er á áframhaldandi hægari hjöðnun ársverðbólgu í sumar.
Lækkun flugfargjalda eftir hækkun um páska og óvænt lækkun húsgagna og heimilisbúnaðar
Árviss hækkun flugfargjalda um páska gekk til baka að hluta til nú í maí líkt og við áttum von á. Alls lækkuðu flugfargjöld um 7,4% (-0,18% áhrif á VNV) en við spáðum 5,2% lækkun (-0,13% árif á VNV). Annar undirliður ferða og flutninga, eldsneyti, lækkaði um 1,07% (-0,04% áhrif á VNV). Heimsmarkaðsverð á Brent hráolíu er um þessar mundir nálægt sínum lægstu gildum í rúm fjögur ár en við eigum von á því að verð á eldsneyti haldi áfram að lækka jafnt og þétt fram á sumar. Afleidd áhrif lægra olíuverðs ættu einnig að gera vart við sig af meiri krafti þegar líður á sumarið sem og áhrif sterkari krónu.
Verðlækkun húsgagna, heimilisbúnaðar o.fl. kom okkur á óvart en þar vó verðlækkun raftækja þyngst. Alls lækkaði verð um 1,35% í mánuðinum (-0,07% áhrif á VNV) en við höfðum spáð lítilsháttar lækkun. Þar af lækkuðu raftæki um 4,34% í verði (-0,05% áhrif á VNV) og skýra því stærstan hlutalækkunarinnar. Hugsanlega er um að ræða fyrstu áhrif sumarútsalna í flokknum eða verðlækkanir af völdum sterkari krónu, en líklegast blöndu af hvoru tveggja.
Kunnuglegir hækkunarvaldar
Reiknuð húsaleiga vó þyngst til hækkunar VNV í mánuðinum en hún hækkaði aftur nokkuð umfram spár. Alls nam hækkunin 0,73% (0,15% áhrif á VNV) samanborið við okkar spá upp á 0,4% hækkun (0,08% áhrif á VNV). Hækkanir í liðnum hafa verið nokkru meiri en við áttum von á tvo mánuði í röð sem veldur okkur nokkrum áhyggjum. Samt sem áður eigum við von á minni hækkunum í liðnum á næstunni. Hins vegar gætu áhrif aukinnar skammtímaleigu sett strik í reikninginn yfir sumartímann.
Verðhækkanir matar- og drykkjarvara vógu næstþyngst til hækkunar VNV í mánuðinum. Alls hækkaði verð á mat og drykk um 0,7% (0,11% áhrif á VNV) sem var í takti við okkar spá, en við spáðum 0,6% verðhækkun í liðnum. Þar höfðu mest áhrif verðhækkanir á mjólk, ostum og eggjum en þar spilar ákvörðun Verðlagsnefndar búvara stórt hlutverk enda ákvað nefndin að hækka lágmarksverð mjólkur í maí.
Framhaldið
Það sem af er ári hefur verðbólga verið aðeins meiri en von var á. Innlendar vörur hafa verið einn helsti verðbólguvaldur á árinu en kostnaður við innlenda framleiðslu hefur aukist töluvert, m.a. vegna hærri launakostnaðar. Þó hafa aðrir þættir haldið aftur af verðbólgu, t.d. sterkari króna og lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu, en þó minna en vonir stóðu til. Við eigum von á áframhaldandi hægri hjöðnun verðbólgu í sumar og gerum ráð fyrir eftirfarandi í bráðabirgðaspá okkar:
- Júní: 0,4% hækkun VNV (ársverðbólga 3,7%)
- Júlí: 0,2% hækkun VNV (ársverðbólga 3,4%)
- Ágúst: 0,3% hækkun VNV (ársverðbólga 3,6%)
Í lok sumars er svo von á því að árstaktur verðbólgu hækki á ný þegar áhrif vegna niðurfellinga skólagjalda í nokkrum háskólum landsins detta út úr mælingunni og svo aftur í haust þegar áhrif vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða í grunnskólum landsins detta út úr mælingunni. Við spáðum því í nýútgefinni þjóðhagsspá okkar að verðbólga yrði að jafnaði 3,9% í ár samanborið við þau 3,6% sem við spáðum í þjóðhagsspá okkar í janúar. Hækkunin er aðallega til komin vegna verri upphafsstöðu.
Óvissa í alþjóðamálum hefur ekki verið meiri um langa hríð og getur vitaskuld haft mikil áhrif á framhaldið. Þá geta áhrifin bæði verið til meiri eða minni verðbólgu eftir því hvort eftirspurn eða framboð verða fyrir meiri áhrifum. Ef mikil röskun verður á aðfangakeðjum mun verðbólga líklega aukast til skemmri tíma en nokkuð líklegt er að hún minnki til lengri tíma ef það hægir mikið á eftirspurn. Á næsta ári eigum við von á því að verðbólga gangi áfram niður en láti staðar numið undir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans en þó nokkuð yfir verðbólgumarkmiðinu sjálfu. Spá okkar gerir þannig ráð fyrir 3,5% verðbólgu að jafnaði árin 2026 og 2027.